Lánasjóður íslenskra námsmanna

78. fundur
Þriðjudaginn 11. febrúar 1992, kl. 17:01:00 (3396)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Það er misskilningur á ferðum hjá hv. þingmanni Guðrúnu Helgadóttur. Ekki hefur hvarflað annað að mér en að vera viðstaddur alla umræðuna um frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég lét þess getið í viðtölum, sem fóru hér fram á milli mín og nokkurra þingmanna, að ég gæti ekki verið viðstaddur eftir þingflokksfundi á morgun. Það hefur aldrei hvarflað að mér, satt að segja, þótt umræðan hefði getað hafist hér klukkan tvö í dag, að henni mundi ljúka á þessum degi. Hún hlaut því að verða slitin í sundur. Það eru eðlileg vinnubrögð hjá hæstv. forseta að við upphaf þessarar umræðu tali fulltrúar frá hverjum flokki, síðan haldi umræðan eðlilega áfram. Ég taldi mig vera að hliðra hér til í dag vegna þess að óskað hafði verið eftir umræðu um sjúkrahúsmál í höfuðborginni og hæstv. heilbrrh. hafði ekki tækifæri til þess að taka þátt í þeirri umræðu nema í dag. Ég taldi mig vera að hliðra hér til. Nú hefur þingskapaumræða staðið í þrjá stundarfjórðunga um það hvort hefja eigi umræðu um frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna. Auðvitað er það stórmál. En af hverju má ekki hefja þessa umræðu? Það var að vísu ekki samið hér við hvern einasta þingmann enda yfirleitt ekki gert. Það er samið við fulltrúa þingflokkanna og ég vona að ég verði ekki krafinn sagna um það við hverja ég talaði eða hvað okkur fór á milli. Ég tel að tekist hafi um það gott samkomulag en mér er alveg ljóst að það samkomulag var ekki gert við hvern einstakan þingmann stjórnarandstöðunnar. Ég fer fram á það að þessi umræða hefjist nú og henni ljúki ekki í dag fyrr en fulltrúar allra þingflokka hafa fengið tækifæri til þess að tjá sig. Síðan haldi hún áfram með eðlilegum hætti á morgun. Hvort henni lýkur fyrir þingflokksfundi treysti ég mér ekki til þess að segja fyrir um. Mér finnst eðlilegt að í hana verði tekinn sá tími sem þarf.