Landakotsspítali og stefna ríkisstj. í málefnum sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 15:58:00 (3366)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Varðandi fyrirspurn sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni vil ég eingöngu segja að það er að sjálfsögðu Alþingis að fjalla um það mál hvernig fjárveitingar verða til sjúkrahúsanna á næstu árum. Það liggur ekkert fyrir um það að hálfu fjmrn. annað en það að við ætlum okkur að fylgjast með því að staðið verði við þau fjárlög sem við, meiri hluti Alþingis, höfum nýlega samþykkt eins og hv. þm. þekkir.
    Þegar rætt er um þessi mál hérna þá held ég að það sé hollt fyrir alla þá sem vilja fylgjast með umræðunni, líka fyrrv. fjmrh., að allar tilraunir sem hafa verið gerðar til að hagræða hafa verið gerðar til þess að ná niður kostnaði. Við hefðum hugsanlega getað valið aðra lausn, eins og t.d. þá sem stungið hefur verið upp á að sameina Borgarspítalann og ríkisspítalana. Þá spyr ég, virðulegi forseti: Telja menn að staða Landakots hefði orðið betri eða verri ef sú leið hefði verið valin? Það sem skiptir máli núna er að í fyrsta skipti hefur verið tekið á þessu máli. Það má kannski deila um það hvort það hefði átt að gerast með öðrum hætti, en stjórnir beggja sjúkrahúsanna hafa komið sér saman um ákveðna tiltekna þætti, stjórnvöld eru tilbúin til þess að ræða við þessa aðila og ég er sannfærður um að þegar tímar líða og eftir nokkrar vikur þá verður niðurstaðan sú sem best getur orðið fyrir okkur og fyrir að sjálfsögðu þjóðarhag. Því það er nú einu sinni þannig að það má eyða öllum tekjum ríkisins til heilbrigðisþjónustu ef við kærðum okkur um það, tæknin er slík. Við höfum takmarkað fjármagn og okkur ber að fara eins vel með það og kostur er og reyna að nýta það þannig að það komi sjúklingum sem allra best. Það er kjarni þessa máls.