Landakotsspítali og stefna ríkisstj. í málefnum sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 15:40:00 (3363)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Morgunblaðið sagði fyrir skömmu um hæstv. heilbrrh. að hann væri eins og naut í flagi á vettvangi heilbrigðismála. Mér fannst í fyrstu að þetta væru nokkuð ósanngjörn ummæli. En ég verð því miður að segja hæstv. heilbrrh. það að eftir þriggja klukkutíma viðræður í heimsókn á Landakot í dag þar sem við nokkrir þingmenn Alþb. áttum viðræður við stjórnendur spítalans og mikinn fjölda starfsfólks, þá hef ég sannfærst um það að þessi lýsing Morgunblaðsins er líklegast því miður rétt.
    Veit hæstv. heilbrrh. það --- er nú ekki rétt að hugmyndafræðingur breytinganna láti heilbrrh. í friði, því það hefur auðvitað komið fram hér í umræðunum að hugmyndafræðingur þessara breytinga er hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir sem keppist eftir því að búa hérna til stóran einkarekinn spítala í Reykjavík. En það var nú ekki það sem ég ætlaði að segja heldur það að í þessum viðræðum við stjórnendur og starfsfólk spítalans kom fram að það liggur ekkert fyrir um það hvers konar sjúkrahús á að vera þegar búið er að sameina Borgarspítalann og Landakot. Við komum í heimsókn og héldum að yfirlýsingar yfirlæknisins um að breyta ætti Landakoti í öldrunarsjúkrahús væru marktækar. Við fengum þau svör hjá stjórnanda spítalans að svo væri alls ekki. Við sannfærðumst líka um það með því að skoða spítalann að ef breyta á starfseminni allverulega munu þær framkvæmdir kosta mörg hundruð milljónir króna sem gera þarf á húsnæðinu. Hefur komið fram af hálfu heilbrrn. eða fjmrn. að það sé tilbúið að leggja fram það fé? Nei. Þessi umræða er þess vegna satt að segja fáránleg. Hún er fáránleg. Það eru bara reidd fram einhver töfraorð; sameining, fyrirtæki, hlutafélag, og síðan ekkert meir. Hæstv. fjmrh. hefur ekki kvatt sér hljóðs hér í umræðunni en það skiptir auðvitað mestu máli hvað hann segir. Er það stefna fjmrn. að leggja fram hundruð milljóna á ári hverju, samtals fáeina milljarða á næstu 5--6 árum, í þær breytingar og framkvæmdir sem þarf að gera á Landakotsbyggingunni og tækjakostinum og Borgarspítalabyggingunni og tækjakostinum til þess að þessi sameining geti gengið með vitrænum hætti? Við því hefur ekkert svar komið og ég skil ekki hvernig á að setja á laggirnar viðræðunefnd þegar ekki liggur fyrir eitt einasta orð frá fjmrn. um það hvað það eru mörg hundruð milljónir á ári eða margir milljarðar samtals sem á að verja í þessa aðgerð. Ef það svar kemur ekki þá eru allar viðræðurnar í fullkomnu tómarúmi. Það verður þess vegna því miður að segja það að þetta sameiningarmál er fullkomlega fáránlegt eins og það hefur verið lagt fyrir bæði af heilbrn. og fjmrn.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég spyrja hæstv. heilbrrh.: Mun hann ákveða viðbótarfjárveitingu til Landakots á þessu ári, áður en sameiningarviðræðunum lýkur? Já eða nei. Mér hefur verið tjáð á sjúkrahúsinu sjálfu, í þeirri heimsókn sem við áttum þar í dag, að þessar sameiningarviðræður muni taka nokkuð langan tíma. Hins vegar þarf að liggja fyrir í þessari eða næstu viku hvaða viðbótarfjármagn kemur og þess vegna er nauðsynlegt að hæstv. heilbrrh. svari því strax: Mun hann ákveða viðbótarfjármagnið áður en sameiningarviðræðunum lýkur?