Framleiðsla og sala á búvörum

77. fundur
Mánudaginn 10. febrúar 1992, kl. 14:04:00 (3329)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil á þessu stigi lýsa stuðningi við það að þetta frv. fari til nefndar þar sem það að sjálfsögðu þarf að fá nákvæma skoðun. Ég er sammála hæstv. landbrh. að það þarf að hraða þeirri skoðun en ég legg sérstaka áherslu á að það er nauðsynlegt að hún sé ítarleg og ekki kastað til hennar höndunum. Því miður hefði þetta frv. þurft að vera fyrr á ferðinni og hefði þurft að lögfestast helst fyrir jól. En ég vona að menn vinni vel og rösklega að lagasetningunni þannig að hún geti farið fram sem allra fyrst.
    Búvörusamningur hefur verið gerður og við stöndum frammi fyrir þeim veruleika og verðum að lifa við hann. Ég ætla ekki að ræða hann í smáatriðum hér eða nú. Með þessum búvörusamningi hefur bændastéttin tekið á sig miklar fórnir. Og það eru reyndar ekki einu fórnirnar sem bændastéttin hefur tekið á sig á undanförnum árum því að með geysilegri framleiðsluskerðingu, sem ég efast nú um að almenningur geri sér grein fyrir hvað hefur verið þungbær, hafa bændur tekið á sig feiknarlegar fórnir. Því er við að bæta að bændur gerðu þjóðarsáttina mögulega með því að falla frá kröfum, réttmætum kröfum sem þeir áttu til verðhækkana á sinni framleiðslu í framhaldi af verðhækkun aðfanga, þannig að bændur hafa út af fyrir sig tekið á sig miklu meiri skerðingu heldur en aðrar stéttir í þjóðfélaginu.
    Með þessu frv. og með búvörusamningnum má þó segja að mörkuð sé innlend landbúnaðarstefna, þ.e. að við séum sjálfum okkur nógir um landbúnaðarvörur en stefnum ekki að því að flytja út dilkakjöt eða mjólkurvörur nema þá í mjög litlum mæli. Þessar hugmyndir um beinu greiðslurnar var niðurstaða sem ákveðið var að prófa. Þær eru náttúrlega fyrst og fremst hagsbætur fyrir ríkissjóð og vonandi og reyndar vissulega hljóta að verða til hagsbóta fyrir neytendur. Það er þó með því fororði að milliliðir blandi sér ekki í málið og hrifsi til sín það sem bændur fórna með þessari breytingu. Ég held að það sé langsótt að ímynda sér að þessi breyting geti orðið til hagsbóta, til fjárhagslegra hagsbóta fyrir bændur. En bændur hugsa um þjóðarhag og satt að segja finnst bændastéttinni enn þá að hún beri ábyrgð á þessu þjóðfélagi öllum öðrum stéttum fremur. Þetta er sennilega arfur frá gamalli tíð, en hugsunarháttur bænda í þessu tilfelli hefur ekkert breyst frá fyrri öld eða frá því snemma á öldinni þegar bændur voru mikils ráðandi hér um málefni þjóðarinnar og flestir Íslendingar lifðu í sveitum. Saga undanfarinna ára sýnir að samtök bænda eru reiðubúin að láta stéttina færa umtalsverðar fórnir. Ég ætla ekki að fjölyrða um það meira hér að sinni.
    En eins og ég sagði áðan hefði þetta frv. þurft að koma til afgreiðslu fyrr. Því miður stendur ríkisstjórnin ekki við sinn hluta af búvörusamningnum að því leyti að beinar greiðslur þessa árs eru skertar verulega. Og beinu greiðslurnar voru hugsaðar til að nema svo sem launalið bóndans. Bóndinn þarf að kaupa sín aðföng til búsins og þar getur hann ekkert skorið niður. En með því að draga beinu greiðslurnar svo sem ákveðið var í fjárlögum þá er verið að hýrudraga bændur um launahlutann því það er það eina sem hægt er að ganga á, það eina sem bóndinn hefur til ráðstöfunar, hitt er allt fast og óhjákvæmilegt. Þetta virkar í grófum dráttum þannig að 1 / 6 hluti launa bóndans á þessu ári greiðist ekki. Og mér er nú spurn: Hvaða önnur stétt í þjóðfélaginu mundi láta það yfir sig ganga að taka það á sig að vera hýrudregin um sjötta hluta launa sinna?
    Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að íhuga þetta, og almenning í landinu, að bændur eru með afgreiðslu síðustu fjárlaga sviptir sjötta hluta árslauna sinna. Það er ekkert lítið kjaftshögg fyrir þá. Þeir að vísu eiga von í að fá þetta uppi borið á árinu 1993 en það gerir þeim hins vegar ekki léttara fyrir að standa í skilum um næstu áramót og ég óttast að það verði lítið um jólagjafir á a.m.k. sumum sveitaheimilum um næstu jól vegna þessa tiltækis ríkisstjórnarinnar.
    Ég legg á það mjög mikla áherslu að Íslendingar móti sína landbúnaðarstefnu sjálfir og taki ekki við einhverjum fyrirskipunum utan frá um hvernig skynsamlegast sé að haga landbúnaði á Íslandi. Að því leyti til er það kostur á þessu frv. að það miðar í þá átt. En eins og hæstv. ráðherra benti á þá stangast þetta frv. og hin íslenska landbúnaðarstefna í grundvallaratriðum á við þær hugmyndir sem settar hafa verið fram í GATT-samningunum og kenndar eru við Dunkel. Og ef niðurstaðan af GATT-samningunum, sem ég ætla heldur ekki að ræða í bili, yrði sú eða í líkingu við það sem tilboð Dunkels hljóðaði upp á, þá gjörbreytir það auðvitað íslenskri landbúnaðarstefnu og þyrfti tvímælalaust ekki bara að endurskoða íslenska landbúnaðarstefnu, það mundi algerlega kollvarpa íslenskri landbúnaðarstefnu, enda værum við þá heldur ekki í færum til þess að móta hana sjálfir.
    Ég átel það sem sagt að frv. skuli ekki hafa komið til afgreiðslu fyrr. Ég lýsi stuðningi við að það fari til nefndar en legg áherslu á að það fái þar nákvæma efnislega athugun og það verði unnið hratt að henni þannig að frv. þessa efnis og sem nær þeim tilgangi sem þessu frv. er ætlað að ná verði afgreitt hér sem allra fyrst.