Lánasjóður íslenskra námsmanna

79. fundur
Miðvikudaginn 12. febrúar 1992, kl. 15:06:00 (3412)

     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að það er erfitt að fara á þessari stundu út í mikla umræðu um skattamál og samanburð á þeim hér á landi og öðrum Norðurlöndum. Við fáum sjálfsagt tækifæri til að gera það síðar annaðhvort hér í þingsalnum eða einhvers staðar annars staðar. En ég vil einungis benda á það að skattkerfin þar og hér eru um margt ólík og ég held að yfirleitt séu menn sammála því að skattar þar séu töluvert hærri en þeir eru hér á landi.
    Varðandi þá hugmyndafræði sem hv. þm. gerir mér upp í sambandi við peningamál þá sagði ég hvergi í minni ræðu að menn ættu að velja sér nám eftir því hvort þeir ætluðu að verða ríkir eða ekki. Þeir verða hins vegar að gera sér grein fyrir því hvaða möguleika þeir eigi í framtíðinni miðað við það nám sem þeir velja sér. Það er tvennt ólíkt. ( GHelg: Nei.) Það getur bæði verið í efnalegum og huglægum skilningi. Ef svo er ekki þá leggur hv. þm. Guðrún Helgadóttir meira upp úr peningum en ég geri.