Lokun fæðingardeilda

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 13:50:00 (3344)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það var svo sem eftir öðru, virðulegi forseti, að hv. stjórnarandstæðingar héldu því fram að með tillögum ríkisstjórnarinnar um niðurskurð á fjárframlögum væri verið að gera tillögu um niðurskurð á fæðingum. Svo er þó aldeilis hreint ekki. Auk þess fara fæðingar að sjálfsögðu ekki fram á heilsugæslustöðvum eins og allir landsmenn vita heldur á sjúkrahúsum.
    Staðreyndin er mjög einföld. Staðreyndin er sú að ég hélt fund með forsvarsmönnum allra sjúkrastofnana á Íslandi í janúarmánuði og óskaði eftir að fá frá þeim rekstraráætlanir á grundvelli þeirra talna sem í fjárlögunum eru um framlög til hverrar stofnunar. Ég óskaði eftir því að fá greinargerð frá þessum aðilum um að hve miklu leyti þeir treystu sér til þess að standa við framlögin samkvæmt ákvörðunum fjárlaga með aðhaldsaðgerðum, samdrætti og sparnaði og að hve miklu leyti þær mundu koma fram í samdrætti á rekstri þegar ekki væri lengur hægt að grípa til almennra aðgerða. Þetta vildi ég fá frá stjórnendum stofnanna til þess að geta metið það þegar ég gerði tillögur um útdeilingu á tæplega 500 millj. kr. fjárveitingu sem ég hef til þess að draga sárasta sviðann úr þessum niðurskurði, að hve miklu leyti væri þá hægt að ganga til móts við stjórnendur þessara stofnana til þess að varðveita þjónustustigið.
    Ég hef fengið þessar tillögur frá allflestum sjúkrastofnunum á Íslandi á réttum tíma, mjög vel og vandvirknislega unnar og ég vil nota þetta tækifæri, virðulegi forseti, til að færa stjórnendum þessara stofnana þakkir fyrir það hversu vel þeir hafa unnið sitt verk. Ég er nú búinn að gera tillögur til fjárln. og fjmrn. um ráðstöfun á þeim varasjóði sem ég hef til allra stofnana heilbr.- og trmrn. utan stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík. Og ég get fullyrt að ég tel að okkur muni takast að varðveita þjónustustig þessara stofnana að langmestu leyti þannig að ekki komi til þess neyðarástands hvorki á landsbyggðinni né hér í Reykjavík sem fólki hefur verið talin trú um að sé á næsta leiti. Það munu ekki eiga sér stað neinir hreppaflutningar hvorki á sjúklingum, konum sem bíða fæðingar né öldruðu fólki. Engir hreppaflutningar nú fremur en hafa verið á undanförnum árum. Og til allrar guðslukku held ég að okkur takist að varðveita þjónustustigið í heilbrigðiskerfinu, jafnvel á þessum aðhaldstímum.
    Við skulum gera okkur grein fyrir því að það er ekkert markmið í sjálfu sér, virðulegi forseti, að heilbrigðiskerfið og heilbrigðisþjónustan á Íslandi skuli endilega þurfa að vera í hópi þeirra dýrustu í heiminum, vegna þess að það er ekki endilega samasemmerki á milli þess að þjónusta sé mjög dýr og þjónusta sé mjög góð. Dýrasta heilbrigðisþjónusta í heiminum er í Bandaríkjunum en ég held að við flest hér inni séum þó sammála um að sú heilbrigðisþjónusta sé ekki hin besta í heiminum. Það er okkar markmið að varðveita góða heilbrigðisþjónustu en það er ekki markmið í sjálfu sér að varðveita dýrari heilbrigðisþjónustu en ástæða er til að þjóðin þurfi að borga.