Lánasjóður íslenskra námsmanna

79. fundur
Miðvikudaginn 12. febrúar 1992, kl. 15:08:00 (3414)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegur forseti. Það hefur verið þannig á undanförnum árum að það hefur verið þjóðarsátt um heilbrigðismál, það hefur verið þjóðarsátt um tryggingamál, það hefur verið þjóðarsátt um kjör elli- og örorkulífeyrisþega, það hefur verið þjóðarsátt um grunnskólann og það hefur verið þjóðarsátt um Háskólann. Það hefur líka verið þjóðarsátt um Lánasjóð ísl. námsmanna.
    En núna, hjá þessari ríkisstjórn, þá stendur til í raun og veru að rjúfa alla þessa sáttmála sem í gildi hafa verið hjá þjóðinni. Og öll þessi skemmdarverk, sem ég vil kalla svo, eru réttlætt með því að erfiðleikarnir sem fram undan eru séu svo gríðarlega miklir að þjóðin hafi í raun og veru aldrei staðið frammi fyrir öðru eins. Ekki hafi nokkur ríkisstjórn þurft að takast á við annað eins. Og þegar betur er að gáð þá er lyfjaskatturinn, sjúklingaskatturinn, skatturinn á elli- og örorkulífeyrisþegana, skatturinn á námsmennina og núna enn frekari skattlagning á námsmenn með þessum breytingum á lögum um lánasjóðinn, allt er þetta réttlætt með því að erfiðleikarnir séu svo svakalegir að menn hafi aldrei horfst í augu við annað eins.
    Þegar menn hins vegar fara að bera saman námslánakerfið hér á landi og í öðrum löndum þá finnst mér það í raun vera fánýtur samanburður vegna þess að menn eru aldrei með nema lítinn hluta af þeirri mynd sem hægt er að bera saman vegna þess að aðstæðurnar í hverju landi fyrir sig eru svo gjörsamlega ólíkar og menn verða fyrst og fremst auðvitað að horfa á það fyrirkomulag sem er í hverju landi.
    Ég er ekki í nokkrum einasta vafa um að námslánakerfið á Íslandi eins og það er núna og hefur verið frá árinu 1982 er sennilega eitt það besta í heiminum. En er það nú svo svakalegt þó við Íslendingar séum kannski fremstir á einhverjum sviðum? Að menn þurfi að hafa það sem markmið með stjórnarsamstarfi og að einstakir flokkar skuli hafa það beinlínis á stefnuskrá sinni að koma hlutunum þannig fyrir að setja okkur aftar á þann lista heldur en við erum í dag.
    Hv. þm. Árni Mathiesen kom inn á það áðan að við byggjum nú við allt aðrar aðstæður en við hefðum búið við 1982 og þess vegna væri kominn tími til að breyta þessu fyrirkomulagi. Það er bara alrangt. Við búum í dag við heldur betri og mun betri aðstæður en við bjuggum við þá og því alls ekki nokkur ástæða til að breyta því fyrirkomulagi sem nú er. Og að ætla að koma hlutunum þannig fyrir í þessu kerfi að það sé verið að beina námsmönnum á ákveðnar brautir í Háskólanum til þess að velja fög sem teljast hagnýt í dag, á morgun geta verið allt aðrar aðstæður uppi --- ég get nú sem betur fer ekki lesið það út úr þessu frv. að það sé kannski beinlínis meiningin en það er auðvitað ( KE: Það er hugmyndafræðin að baki.) já, kannski hugmyndafræðin að baki. E.t.v. væri hagnýtast fyrir forsrh. í dag að fara í fornleifafræði en áður en hann tók við sem forsrh. þá hefði kannski verið miklu hagnýtara fyrir hann að fara í verkfræði, einfaldlega vegna þess að þá hefði hann getað lagt eitthvert mat á þessar kostnaðaráætlanir sem hann

hafði frumkvæði að leggja fyrir borgarstjórn varðandi ráðhús og Perlu. Þannig að það sem getur verið hagnýtt í dag, og það fyrir hvern einstakling, getur verið allt annað á morgun. Ég held því að menn eigi að varast það að fara inn á slíkar brautir með lagasetningu a.m.k.
    En það sem hérna er að gerast er að mínu viti það að sá samningur sem verið hefur gildi frá árinu 1982 --- og var samningur milli námsmanna, milli Alþingis og milli ríkisstjórnar, og það eru þessi lög sem núna eru í gildi um lánasjóðinn --- nú ætlar Sjálfstfl. með aðstoð Alþfl. að hafa frumkvæði að því að rifta þessu samkomulagi.
    Forsrh. taldi það óskaplegt af hálfu fyrri ríkisstjórnar að kjarasamningi sem gerður var við BHMR skyldi breytt. Í raun og veru var sá samningur mjög svipaður og þau lög sem núna eru í gildi um lánasjóðinn og samkomulag var um á þeim tíma. Námsmenn hafa boðið upp á viðræður um það að gera vissar breytingar á því fyrirkomulagi sem núna er. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ekki þegið það og komið fram með alveg einstæðum hætti við námsmenn í þessum efnum. En lögin frá 1982 höfðu þetta að meginmarkmiði:
    Í fyrsta lagi að jafna aðstöðu manna til náms.
    Í öðru lagi að taka tillit til aðstæðna námsmanna á meðan á námi stendur.
    Í þriðja lagi að ekki væru vextir á námslánunum, þar sem um alveg sérstök lán væri að ræða.
    Í fjórða lagi að endurgreiðslur námslánanna að námi loknu skyldu vera tekjutengdar.
    Í fimmta lagi, sem mikið var unnið að á síðustu dögum þingsins í maí 1982, að tryggja að endurheimt hlutfall lánanna yrði sem allra hæst.
    En það sem hér er gert er að öllum þessum meginmarkmiðum, sem menn voru sammála um á sínum tíma að stefna bæri að með lögum um námslán og námsstyrki, er nú kollvarpað. Menn geta auðvitað sagt, það er ekki rétt, vegna þess að það eru hlutir í þessu frv. sem núna liggur fyrir eins og tekjutenging lánanna sem er gert ráð fyrir að áfram verði, en menn verða einfaldlega að horfa á öll þessi fimm meginatriði í mjög miklu samhengi. Það er ekki hægt að taka einn þáttinn út og segja: Þessu skulum við breyta en láta aðra hluti ganga fyrir sig þannig að þeir séu skildir eftir.
    Ég hef það á tilfinningunni að tekjutengingin sé inn í þetta frv. komin fyrir tilstuðlan Alþfl. af þeirri ástæðu að Alþfl. vildi að námslán yrðu tekjutengd. Ég tek undir það sjónarmið og mér finnst það vera grundvallaratriði að endurgreiðsla námslánanna sé tekjutengd. En hvernig er farið að? Það er þannig staðið að að í raun og veru verður það ekki fyrir nokkurn einasta mann að endurgreiða þessi lán með þeim kjörum sem þarna eru sett á: 4% af útsvarsstofni tekna fyrstu árin og síðan 8%. Þetta þýðir auðvitað það að þetta kallar í framtíðinni á auknar kröfur um bætt kjör á almennum vinnumarkaði og auðvitað hjá ríkisstarfsmönnum einnig. Með þessu frv. eru menn því að skapa gríðarlegan framtíðarvanda og er nú lítill munur á því hvort menn eru að skapa fortíðarvanda sem fornleifafræðingarnir þurfa að rannsaka eða hvort menn ætla að skapa vanda fyrir framtíðina, einhvers konar framtíðarvanda og þá kemur auðvitað að því að verði forsrh. áfram í stjórnmálum, þá hefði verið betra fyrir hann að fara í heimspeki. Þannig að það er nú ekki allt sem sýnist í þessum efnum.
    Sjálfstfl. stóð að lögunum árið 1982. Hann gerði það hins vegar með hangandi hendi og allan þann tíma er sjálfstæðismenn hafa verið í ríkisstjórn og farið með menntmrn. hafa þeir ítrekað reynt að fá þessum lögum breytt. Það hefur hins vegar ekki tekist af þeirri ástæðu að lengst af frá 1982 hafa framsóknarmenn verið með sjálfstæðismönnum í þeim ríkisstjórnum og komið í veg fyrir það að lögunum yrði breytt. Nú ber hins vegar annað við þar sem Alþfl. er það ístöðulítill flokkur að það mun verða gengið yfir þá í þessu máli eins og öllum öðrum sem hér koma inn í þingið. Auðvitað gerir maður sér grein fyrir því að þetta lagafrv. mun verða hér að lögum þrátt fyrir andstöðu stjórnarandstöðunnar, en það mun þá líka verða gert með tilstyrk Alþfl.
    En af því að Sjálfstfl. hefur ekki tekist að fá þessum lögum breytt þá hafa þeir beitt reglugerðarvaldi ráðherra mjög gróft í öll þau skipti sem þeir hafa haft tök á, sjálfstæðismenn sem menntamálaráðherrar, með eilífum skerðingum og hringlandahætti á framfærslugrunni námsmanna sem hefur náttúrlega oft á tíðum sett námsmenn og heilu fjölskyldurnar í gríðarlega erfiðleika af þeirri ástæðu að það er útilokað fyrir námsmenn að búa við slíkar aðstæður að vita ekki, þegar þeir hefja nám og eru að skipuleggja sitt lífshlaup næstu fjögur til sex árin, hvað fram undan er.
    Vandamál lánasjóðsins í dag eru ekki til komin vegna þess að lögin séu svo óskaplega slæm. Vandamálin eru til komin vegna þess að ríkisstjórnir, og alveg sama hvaða ríkisstjórn það er síðan 1982 --- og mér fannst það ekki maklegt af hv. þm. Árna Mathiesen hér áðan að kenna Svavari Gestssyni, þáv. menntmrh., um það einum. Við framsóknarmenn berum auðvitað ábyrgð á því eins og aðrir þeir flokkar sem verið hafa í ríkisstjórn á þessum tíma --- að framfærslu lánasjóðsins hefur verið haldið gangandi með vaxandi lántöku fyrir sjóðinn oft á tíðum með háum vöxtum en lánin sem hafa verið að skila sér inn hafa verið vaxtalaus, þannig að nú eru lántökur sjóðsins orðnar allt upp í 55%.
    Eitt af þeim markmiðum sem ríkisstjórn, Alþingi og námsmenn í sameiningu settu sér þegar þetta lagafrv., sem nú eru lögin í dag frá 1982, var samið, var að endurheimt hlutfall lánanna yrði um 95%. Staðreyndin er hins vegar sú að það hefur ekki gengið eftir og endurheimtuhlutfallið er sennilega einhvers staðar á bilinu 85--90%. Námsmenn hafa komið sjálfir fram með tillögur um það að bæta þarna úr og ég veit að menntmrh. hefur fengið þær í hendur. Ég hygg að allflestir, ef ekki allir, séu tilbúnir til þess að skoða

þennan þátt málsins og að mínu viti er þetta reyndar það eina sem þarf að taka til skoðunar í núgildandi lögum, þ.e. hvernig hægt sé að tryggja að endurheimtan sé sem allra hæst. Sú leið sem núna er valin með þessu frv. er að mínu viti alveg kolröng leið vegna þess að það er ekki farið inn á endurheimtuna að öðru leyti en því að það er verið að gera þeim sem þurfa á aðstoð sjóðsins að halda og eiga að endurgreiða lánin, gjörsamlega ókleift að greiða þau. Þannig að þarna er nú einhver millileið til sem ég veit að hæstv. menntmrh. er auðvitað tilbúinn að skoða og mun beita sér fyrir að nefndin skoði.
    Ég kastaði fram þeirri hugmynd hér í umræðu utan dagskrár um lánasjóðinn í byrjun nóvember hvort ekki væri rétt að tvískipta þessum endurgreiðslum við sjóðinn. T.d. með þeim hætti að fyrstu 25 ár endurgreiðslutímans væri endurgreiðslan tekjutengd. Staðreyndin er sú að meginþorri námsmanna mun á þessum 25 árum vera búinn að greiða upp sín lán. Það verður einhver hópur, ég þori ekki að segja til um hvað hann er stór nákvæmlega í prósentum, þó gæti ég haldið að það væru innan við 20% námsmanna sem skulduðu verulegar upphæðir við sjóðinn eftir 25 ár. Þá yrði sú skuld við þá námsmenn sem ekki hefðu greitt upp að fullu gjaldfelld og breytt um fyrirkomulag þannig að tekið yrði upp svokallað jafngreiðslulán. Með þessu er hægt að tryggja 100% endurheimtu til sjóðsins á þeim fjármunum sem lánaðir eru út, ef menn reikna það bara út á föstu verðlagi. Auðvitað hefur þessi leið líka ákveðna erfiðleika í för með sér, ég geri mér alveg grein fyrir því. Það má einnig hugsa sér það að skipta endurgreiðslunni þannig --- og því held ég að menntmrh. hafi kastað fram í umræðunni í gær --- að þeir sem hafa hærri tekjur greiði hærri prósentu. Námsmennirnir hafa verið með þessa hugmynd líka. Mér finnst rétt að skoða hana.
    En það er eitt sem er að mínu viti grundvallaratriði í þessu, sérstaklega ef menn líta nú á að vaxtaleysi lánanna sé framlag ríkisins til menntunar í landinu, ef menn vilja hafa þau sjónarmið að leiðarljósi, þá sé eðlilegt að þeir sem ekki koma heim að afloknu námi endurgreiði sín lán með vöxtum, og það ekki með 3% vöxtum heldur markaðsvöxtum. Það mætti líka hugsa sér það að þessir aðilar greiddu sín lán á skemmri tíma en þeir námsmenn sem ljúka hér námi, fara erlendis, koma heim og afla sér tekna hér heima.
    Þessar hugrenningar mínar bið ég nú hæstv. menntmrh. að velta fyrir sér a.m.k., ekki veit ég hvort hann er tilbúinn til þess að gangast inn á þær, en ég held að ef þessi leið væri farin þá væri hægt að koma í veg fyrir það vandamál sem sjóðurinn býr við sem er endurheimtan og þyrfti í raun og veru ekki öðru að breyta í núgildandi lögum og um það gæti skapast að mínu viti mjög víðtæk samstaða.
    En þetta frv. sem hérna liggur fyrir mun að mínu viti mismuna námsmönnum í fyrsta lagi. Það mun leiða til misnotkunar á fé lánasjóðsins sem ég tel vera mjög alvarlegt og stjórn sjóðsins og ríkisstjórn hefur held ég ekki gert sér grein fyrir því, ef þessi leið verður farin, að hugsanlega mun útlánaþörf lánasjóðsins aukast í framtíðinni langt umfram það sem hún er í dag ef menn falla frá öllum þeim reglum sem í gildi eru um þær takmarkanir sem námsmenn verða að búa við til að geta fengið lán úr sjóðnum.
    Frv., ef það verður að lögum, mun leiða til óbærilegrar greiðslubyrði fyrir þá sem að námi loknu þurfa að greiða lánin. Það dregur úr stuðningi við menntun í landinu og það er reyndar viðurkennt í þessu frv. eins og það liggur fyrir.
    Og í fimmta lagi þá kemur það kannski ekki í veg fyrir að menn stundi verknám eða setjist í skóla og afli sér menntunar á sviði verknáms, en það mun a.m.k. verulega draga úr áhuga manna fyrir verknámi vegna þess að nú er því ýtt út úr lögunum.
    En þegar ég set þessar fullyrðingar fram þá ætla ég örlítið að fá að rökstyðja þær. Nú geri ég mér grein fyrir því að ég er að falla á tíma, en ég á örstutt eftir af minni ræðu þannig að ég ætla aðeins að fá að rökstyðja þessar fullyrðingar og spyrja þá menntmrh. um leið: Eru þær hugmyndir uppi að falla frá öllum takmörkunum á útlánum hjá sjóðnum, þ.e. að hætta að taka tillit til aðstæðna námsmanna, hætta að taka tillit til tekna og hætta að taka tillit til hvar þeir búa og þar fram eftir götunum og láta vextina eina stjórna því hvort menn sækja í lánin eða ekki og harðar endurgreiðslur? Gerist þetta, hæstv. menntmrh., þá mun það leiða til þess að allir námsmenn munu auðvitað sækja um lán í lánasjóðnum vegna þess að vextirnir sem eru á lánunum eru náttúrlega engir raunvextir, það eru lágir vextir. Menn munu fara að fjárfesta í skuldabréfum og öðru slíku, afla sér þannig tekna og greiða síðan þegar að því kemur það til baka sem þeir eiga að greiða en hafa þá átt verulegar innstæður og aflað sér þannig raunverulega tekna. Þetta er mjög varasamt og ég sé reyndar hvergi í frv. að það sé skýrt að það eigi að halda áfram þessum takmörkunum sem verið hafa. Það er viðurkennt í frv. að greiðslubyrði muni aukast alveg ótrúlega mikið og eins og ég sagði áðan er alveg klárt mál að þessi hækkun á greiðslubyrði eða þynging á greiðslubyrði mun þegar fram líða stundir skapa framtíðarvanda þannig að það mun kalla á auknar kjarabætur. Það er líka viðurkennt í frv. að það dregur úr stuðningi við menntun og það er dálítið mikilvægt að það sé viðurkennt, að mér finnst, að vaxtaleysi námslánanna í dag sé framlag ríkisvaldsins til menntunar í landinu og þess vegna er ég, og vil ítreka það, algjörlega mótfallinn því að vextir --- hvort sem það væru 0,01% eða 10% eða hvaða vextir sem væru sem ákveðnir yrðu --- verði settir á námslán vegna þess að þetta er grundvallaratriði. Vextir eiga ekki að vera á þessum lánum. Vaxtaleysið er framlag ríkisvaldsins til menntunar í landinu og við vitum það að komi vextir á þessi lán í eitt skipti þá mun það verða tilhneiging ríkisstjórnar, hvort sem það er ríkisstjórn Sjálfstfl. eða hvaða flokks sem það er, að vextirnir munu verða smátt og smátt hækkaðir. Það er sú leið sem núna er verið að fikra sig inn á.
    Í lokin vil ég bera fram nokkrar spurningar við hæstv. menntmrh.:
    1. Getur menntmrh. hugsað sér aðra leið en þá sem er í frv. en nær sama markmiði, þ.e. varðandi endurgreiðslurnar?
    2. Hver er ástæðan fyrir því að verkmenntunin í raun og veru er felld út úr frv.?
    3. Eru einhverjar takmarkanir fyrirhugaðar á útgreiðslum til námsmanna sem komi til með að skerða framfærslu þeirra? Auðvitað er þetta tvennt sem kemur til greina til að draga úr fjárþörf sjóðsins. Það er í fyrsta lagi að takmarka útlánin úr sjóðnum með breytingu á framfærslugrunninum sem er reglugerðarákvæði en ekki lagaákvæði, eða hitt að herða endurgreiðslur svo þær geti staðið undir þessum miklu útgreiðslum.
    4. Það á að sameina skuldabréfin í eitt skuldabréf þegar upp er staðið og skuldbreytingin fer fram. Gera menn sér grein fyrir því að námsmaður á námstíma hefur kannski fengið fleiri, fleiri aðila til að skrifa upp á þessi skuldabréf, lágar upphæðir í hvert sinn, 100--200 þús., eitthvað slíkt, en svo þegar uppgjörið liggur fyrir þá er kannski lán upp á 2--3 millj. kr.? Er hægt að fá einhvern aðila til að skrifa upp á slíkt bréf sem sjálfskuldarábyrgðaraðili? Hafa menn velt því fyrir sér til hvers þetta leiðir? Ég held ekki.
    5. Til hvers eru skuldabréfalánin ætluð sem þarna er verið að tala um? Því er lýst að þau eigi að vera á sömu kjörum og lán úr banka. Af hverju ekki að nýta bankakerfið í þessum efnum? Ef menn ætla hins vegar að koma upp einhverjum takmörkunum, að menn geti ekki fengið lán úr lánasjóðnum eftir ákveðinn tíma, eftir ákveðinn árafjölda, þá væri eðlilegt að hafa slíka möguleika hjá sjóðnum að lána út á öðrum kjörum að þeim tíma loknum. En ég skildi ekki af lestri frv. til hvers í raun og veru þetta ákvæði er komið þarna inn.