Lánasjóður íslenskra námsmanna

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 16:47:00 (3389)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Forseti biður velvirðingar á því og skal svara hv. þm. Það er ekki meiningin að halda áfram með önnur mál heldur verður tíminn notaður, eins og forseti skýrði frá áðan, til þess að fulltrúar þingflokkanna geti komist að með að tala hér við 1. umr. þessa frv. sem forseti var að boða að væri nú tekið á dagskrá og síðan verður umræðunni frestað og henni haldið áfram á morgun. En forseti hefur ekki í huga að taka fyrir önnur mál í dag en þetta mál þegar fulltrúar allra þingflokka hafa fengið tækifæri til að tjá sig um málið, einn fulltrúi frá hverjum, var forseta tjáð að óskað væri eftir og forseti hefur fallist á þetta, tekur fram að ekki var samið um þetta á fundi heldur komu menn hér til forseta þar sem hann sat í stólnum og þetta samkomulag fór fram hljóðlega og ég tel að hafi verið með góðu gert til þess að taka tillit til stjórnarandstöðu sem óskaði eftir þessu. (Gripið fram í.) Er forseti virkilega ekki búinn að skýra nægjanlega vel hvað til stendur? ( GHelg: Nei, langt frá því.)