Landakotsspítali og stefna ríkisstj. í málefnum sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 16:00:00 (3367)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegur forseti. Ég get tekið undir það með hæstv. fjmrh. að auðvitað hafa menn verið að leita leiða til að hagræða og spara á ýmsum sviðum í heilbrigðis- og tryggingamálunum og það var sérstaklega gert af fyrri ríkisstjórn. Ég minnist þess frá þeim tíma er fjmrh. var stjórnarformaður ríkisspítalanna að þá áttu sér stað mikil átök í Sjálfstfl. um það hvaða leið skyldi farin í að sameina sjúkrahús. Ég man ekki betur en hann hafi verið einn ötulasti baráttumaðurinn fyrir því að Borgarspítalinn og Landspítalinn yrðu sameinaðir í eitt sjúkrahús. Hann varð reyndar undir í þeim slag en ég er sannfærður um að hann var að gera það af fullri samviskusemi og var sáttur við sjálfan sig í þeirri baráttu. Því spyr ég: Ef fjmrh., og hann á auðvitað að hafa það fyrst og fremst að leiðarljósi, vill að sem mestur sparnaður og sem mest hagræðing náist út úr því sem hann er að gera á hverjum tíma af hverju beitir ráðherrann sér þá ekki fyrir því að sameina Borgarspítalann og Landspítalann? Ég er sannfærður um, ef sú sameining ætti sér stað, að staða Landakots, í starfstengslum við annað hvort þessara sjúkrahúsa sem sjálfstæður spítali, yrði sterkari á eftir heldur en það kæmi út úr þessari sameiningu þegar Borgarspítalinn gleypir það.