Lánasjóður íslenskra námsmanna

79. fundur
Miðvikudaginn 12. febrúar 1992, kl. 14:50:00 (3410)

     Árni M. Mathiesen :
    Virðulegi forseti. Ég held að allflestum hafi verið ljóst að það var orðin nauðsyn á því að breyta þeim lögum sem verið hafa í gildi frá árinu 1982 um lán og styrki til námsmanna. Þau lög voru sett í umhverfi þar sem voru neikvæðir vextir og þessi lán voru nánast þau einu sem voru verðtryggð á þeim tíma og margt hefur breyst síðan þá.
    Hv. 4. þm. Austurl. tók reyndar undir það hér í þingræðu í gær að það væri mikil nauðsyn á því að breyta þessum lögum. Og hv. þm. Steingrímur Hermannsson lýsti því yfir áðan að hann og hans flokkur styddi sparnað í þessum efnum. En markmið þessa lagafrv. er að minnka fjárþörf sjóðsins þannig að hún sé í samræmi við það sem okkar þjóðfélag þolir og almenningur sem þetta greiðir getur sætt sig við. Jafnframt að styrkja söðu sjóðsins til frambúðar til þess að hann geti gegnt sínu meginhlutverki og forðast þannig þær dýru lántökur sem hv. þm. Svavar Gestsson tíðkaði í sinni tíð sem menntmrh. Afleiðingar þessa fyrir námsmenn munu væntanlega verða þær að þeir munu þurfa að taka meiri ábyrgð á sjálfum sér og framtíð sinni. Og þegar þeir taka ákvörðun um það hvers konar nám þeir ætla að stunda þá þurfa þeir að íhuga hvort sú ákvörðun tryggir þeim þá framtíð sem þeir óska sér.
    Nám og námslán eru auðvitað fjárfesting. Þau eru bæði fjárfesting námsmannsins og þjóðfélagsins. Og því er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort námið auki möguleika námsmanns til verðmætasköpunar bæði efnalegrar og huglægrar, bæði sjálfum sér til hagsbótar og þjóðfélaginu öllu.
    Það hefur borið við í þessari umræðu að LÍN hafi verið ætlað að leysa ýmis önnur vandamál heldur en beint er hægt að heimfæra undir vandamál námsmanna, svo sem vændamál einstæðra mæðra, vandamál húsbyggjenda og vandamál illa launaðra opinberra starfsmanna. Þessi vandamál eru raunveruleg og þau þurfum við að leysa en þau þurfum við að leysa annars staðar en hjá Lánasjóði ísl. námsmanna.
    Ræðumenn hafa hnotið um ýmis atriði í þessu frv. og hafa sérstaklega velt fyrir sér hvers vegna

svokallaðri 20 ára reglu er ætlað að vera í gildi, þ.e. að ekki sé lánað til sérnáms nema lántakandi hafi náð 20 ára aldri. Þetta er einfaldlega vegna þess að mati þeirrar nefndar og ráðherrans sem leggur fram frv. að jafnræðis yrði ekki gætt á milli þeirra sem stunda nám og eru yngri en tvítugir. Þannig geta tvíburar verið í námi í sama skóla, annar í bóknámsbraut og hinn á iðnnámsbraut og annar fær lán og hinn ekki. Þegar hins vegar er komið að háskólanámi, þá eiga allir þeir sem í háskólann komast, hvort sem þeir hafa náð 20 ára aldri eða ekki, rétt á að fá lán. Og þegar og ef af því verður að aldur til stúdentsprófs lækkar þá er vel hugsanlegt og jafnvel líklegt að þarna gæti orðið breyting á.
    Menn hafa einnig hnotið um að gert er ráð fyrir að lánasjóðurinn geti gefið út almenn skuldabréf og hafa viljað fá skýringar á því hvers vegna það væri. Þessi hugmynd er til komin til þess að auka möguleika lánasjóðsins á því að aðstoða námsmenn með lengri lánum á þessu formi heldur en venjulegar lánastofnanir almennt lána. Það er ekki almennt t.d. að hægt sé að fá tíu ára skuldabréfalán í banka eða sparisjóði, miklu algengara að um sé að ræða þriggja ára skuldabréf. Sé ég ekki að þetta ætti að standa í veginum fyrir einu eða neinu þar sem ekki er um neina skyldu að ræða í þessu efni, einungis verið að auka möguleika sjóðsins til að aðstoða námsmenn.
    Ræðumenn hafa nokkrir borið saman þetta frv. við það hvernig málum er háttað á öðrum Norðurlöndum. Ég held að það megi vera öllum ljóst sem skoðað hafa fylgiskjöl frv. að það lánakerfi sem hér ríkir er eitt það opnasta og jafnframt má orða það gjafmildasta sem í gildi er á Norðurlöndunum í dag. Ég held að eftir sem áður muni íslenska lánakerfið standast það sem ég var að segja hér rétt áðan.
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir nefndi námslán í Danmörku og tiltók tölur. Þar er málum þannig háttað að námsmaður, einstaklingur í fullu háskólanámi sem býr í leiguhúsnæði getur fengið styrk að upphæð 16.800 ísl. kr. og lán að upphæð 13.240 kr. Þetta lán er á þeim kjörum að vextir á námstíma eru 4%. Vextir á endurgreiðslutíma eru 9,5%, endurgreiðslur hefjast einu ári frá lokum náms og lánstími er 7--15 ár. Verðbólguspá fyrir Danmörku á þessu ári gerir ráð fyrir 2% verðbólgu. Verðbólga í Danmörku á árinu 1991 var 2% og verðbólga í Danmörku á árinu 1990 var 2%. Þetta þýðir að raunvextir á lánstíma eru 2% í Danmörku og að raunvextir að námi loknu eru 7,5% og ef við reiknum það gróft þannig að styrkur sé helmingur og lán helmingur þá eru raunvextir borið saman við það sem gert er ráð fyrir í þessu frv. 3,7% á móti 3%.
    Í Noregi er þessum málum þannig háttað að styrkur er 6.370 kr. og lán 42.680 kr. Vextir á námstíma eru 0% en vextir að námi loknu eru 11,5%. Endurgreiðslur hefjast einu til einu og hálfu ári að loknu námi og lánstími er 20 ár. Verðbólga í Noregi er væntanlega á þessu ári eins og sl. tvö ár um 4%. Það þýðir að raunvextir eru 7,5% og ef við reiknum það gróft að styrkurinn sé um 1 / 5 þá eru vextir í Noregi u.þ.b. 5% samanborið við 3% á Íslandi. Þessu til viðbótar kemur að í þessu frv. er gert ráð fyrir þeim öryggismörkum að á fyrstu fimm árum eftir nám fari endurgreiðslan ekki upp fyrir 4% af útsvarsstofni og eftir það ekki upp fyrir 8% af útsvarsstofni.
    Ég held því að af þessu megi vera ljóst að borið saman við Norðurlönd er það kerfi sem er í gildi hér á landi ofrausn og það kerfi sem í gildi yrði ef frv. yrði samþykkt mun betra heldur en nágrannar okkar njóta í dag. Ég tel því að þetta frv. eigi á engan hátt að skerða möguleika íslenskra námsmanna til að stunda það nám sem þeir telja að tryggi þeirra framtíð best.