Lánasjóður íslenskra námsmanna

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 16:48:00 (3390)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að þurfa að koma hér aftur en vegna þess að hæstv. forseti er í tvígang búinn að endursegja hér ákveðna atburðarás taldi ég nauðsynlegt að láta það koma fram sem að mér snýr í þessum efnum.
    Það er alveg rétt hjá hæstv. forseta að hér var reynt að ná samkomulagi um það undir umræðum um heilbrigðismál í dag með hvaða hætti væri hægt að hefja þessar umræðu um Lánasjóð ísl. námsmanna. Vegna þess að varaformaður þingflokks Alþb. var hér í umræðunum um heilbrigðismálin þá tók ég að mér að ræða við hæstv. menntmrh. um það mál. Það er hins vegar nokkur misskilningur hjá hæstv. forseta að það hafi verið sérstök ósk stjórnarandstöðunnar að þetta yrði með þessum hætti, það er misskilningur. Okkar fyrsta ósk var sú að þessum umræðum um Lánasjóð ísl. námsmanna yrði frestað, þær færu ekki fram í dag. Það var okkar fyrsta ósk. Og röksemdin var sú að það væri óeðlilegt að þegar væri verið að efna til mikilvægs fundar með heilbrrh. hér í næsta húsi, opins fundar í beinni útsendingu og hann er kynntur sérstaklega með þeim hætti, sem hæstv. heilbrrh. gerði í morgunútvarpinu í morgun, þá sé hæstv. heilbrrh. sá eini sem ekki þurfi að gegna þingskyldu sinni hér, því það er alveg ljóst að það eru margir hv. þm. sem

hefðu gjarnan viljað vera á þessum fundi.
    En vegna þess að hæstv. menntmrh. lét í ljósi þá ósk sérstaklega að menn reyndu að greiða fyrir þessu máli í dag vegna þess að hann væri tímabundinn næstu daga, þá fór ég í það verk að reyna að finna svigrúm. Ég gerði það til að reyna að sýna ákveðinn skilning á vinnuáætlun menntmrh. næstu daga. Hins vegar er það auðvitað spurning þegar í ljós kemur að þingmenn una þessu frekar illa hvort á að halda því áfram vegna þess að við bárum þetta í sjálfu sér ekki undir neinar stofnanir hér í þinginu. Við höfðum ekki tíma til þess vegna þess að málið var ekki það vel undirbúið. Ég taldi nauðsynlegt, virðulegi forseti, að þetta kæmi hér fram því það er á nokkrum misskilningi byggt að það hafi verið ósk stjórnarandstöðunnar að þessi háttur yrði hafður á varðandi umræðuna um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það er í sjálfu sér slæmt að þurfa að slíta svona mikilvægt mál í sundur en við vildum teygja okkur til samkomulags við hæstv. menntmrh. en ef það kemur í ljós að það samkomulag veldur hér erfiðleikum þá er auðvitað spurning hvort við, sem að því stóðum, eigum að halda því til streitu.