Ferð forsætisráðherra til Ísraels

79. fundur
Miðvikudaginn 12. febrúar 1992, kl. 15:57:00 (3424)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Bush Bandaríkjaforseti hefur snúið sér að því verkefni sem er trúlega eitthvert það erfiðasta í heiminum í dag og það er að reyna að koma vitinu fyrir Ísraelsmenn. Hann hefur með þvingunaraðgerðum komið þeim í verulegan vanda. Og hann hefur raunverulega sýnt tennurnar og hótað að hann muni snúast gegn þessari þjóð ef hún hætti ekki þeim mannréttindabrotum sem hún hefur staðið að. Það vekur þess vegna verulega athygli, þó að hægrisinnaður forsrh. stjórni þessu landi, ef þeir hlutir eru að gerast að hann ætli sér að fara til Ísraels og e.t.v. að standa þannig að málum að alheimurinn líti á það sem stuðning við þann mann sem þar stjórnar nú, Shamir, og þess vegna aðför að þeirri utanríkisstefnu sem Bush Bandaríkjaforseti hefur markað. Ég hygg að það verði mörgum sjálfstæðismönnum ærið umhugsunarefni hvort Ísland hefur efni á slíkum skrípaleik.