Lokun fæðingardeilda

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 13:38:01 (3338)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Í nýju fréttabréfi frá Hagstofu Íslands kemur fram að meginhluti eða 0,26 af 0,39% hækkun á framfærsluvísitölu vegna verðhækkana hins opinbera á undanförnum þremur mánuðum er vegna hækkana á kostnaði heimilanna vegna heilsuverndar. Í frétt í einu dagblaðanna í dag kemur enn fremur fram að þetta merkir að kostnaður heimila í landinu vegna heilsuverndar hækkaði um 11% um áramótin. Þetta er a.m.k. fertugfalt umfram aðrar breytingar á framfærsluvísitölu samkvæmt tölum Hagstofunnar. Hækkanir á opinberri þjónustu vega þó langþyngst í hækkunum á framfærsluvísitölu almennt. Þetta bitnar jafnframt að öðru jöfnu á þeim sem minnst hafa fjárráðin, sjúklingum, öldruðum og fjölskyldum með ung börn sem eru gjörn á að fá ýmsa kvilla.
    Því hefur verið haldið fram að kostnaður sjúklinga við heilsuvernd hafi lítið aukist. Þessar tölur sýna svo ekki verður um villst að það er reginfirra. Því spyr ég hæstv. heilbrrh.: Hyggst hann beita sér fyrir einhverjum breytingum á reglugerðum til að leiðrétta þessa mismunun á álögum á einstaka þjóðfélagshópa eða þá fyrir breytingum á skattheimtu þannig að hún falli ekki þyngst á lágtekjufólk, svo sem sjúklinga, aldraða og barnafólk, eins og nú tíðkast greinilega, heldur á þá sem betur mega sín svo sem fjármagnseigendur?