Framleiðsla og sala á búvörum

77. fundur
Mánudaginn 10. febrúar 1992, kl. 15:18:00 (3333)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Mér ferst nú eins og síðasta ræðumanni að það eru ekki mörg orð sem mér dettur í hug að hafa um hans ræðu. Hins vegar kom þar ýmislegt fram sem eflaust á eftir að verða hér umfjöllunarefni. Sérstaklega upplýsingar hans úr bakskjölum Viðeyjarsáttmálans.
    Það sem ég vildi lítillega koma inn á varðandi þetta frv. eru tvö atriði sem eru í 6. gr. Ég vil geyma mér að ræða um frv. að öðru leyti þar til við 2. umr. en koma á framfæri þessum spurningum sem ég hef tekið niður eftir framsöguræðu hæstv. ráðherra. Það er í fyrsta lagi ábending eða jafnvel spurning sem er raunar sú sama og áður var fram komin hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., þar sem fram kemur í 3. mgr. d-liðar 6. gr. frv. þar sem segir: ,,Ef hætta skapast á að tilfærsla á greiðslumarki gangi gegn æskilegum landnýtingarsjónarmiðum er landbrh. heimilt að takmarka eða stöðva slík aðilaskipti`` o.s.frv. Þar segir ,,heimilt`` en í þeim samningi sem er forsenda frv. --- og frv. er flutt til þess að fullgilda nokkur ákvæði búvörusamningsins --- í gr. 4.3. um gróðurvernd segir ,, . . .  skal landbrh. takmarka`` o.s.frv., þannig að í samningnum er kveðið á um skyldu til viðbragða af hálfu ráðherra við tilteknar aðstæður en í frv. er einungis kveðið á um heimild ráðherra. Þetta ákvæði er ítrekað í viðauka við þennan samning í gr. 5.4. þar sem orðalagið er ,,skal landbúnaðarráðherra takmarka`` o.s.frv. Ég vil leita eftir skýringum ráðherra á þeim mun sem er á þessu atriði frá búvörusamningnum.
    Annað atriði sem ég hnýt um og mér finnst vanta inn í frv., sérstaklega þar sem þess er getið í skýringum við d-lið 6. gr., að ákvæði þeirrar greinar sé í samræmi við gr. 4.2. og 4.3. í búvörusamningi auk bókunar III með honum. Í bókun III með búvörusamningnum er ákvæði um viðskipti með fullvirðisrétt og greiðslumark og ákvæði um hvenær afskipti ráðherra eigi að koma til og þau eru upp talin hér: ,,Ef hætta skapast á að tilfærsla á framleiðslurétti gangi gegn æskilegum landnýtingar- og hagræðingarsjónarmiðum, eða hafi umtalsverða byggðaröskun í för með sér``. Það kemur hins vegar hvergi fram í frumvarpsgreininni heimild eða skyldur ráðherra til að grípa til aðgerða ef umtalsverð byggðaröskun verði afleiðing af væntanlegum viðskiptum með fullvirðisrétt. Og ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvers vegna vanti ákvæði til að fylgja þessu eftir, hvort ráðherra telji nægilegt að hafa bókunina í samningnum til þess að sporna gegn byggðaröskun eða hvort ráðherra sé einfaldlega fallinn frá þeirri stefnu að vera yfir höfuð að sporna gegn því, og sé farinn að taka undir hugmyndir formanns síns, hæstv. forsrh.
    Ég tel að þetta ákvæði sé nokkuð mikils um vert, sérstaklega í nokkrum sveitum landsins á Vestfjörðum og á Norðausturlandi, þar sem menn hafa atvinnu sína nær eingöngu af sauðfjárrækt og hafa í raun og veru að engu öðru að hverfa. Mér þætti því fróðlegt að fá að heyra frá hæstv. ráðherra um það hvernig hann ætlar að framfylgja þessu ákvæði bókunarinnar eða þá hvort hann hafi fallið frá því.
    Í 5. mgr. a-liðar 6. gr. segir: ,,Landbrh. er heimilt í reglugerð að ákveða að niðurfærsla skuli vera mismunandi eftir landssvæðum.`` Í þessari málsgrein er í sjálfu sér ekki vísað beint í búvörusamninginn, en ég spyr hæstv. ráðherra hvort meiningin sé að niðurfærslan verði mismunandi samkvæmt þeim reglum sem teknar eru fram í búvörusamningnum sjálfum í viðauka I eða hvort hann hugsar sér öðruvísi útfærslu á þeirri mismunandi niðurfærslu.
    Eitt atriði enn langaði mig til að spyrja hæstv. ráðherra að sem er ákvæði í viðauka I í búvörusamningnum, þar sem fram kemur í gr. 5.5. að ríkissjóður hafi heimild til að leysa til sín 20% af fullvirðisrétti hverrar sölu. Síðan er það væntanlega á valdi ráðherra að ákveða hvort hann nýtir sér þessa heimild að fullu eða hluta til eða jafnvel falli frá því á ákveðnum svæðum sem byggja afkomu sína nær eingöngu á sauðfjárrækt. Og ég vildi spyrja hæstv. ráðherra eftir sjónarmiði hans eða stefnu varðandi þetta ákvæði, hvort hann muni nýta sér þennan 20% innlausnarrétt í öllum tilvikum eða hvort hann muni falla frá því í einhverjum ákveðnum tilvikum sem eiga við þá forsendu sem greinin tiltekur.