Lokun fæðingardeilda

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 13:40:00 (3339)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og menn muna sjálfsagt urðu nokkrar deilur um einmitt þessi atriði á milli heilbrrn. og ýmissa annarra aðila í þjóðfélaginu þegar frá nýrri reglugerð um greiðslu lyfjakostnaðar var gengið á sl. sumri. Ýmsir aðilar, þar á meðal aðilar vinnumarkaðarins sumir hverjir, töldu að kostnaðarleg áhrif þeirrar breytingar yrðu fjórföld á við það sem heilbrrn. áætlaði. Það kom í ljós þegar áhrifin voru gerð upp eftir á að heilbrrn. hafði rétt fyrir sér í sambandi við mat sitt á hinum kostnaðarlegu áhrifum.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef eru áhrif hækkaðra gjalda í heilsugæslu á framfærsluvísitölu 0,25% það sem fram er komið og 0,10% það sem eftir er að koma fram þannig að hér er samtals um að ræða hækkun á framfærsluvísitölu um 0,35%. Það er ekki stór reikningur í framfærslukostnaði fjölskyldna.
    Ég hef aldrei neitað því, virðulegi forseti, að auðvitað þýða þessar auknu gjaldtökur hækkaðan kostnað, hækkaðan tilkostnað fyrir fólk sem þessarar þjónustu nýtur. En við reyndum að haga gjaldtökunni þannig að þeim yrði hlíft eftir bestu föngum sem annaðhvort eru aldraðir, örorkulífeyisþegar, höfðu við langvinna sjúkdóma að etja eða höfðu börn á sínu framfæri. Og ég vil bara benda mönnum á, virðulegi forseti, að við þessa gjaldtöku í heilbrigðisþjónustunni lækkuðu öll almennu gjöldin á þorra lífeyrisþega. Það hefur ekki komið fram en það er full ástæða til þess að menn geri sér grein fyrir því að hin almennu gjöld sem tekin eru af lífeyrisþegum lækkuðu flestöll um allt að 50% þrátt fyrir að verið væri að auka gjaldtöku í heilbrigðisþjónustu. Þannig reyndum við, virðulegi forseti, að hlífa þeim sem minna mega sín.