Lokun fæðingardeilda

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 13:58:00 (3348)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það er spurt hvort ég sé sammála þeirri gagnrýni sem komið hefur fram frá ákveðnum ráðherrum og einum þingmanni á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Það er nú svo að fréttastofa Ríkisútvarpsins er ekki hafin yfir gagnrýni. Ég býst við að við séum sammála um það. Því miður er það svo að mér þykir of oft bera við að fréttaflutningur fréttastofu Ríkisútvarpsins sé ekki hlutlaus fremur en hjá öðrum fréttastofum í landinu. Ég býst við að allir þingmenn hafi orðið einhvern tímann fyrir því að þeim þyki ekki á hlutlausan hátt skýrt frá því sem þeir hafa verið að segja eða gera hér í þinginu eða á fundum sem þeir hafa sótt.
    Það er ekki sérstaklega ætlun mín við endurskoðun útvarpslaganna að þrengja reglur um fréttastofu Ríkisútvarpsins. En eitt af því sem hlýtur að koma til endurskoðunar við endurskoðun útvarpslaga er auðvitað starfsemi fréttastofunnar. Ég hef sagt það og get endurtekið það hér að ríkisrekstur á fjölmiðli sem útvarpi og sjónvarpi er varla réttlætanlegur nema tryggt sé að hlutleysis sé gætt á viðkomandi fréttastofu. Mér þykir því ástæða til að það verði áréttað að fyllsta hlutleysis sé gætt á fréttastofu Ríkisútvarpsins. En það liggja ekki fyrir neinar ákvarðanir um það hvaða veganesti væntanleg endurskoðunarnefnd fær af hálfu ráðherra.