Landakotsspítali og stefna ríkisstj. í málefnum sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 14:54:00 (3358)

     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Það er ljóst að þessi umræða er fyllilega tímabær og hefði reyndar átt að takast upp í tengslum við umræður um fjárlögin sjálf. Reyndar var það reynt oftar en einu sinni að fá að ræða við hæstv. heilbrrh. um þá stefnu sem þar var mótuð varðandi málefni sjúkrahúsanna sérstaklega og reyndar heilbrigðisþjónustunnar almennt og það er nú að sannast á hverjum degi betur og betur að það sem við stjórnarandstæðingar sögðum í þeim umræðum, bæði um fjárlögin sjálf og eins um frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, að það sem hér væri verið að gera væri veruleg misþyrming á okkar mikilvæga en viðkvæma velferðarþjóðfélagi, kemur betur og betur í ljós nú á hverjum degi. Reyndar eru ekki öll kurl komin til grafar í því sambandi og á eftir að koma enn betur í ljós þegar líður á árið.
    Við sögðum þá að með þeim fjárlagatillögum sem fyrir lágu og hafa nú verið samþykktar sem fjárlög þessa árs væri verið að lama starfsemi Landakots, lama starfsemina og það er þess vegna furðulegt að hæstv. ráðherra skuli aftur og aftur segja að þetta sé nokkurn veginn eins og gert hefur verið undanfarin ár. Það hafi verið hert verulega að starfsemi Landakots og það hafi kannski fremur bitnað á því sjúkrahúsi heldur en öðrum sá samdráttur sem var vissulega í fjárveitingum til ýmissa heilbrigðisstofnana. Ég leyfi mér að mótmæla því.
    Landakot hafði á nokkrum árum farið verulega fram úr fjárveitingum og ríkisstjórn sú sem þá sat, þáv. hæstv. fjmrh., þ.e. núv. utanrrh., vann með mér m.a. að því að reyna að semja við Landakotsspítalann um að þeir færu eftir fjárlögum. Það var fyrst og fremst það sem við gerðum. Það var ekki niðurskurður á þeirri stofnun umfram það sem almennt gerðist. Við vöruðum við því að slíkur flatur niðurskurður sem nú er framkvæmdur væri óraunhæfur aftur og aftur með svo skömmu millibili. Við reyndum þetta 1989 með nokkrum árangri, ekki þeim sem þó var að stefnt og þess vegna mátti ljóst vera að það að reyna að fara þessa leið aftur nú væri einnig nánast óframkvæmanlegt. Landakot fær hins vegar alveg sérstaka meðferð í þessari fjárlagaafgreiðslu eins og allir vita og því er þessi staða uppi sem nú blasir við.
    Það hafa því miður ekki farið neinar umræður fram um það af hálfu hæstv. ráðherra eða ráðuneytis hans hverjir eigi í raun að taka við þeim sjúklingum og þeirri þjónustu sem þarna er lögð niður og þeim sjúklingum sem þar verður úthýst. Landakot hlýtur með þessari afgreiðslu að þurfa að leggja niður sína bráðaþjónustu og hvað eiga þá hinar stofnanirnar að gera sem einnig verða fyrir verulegum niðurskurði, flötum niðurskurði, eins og allir vita? Eiga þær kannski að ráða sér dyravörð eða útkastara við móttöku bráðaþjónustudeildanna, slysamóttökudeildanna þar sem sagt er við fólk: Við höfum því miður ekki fjármuni til þess að annast þessa þjónustu og við getum ekki tekið við ykkur? Nei, það er auðvitað ekki þannig og verður ekki þannig, hæstv. heilbrrh. Landspítalinn og Borgarspítalinn eru nokkurs konar endastöðvar og verða það í þessari þjónustu og hljóta að taka við þessum sjúklingum. Þær geta í raun ekki annað. Þeim verður auðvitað ekki úthýst. Og þá er líka jafnljóst að ef þær stofnanir fá ekki aukna fjármuni til að taka við þessari þjónustu sem Landakot þarf að leggja af, þá lenda þær auðvitað líka í miklum erfiðleikum með sín fjárlög ef þær neyðast þá ekki til þess að fara þar umfram.
    Uppsagnir fólks á Landakoti eru eftir því sem ég best veit einhverjar þær mestu, ef ekki þær mestu, fjöldauppsagnir sem um getur í íslenskri sögu. Aldrei hefur eins miklum fjölda fólks verið sagt upp í einu lagi. Og auðvitað bitna þessar uppsagnir að verulegu leyti á fólki um og yfir miðjum aldri sem á erfitt með að verða sér úti um vinnu að nýju. Reyndar hefur hæstv. félmrh. verið beðinn að hlaupa nú í skarðið fyrir hæstv. heilbrrh. og leysa málin ef hægt væri og ég veit að félmrh. mun að sjálfsögðu leggja sig fram um að gera það sem hún getur í því sambandi, en það er hins vegar dálítið hlálegt að það skuli vera teknar upp viðræður um það í hæstv. ríkisstjórn hvernig eigi að hjálpa því fólki um vinnu á ný annars staðar þar sem aðgerðir hæstv. heilbrrh. og ríkisstjórnarinnar allrar hafa leitt til að þurfi að segja upp. Mér finnst þetta vera dálítið einkennileg vinnubrögð, ég verð að segja það.
    Nú er unnið að stofnun nýrrar heilbrigðisstofnunar sem þó er ekki vitað með hvaða sniði á að vera og hæstv. ráðherra sagði hér áðan að auðvitað hlytu menn að skoða hvernig form ætti að vera á því, hvort það væri hlutafélag eða hvað --- við höfum reyndar heyrt að verið sé að tala um hlutafélag. Hvað ræður stofnun hlutafélags? Hvað ræður framlögum manna til hlutafélaga eða kaupum manna á hlutabréfum? Hlýtur það ekki að vera hagnaðarvon eða hagnaðarsjónarmið? Og erum við þá ekki, hæstv. heilbrrh., að stefna út í það sem þú lýstir ágætlega hér áðan í annarri umræðu, einhverja dýrustu þjónustu í heimi sem er reyndar ekki sú besta, sú sem rekin er í Bandaríkjunum? Nei, við skulum reyna að varast þau víti sem við vitum að þar eru til staðar, þ.e. hina tvöföldu heilbrigðisþjónustu sem þar hefur verið byggð upp og reyndar mun nú vera víðar, t.d. í því ágæta kerfi sem járnfrúin hefur komið upp í Englandi eða gerði á sínum valdaárum, frú Thatcher, þar sem hún byggði upp tvöfalda heilbrigðisþjónustu sem ekki er til fyrirmyndar. Við skulum reyna að forðast það, hvað sem öllu öðru líður.
    En það er staða Landakots sem hér er sérstaklega til umræðu að þessu sinni og auðvitað ljóst að Landakoti, forsvarsmönnum þeirrar stofnunar, var á ný þröngvað út í þessar samningaviðræður um nýtt sjúkrahús sem forsvarsmenn þar höfðu þó áður lýst sig andvíga. Þetta er gert á nokkuð þjösnalegan hátt og þó að hæstv. ráðherra reyni nú að segja það í blaðaviðtölum að honum sé ekki þröngvað og ekki sé verið að ýta neinum eða neyða neinn í þessar viðræður þá má m.a. vitna í Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins um síðustu helgi í því sambandi þar sem m.a. er sagt um stjórnendur Landakots: ,,Þeim er stillt upp við vegg með þeim hætti að menn hafa tæpast orðið vitni að slíkum starfsaðferðum hjá opinberum aðilum,`` eins og þar segir orðrétt, með leyfi virðulegs forseta. Svo segir áfram:
    ,,Vinnubrögðin ein út af fyrir sig hafa vakið reiði hjá almenningi. Hér hefur ekki verið staðið vel að verki.`` Það eru því fleiri þeirrar skoðunar heldur en sá sem hér stendur að auðvitað hefur mönnum verið þröngvað hér út í samninga um nýtt sjúkrahús eða vinnubrögð sem þeir voru ófúsir til að taka þátt í.
    Áður hafa verið umræður uppi um það að sameina sjúkrahús í Reykjavík. Sá sem hér stendur hefur m.a. lagt það til. Markmiðið var auðvitað að ná fram hagræðingu og sparnaði. Ég er reyndar alveg viss um að það er hægt. Það er hægt að gera það. Það þarf nokkurn tíma til þess að vinna slíkt og það þarf að vanda til þeirrar vinnu. Það er hins vegar ekki rétt hjá hæstv. ráðherra --- og það er eins og stundum hefur komið fyrir áður hjá honum að hann tekur út úr tillögum fyrirrennara síns ákveðin atriði og segir að þetta sé nú það sem hafi verið gert áður og lagt til áður og hann sé aðeins að fara í þann sama farveg, en hann slítur úr samhengi --- þegar hann segir að tillögur hafi verið um það að gera Landakot að hjúkrunarheimili í ráðuneytinu áður en hann kom þangað inn. Þá var það hluti af öðru plani, öðru en því sem hann er nú að leggja til. Það var hluti af öðrum hugmyndum um sameiningu sjúkrahúsa. Þá voru uppi hugmyndir um að sameina stóru sjúkrahúsin öll.
    Ég held að e.t.v. megi benda á einhvern sparnað samfara því að sameina Borgarspítalann og Landakot sé litið til skemmri tíma, en það verða hins vegar stórkostlega aukin útgjöld þegar við lítum til lengri tíma. Þetta er ekki bara mín hugmynd, heldur er þetta álit íslenskra sérfræðinga í heilbrigðisþjónustu, svo og erlendra rekstrarráðgjafa sem hér hafa verið fengnir til starfa til þess að skoða hvernig við getum best komið fyrir okkar heilbrigðisþjónustu. Ég hlýt að harma það að ráðherra lýsir því yfir í blaðaviðtali að honum finnist ekki mikið til þeirrar vinnu koma. En lýsir því þó jafnframt yfir í því sama viðtali að það sé að vísu galli að við getum ekki leitað til erlendra ráðgjafa, við eigum enga íslenska ráðgjafa til hér, segir hann, til þess að leita upplýsinga um hvernig eigi að reka heilbrigðisþjónustuna, en hafnar hins vegar að taka nokkurt tillit til þeirra hugmynda sem erlendir ráðgjafar sem hafa unnið að slíkum málum áður leggja til hvað varðar okkar þjónustu hér.
    Hæstv. ráðherra segir líka í blaðaviðtali um helgina að hann muni hafa skýrslu um tillögur um sameiningu Borgarspítala og St. Jósefsspítala til hliðsjónar við þá vinnu sem hann er nú að leggja upp með, en í þeirri skýrslu kemur skýrt fram að menn telja að þetta þurfi miklu lengri tíma. Þar er beinlínis sagt að það þurfi a.m.k. þrjú ár til þess að ná þessari sameiningu. Hún muni ekki leiða til sparnaðar á þessu

ári, lítils sparnaðar ef nokkurs á næsta ári, og það verði ekki fyrr en 1994 sem hægt sé að fara að tala um sparnað. En það er auðvitað alveg ljóst af þessum umræðum að sá sparnaður, sá niðurskurður sem er á þessum stofnunum, og er boðaður nú, hlýtur að draga fyrst og fremst úr þjónustu í verulegum mæli.
    Viðræður um verkaskiptingu við ríkisspítalana hafa hins vegar engar verið, hafa engar verið í gangi. Ef af stofnun þessa nýja sjúkrahúss verður, heldur þá hæstv. ráðherra virkilega að það verði auðveldara síðar að taka upp þessar viðræður þegar samkeppni þessara tveggja stóru sjúkrahúsa er hafin og hún verður í algleymingi? Það er alveg ljóst að hún hlýtur að koma upp. Það verður samkeppni um húsnæði, það verður samkeppni um tækjabúnað, það verður samkeppni um vinnuafl sem mun leiða til aukins kostnaðar fyrir okkar heilbrigðisþjónustu til lengri tíma. Það mun leiða til þess að skattgreiðendur verða fyrir ómældum viðbótarútgjöldum.
    Ég vona sannarlega að það takist að koma í veg fyrir þær hugmyndir sem nú eru uppi hjá hæstv. ráðherra og hann gefi sér betri tíma til þess að skoða aðrar leiðir sem muni leiða til raunverulegrar hagræðingar og raunverulegs sparnaðar, bæði í bráð og lengd fyrir þessa þjónustu okkar sem er mikilvæg og viðkvæm. Við hefðum auðvitað þurft að hafa hér mikið lengri tíma til viðræðu um þetta mál og sá tími var fyrir hendi í umræðunum um fjárlögin og umræðunum um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Hann er því miður of skammur núna en vafalaust á eftir að ræða þetta mál hér miklu oftar og lengur en okkur gefst nú tími til, hæstv. forseti.