Ferð forsætisráðherra til Ísraels

79. fundur
Miðvikudaginn 12. febrúar 1992, kl. 15:37:00 (3416)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Allt frá stofnun Ísraelsríkis hafa samskipti Íslands og Ísraels verið mjög góð, töluvert mikil og jákvæð. Hingað hafa komið fulltrúar Ísraels, bæði Davíð Ben Gurion og Golda Meir. Ásgeir Ásgeirsson heimsótti Ísrael, svo og Bjarni Benediktsson.
    Stefna Íslands í ágreiningsmálum Ísraelsmanna og araba hefur verið skýr um langa hríð og þess verið gætt að reyna að taka tillit til réttmætra hagsmuna beggja deiluaðila. Um leið hefur viðurkenning Íslendinga á tilverurétti Ísraels verið óhagganleg og fulltrúar Íslands jafnan tekið fram að sérhver lausn þeirra mála sem þarna er deilt um verði að fela í sér að öryggi ísraelsku þjóðarinnar sé tryggt.
    Íslendingar hafa stutt helstu ályktanir Sameinuðu þjóðanna um lausn mála, svo sem ályktun nr. 242/1967 og 338/1973. Þar er afstaða íslenskra stjórnvalda til aðalatriða málsins skýr og á hvaða grundvelli eigi að byggja friðarviðræður. Þessi stefna er í samræmi við stefnu yfirgnæfandi meiri hluta ríkja hinna Sameinuðu þjóða. Í henni hefur ekki falist viðurkenning á yfirráðarétti Ísraels á neinum hluta hernumdu

svæðanna og á þeirri stefnu hefur engin breyting orðið. Það sést ekki síst á því að Ísland er meðflytjandi að tillögu í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna um landnám Ísraelsmanna á hernumdum svæðum og réttindi Palestínumanna í samræmi við Genfarsáttmálann. Í þeirri tillögu er litið þannig á að um hernumið svæði sé að ræða og beinlínis tekið fram að hernámið nái til allra hinna hernumdu svæða. Það er því fráleitt að halda því fram að heimsókn forsrh. Íslands til Ísraels feli í sér viðurkenningu á stefnu eða yfirráðarétti Ísraelsmanna á hernumdum svæðum. Það er hins vegar alveg ljóst að öll þessi mál þarf að nálgast sem pólitísk vandamál þegar lausn þeirra nær loksins fram.
    Það má endalaust deila um hver sé hin eina og rétta túlkun á þessum ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og um þá túlkun hefur verið mikið deilt. Almennt hefur þó verið litið svo á að kjarni þeirra ályktana snúist um það sem nefnt er land fyrir frið en í raun er jafnframt deilt um það hvað í því hugtaki felist. Það má einnig deila um það hvort og þá hvernig Palestínumenn geti viðurkennt í reynd tilverurétt Ísraelsríkis.
    Meginatriði í stefnu okkar Íslendinga hefur verið það að úr þessum málum verði að skera í samningaviðræðum deiluaðila og slíkar viðræður eru hafnar og er það meginbreyting. Það er rétt að vekja athygli á því að síðasta ríkisstjórn, sem málshefjandi studdi, samþykkti að utanrrh. þáv. og núv. færi í heimsókn til Ísraels í janúar 1990 þó að þeirri heimsókn hafi verið frestað vegna stjórnarkreppu sem brast á í Ísrael. Jafnframt var samþykkt í ríkisstjórn þeirri að Steingrímur Hermannsson ætti viðræður við Yasser Arafat í höfuðstöðvum hans í Túnis, en slíkt hefur enginn forsætisráðherra á Vesturlöndum gert hvorki fyrr né síðar.
    Á síðustu mánuðum hafa forsætisráðherrar Ungverjalands, Spánar, innanríkisráðherra Danmerkur og utanríkisráðherra Ítalíu verið í opinberum heimsóknum í Ísrael.