Lánasjóður íslenskra námsmanna

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 16:53:00 (3392)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til þess að beina þeirri spurningu til hæstv. forseta hvort fyrir því séu einhver fordæmi að fundum á Alþingi Íslendinga sé frestað vegna þess að útvarpsþáttur er í gangi frá klukkan fimm sem nefnist Þjóðarsál. Þessi útvarpsþáttur hefur verið fastur liður hjá Ríkisútvarpinu í nokkur ár. Það sem er að gerast nú er það að hæstv. heilbrrh. hefur verið boðin þátttaka í þeim útvarpsþætti í því formi að svara fyrirspurnum almennings, sem kynni að taka þátt í þættinum að þessu sinni, á Hótel Borg. Sem kunnugt er hefur almenningur átt greiðan aðgang í þessum þætti til þess að tjá sig t.d. um heilbrigðismál og höfðu komið upp óskir um að heilbrrh. sæti þar fyrir svörum. Hvað þetta kemur þinghaldi á Alþingi Íslendinga við get ég satt að segja ekki skilið. Og að sú ósk skuli hafa komið fram frá einum þingflokki að fresta umræðu um málefni Lánasjóð ísl. námsmanna fyrir þær sakir að þessi þáttur er á dagskrá Ríkisútvarpsins á þessum tíma, eins og hann gerir að allri venju, er mér gjörsamlega óskiljanlegt. Ég veit ekki til þess að nokkur fordæmi séu fyrir því að Alþingi Íslendinga felli niður fundi eða fram komi ósk um það að Alþingi Íslendinga felli niður fundi vegna þess að Þjóðarsálin er í gangi. Það væri satt að segja nýmæli í starfsháttum þingsins.