Framleiðsla og sala á búvörum

77. fundur
Mánudaginn 10. febrúar 1992, kl. 15:41:00 (3335)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. þau svör sem hann veitti hér og ég skal láta mér þau nægja í þessari umferð málsins. Ég vænti þess að þau atriði sem ég vakti athygli á eða benti á verði jafnframt yfirfarin af hæstv. landbn. þegar frv. kemur þar til vinnslu, sem væntanlega verður innan skamms.
    Ég vil taka það fram, vegna orða hæstv. utanrrh. hér áðan og endurtaka það sem ég sagði áðan að minn skilningur á eðli þessa máls er sá að þar sem hér eru undir í frv. allmörg veigamikil atriði aðalsamningsins sjálfs þá hljóti að liggja í hlutarins eðli að Alþingi sé með afgreiðslu þessa frv. í reynd sinni að taka afstöðu til búvörusamningsins. Það virðist gæta nokkurs misskilnings eða a.m.k. ónákvæmni í orðalagi hjá mönnum stundum, finnst mér, að samningar eru einu sinni þannig að þeir eru ein heild og hver og einn undirritaður samningur er þannig að það er ekki á valdi samningsaðilanna að taka út úr þá þætti sem viðkomandi í hverju tilviki kann að falla í geð en gleyma öðrum eða vanefna aðra. Annaðhvort stendur samningur og er virtur eða ekki. Ég lít svo á að með því að Alþingi er að taka til umfjöllunar veigamikil ákvæði aðalsamningsins sjálfs sé það í raun og veru að fjalla um samninginn sem slíkan. Það nægir að mínu mati að benda á þá augljósu staðreynd að efni þessa frv. kemur við ákvæði aðalsamningsins á nokkrum stöðum og samningurinn er fylgiskjal með þessu frv. og beinlínis í hann vísað.
    Ég held þess vegna að menn muni átta sig á því að það hljóti að verða niðurstaðan þegar hv. landbn. tekur þetta mál til skoðunar að hér er í raun og veru lagður fyrir í heild sinni samningurinn sem fskj. með þessu frv. þó svo að lagabreytingarnar taki ekki til framkvæmdar nema á hluta af ákvæðum samningsins. Eftir sem áður koma þær inn í hann. Og hefði Alþingi einhverjar meiningar um það að rifta þessum samningi þá ætti sú afstaða auðvitað að koma fram nú en ekki síðar þegar fyrstu meiri háttar atriði samningsins sjálfs koma hér til umfjöllunar.
    Reyndar má segja, og ég hygg að lögskýringar mundu falla á þá leið, að Alþingi, bæði það sem sat á síðasta kjörtímabili og eins það sem nú situr, hafi þegar lýst afstöðu sinni með tiltölulega afgerandi hætti þar sem eru lagaheimildir í lánsfjárlögum fyrir árið 1991 annars vegar og í fjárlögum yfirstandandi árs hins vegar sem Alþingi hefur þegar samþykkt. Það hlyti þess vegna að teljast til tíðinda ef í því yrði ekki talin felast í reynd blessun Alþingis á ákvæðum þessa samnings.
    Varðandi það sem hæstv. utanrrh. sagði hér um aðstæður þegar samningurinn var gerður á sl. vori þá hefur það ekkert upp á sig að fara út í rökræður um það hvort þá var eðlilega að málum staðið eða ekki. Ég er að sjálfsögðu þeirrar skoðunar að svo hafi verið. Ég bendi á að samningurinn er undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis á nauðsynlegum lagabreytingum og það samþykki hefur nú þegar verið veitt í veigamiklum atriðum. Þannig að bæði var því Alþingi sem sat á síðasta kjörtímabili og svo því Alþingi sem nú situr falið það í sjálfsvald að taka afstöðu til málsins sem það hefur þegar gert að nokkru leyti og er enn lagt til að sé gert með þessu frv., sem er stjfrv. og ég lýsi stuðningi við og þeir aðrir sem hér hafa talað. Ég leyfi mér því að vænta þess að bærilega horfi um framgang þess hér á þinginu þar sem það er stjfrv. lagt hér fram og flutt af hæstv. landbrh., kynnt án nokkurs fyrirvara af hálfu stjórnarflokkanna og þeir talsmenn stjórnarandstöðu sem hér hafa talað hafa lýst yfir efnislegum stuðningi við það.
    Í þriðja og síðasta lagi, hæstv. forseti, þá kemst ég ekki hjá því formsins vegna að vekja athygli á þeirri sérkennilegu uppákomu sem varð í ræðu áðan þegar hæstv. utanrrh. kom í ræðustólinn og tók til við að kynna efni óbirts vinnuskjals sem er til einhvers staðar á stjórnarheimilinu og frekar voru þau tvö en eitt, þessi óbirtu málsgögn ( Gripið fram í: Það sýnir traustið.) um landbúnaðarmál sem ég skildi svo að hæstv. utanrrh. væri að vitna í. Það var út af fyrir sig fróðlegt sem þar kom fram en breytir auðvitað ekki hinu að varla er ætlunin af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að í umfjöllun um landbúnaðarmál á hinu háa

Alþingi förum við að notast við einhver óbirt gögn úr skjalaskúffum einstakra ráðherra eða einhver plögg sem aðstoðarmenn þeirra hafa í góðu tómi sett stafina sína undir. Það sem við höfum hér fyrir okkur er stjfrv. í fyrsta lagi og stjórnarsáttmálinn í öðru lagi og mikið meira er það nú ekki sem fyrir liggur um þessi mál. Ég hlýt þess vegna að setja það algjörlega innan sviga að maður taki nokkurt minnsta mark á því sem hæstv. utanrrh. var að lesa hér upp úr einhverjum óbirtum skjölum ríkisstjórnarinnar fyrr en þá að þau skjöl birtast hér með formlegum hætti og eru lögð fram sem málsgögn. Fram að þeim tíma er auðvitað tæplega mikið mark á því takandi og mér fannst það eiginlega kúnstugt að hæstv. utanrrh. skýrði ekki til hvers hann væri að vitna í eða lesa upp úr þessum óbirtu skjölum.
    Eitt fannst mér þó athyglisvert í því sambandi, og það kemur inn á þennan sama misskilning aftur, að að einhverju leyti virðast í þessum skjölum vera á ferðinni hugmyndir þeirra sem þau settu saman um að hæstv. ríkisstjórn geti valið sér þau ákvæði búvörusamningsins sem hún kjósi að efna og önnur ekki. Það er ekki svo. Það er ekki á færi annars samningsaðila af tveimur að tína svona út einhver ákvæði úr samningnum og segja: Ja, þetta ætlum við nú ekki að hafa svona og hitt hinsegin, en svo ætlum við að standa við afganginn. Þannig gerist þetta auðvitað ekki.
    Það er ekki þannig að menn geti ætlast til þess að bændur taki á sig stórkostlega erfiðar skuldbindingar og gangi í gegnum sársaukafullar aðgerðir í sinni atvinnugrein en til mótvægis komi svo nokkrar stuðningsaðgerðir af hálfu ríkisins, þá er það auðvitað ekki þannig að ríkisvaldið geti selt sér sjálfdæmi í því hvað það efnir af þeim stuðningsaðgerðum og hvað ekki. Það væri auðvitað alveg eftir öðru sem við höfum upplifað hér undanfarna daga og undanfarnar vikur að menn létu sér detta slíkt í hug en ég vona að þroski manna sé þó slíkur að gagnvart þessum samningi sem hefur með tvöföldum hætti, á fyrra þingi og þessu þingi, öðlast lögfestingu og er hér í þriðja sinn lagt til í stjórnarfrumvarpi að verði staðfestur, þar á meðal birtast hér í fylgiskjölum búvörusamningurinn og viðaukarnir og það gefur auga leið að samkvæmt venjum um lögskýringu yrði það talið styrkja mjög stöðu þessa plaggs. Það getur hver einasti löglærður maður væntanlega sagt okkur og þá er það enn síður svo að það hafi nokkurt minnsta gildi þó hæstv. utanrrh. komi hér og lesi upp úr einhverjum óbirtum minnisblöðum einhverjar hugmyndir einhverra manna einhvers staðar úti í bæ á einhverjum tíma um að sumt hyggist menn efna og annað ekki.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég tel mikilvægt að þetta mál komist sem fyrst til hv. landbn. og held að það sé þar í góðum höndum. Eins og hér hefur komið fram er mjög mikilvægt að málið nái lögfestingu nú fyrir mánaðamótin þannig að unnt sé að standa við ákvæði beinna greiðslna sem hefjast eiga 1. mars og ég vil fyrir mitt leyti og fyrir hönd míns flokks lýsa því yfir að við viljum stuðla að því að svo geti orðið.