Landakotsspítali og stefna ríkisstj. í málefnum sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 15:06:00 (3359)

     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Útgjöld vegna reksturs sjúkrahúsa hérlendis hafa numið 40% af kostnaði í heilbrigðisþjónustu á undanförnum árum. Það er því ekki að undra að leitað skuli leiða til hagræðingar í rekstri þeirra á þeim erfiðleikatímum sem við lifum nú. Það ber hins vegar að hafa í huga að rekstur sjúkrahúsa, þ.e. rekstrarformið sjálft, hefur lítið breyst á sl. árum á sama tíma og þróunin í læknisfræði og í hjúkrun hefur fleygt fram.
    Ýmsir sjúkdómar sem flokkast hafa sem bráðasjúkdómar og kröfðust áður legu jafnvel í fleiri vikur eru nú meðhöndlaðir utan sjúkrahúsa, ýmist með lyfjameðferð einni saman eða með þjónustu frá göngudeildum sjúkrahúsa eða læknastofum. Því hefur hlutfallsleg þörf fyrir rúm sem ætluð eru bráðasjúklingum minnkað. Það er einfaldlega ekki þörf fyrir öll þau rúm sem áður þurfti til að sinna þessum sjúklingum. Hins vegar hefur þörfin fyrir hjúkrunarrými aldraðra aukist gífurlega á undanförnum árum og ekki fundist lausn á þeim vanda.
    Í umræðum um þessi mál hefur mikið verið rætt um hvernig skuli bregðast við þessum breytingum. Það hefur verið skoðun mjög margra sem að þessum málum standa að nauðsynlegt sé að samþjappa eða samræma bráðaþjónustu sjúkrahúsa, en það er ekki sama hvernig það er gert. Það er t.d. forsenda og algjör nauðsyn að sjúklingar hafi áfram valfrelsi um þjónustu, að ákveðnu marki a.m.k., að gæði haldi áfram að þróast og batna og að aðhald í rekstri haldist og jafnvel aukist ef eitthvað er. Slíkt gerist ekki nema með því að unnt sé að bera saman svipaða þjónustu í mismunandi stofnunum þótt slíkt verði ekki unnt í dýrustu hátækniþjónustu á hverjum tíma. Þetta eru ástæður fyrir því að nú er rætt um sameiningu tveggja bráðaspítala, Borgarspítala og Landakotsspítala. Þessi sjúkrahús, Landakotsspítali og Borgarspítali, bæta hvort annað mjög vel upp faglega séð þar sem hvort um sig hefur þjónustu sem hitt skortir. Með því móti verða hér tvær stofnanir svipaðar að stærð, Landspítali og nýr spítali sem sinnti almennri þjónustu en skipti jafnframt milli sín dýrustu hátækniþjónustu hvers tíma.
    Landakotsspítali hefur um áratugi haft sérstöðu í sjúkrahúsrekstri hérlendis og að mörgu leyti verið til mikillar fyrirmyndar. Rekstrarform þessa spítala hefur verið frábrugðið öðrum og hefur það sem slíkt laðað að sér bæði sjúklinga og starfsfólk án þess að ég sé að halla á önnur sjúkrahús. En á framangreindum forsendum um þróun undanfarinna ára og með tilliti til þess sem áður hefur verið rætt hér, þess þrönga stakks sem Landakoti hefur verið skorinn undanfarin ár, bæði hvað snertir fjármögnun og takmörkuðum möguleikum á auknu umfangi í rekstri, þá hef ég að undanförnu hallast að þeirri skoðun að Landakot og Borgarspítali tækju upp formlega samvinnu eða sameiningu. Ég tel slíkt gefa áframhaldandi möguleika á fjölbreytni í sjúkrahúsþjónustu auk þess sem ekki má gleyma að með aukinni samræmingu í þjónustu þessara stofnana gefst aukið rými fyrir aldraða hjúkrunarsjúklinga, en þar er þörfin brýnust.
    Með því að stofna hlutafélag um nýtt sjúkrahús er verið að tryggja rétt eignaraðila núverandi stofnana en jafnframt að tryggja áframhaldandi gæði og þjónustu þar sem við höfum aðhald m.a. með samanburði milli mismunandi rekstrarforma sjúkrahúsa. Þegar ég nefni mismunandi rekstrarform milli sjúkrahúsa, þá geri ég ráð fyrir auknum sveigjanleika í rekstri og einnig að með sameiningu verði höfð hliðsjón af rekstrarformi Landakotsspítala og þá ekki eingöngu hvað snertir launalið lækna, heldur er ég að tala um allt starfsfólkið.
    Við ákvörðun um verkaskiptingu milli núverandi Landakotsspítala og Borgarspítala tel ég lífsnauðsynlegt að þar verði farið að með gát og sú þjónusta sem þar er boðin nú verði færð til markvisst og með hliðsjón af þeirri aðstöðu sem til boða er nú á hverjum stað. Sá liður sem ætlaður er til stofnkostnaðar á fjárlögum þarf t.d. ekki eingöngu að deilast út til verkefna sem mega teljast naglföst, ef við getum orðað það svo. Enda byggist heilbrigðisþjónustan að meiri hluta upp á fjárfestingu í fólki fremur en í naglföstum innréttingum eða byggingum. Hins vegar er augljóst að fjárfestingar í byggingum og innréttingum geta

reynst nauðsynlegar enda er slíkur kostnaður hlutfallslega lítill miðað við þær upphæðir sem gætu sparast í rekstrarkostnaði ef rétt er á spilunum haldið.
    Miðað við þá stöðu sem við blasir tel ég sameiningu Borgarspítala og Landakotsspítala vera skásta kostinn, en mönnum ber að flýta sér hægt. Ég hef í mörg ár bent á nauðsyn þess að framleiðni sjúkrahúsanna, ef ég má leyfa mér að taka svo til orða, verði skoðuð og borin saman með tilliti til kostnaðar þannig að reynt verði að meta kosti mismunandi rekstrarforma og stjórnunar sjúkrastofnana. Þetta hefur ekki verið gert hingað til. Þeir aðilar sem nú á næstu dögum koma að þessu verki munu vonandi og væntanlega hafa þetta í huga.
    Forsvarsmenn Landakots og Borgarspítala hafa nú lýst yfir vilja sínum til sameiningar. Ég tel að því gefnu nauðsynlegt að af formlegri sameiningu verði strax en ég vil ítreka nauðsyn þess að framkvæmd sameiningarinnar verði gefin nægilegur tími. Sú fjárfesting sem er í mannafla, í húsnæði og í búnaði verði nýtt til hins ýtrasta. Tilfæring á þjónustu verði markviss og á sem hagkvæmastan hátt og að það fjármagn sem menn þurfa til breytinganna verði fundið og varið rétt með hliðsjón af reynslu í væntanlegri þróun. Aðalatriðið fyrir okkur er að við missum ekki sjónar á markmiði heilbrigðisþjónustunnar, þ.e. að veita landsmönnum bestu mögulegu þjónustu á sama tíma og þróunin krefst þess að við gerum áherslubreytingar, að við hagræðum og veitum aðhald.
    Ég hef lokið máli mínu að sinni.