Ferð forsætisráðherra til Ísraels

79. fundur
Miðvikudaginn 12. febrúar 1992, kl. 16:02:00 (3426)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Það er góð hugmynd málshefjenda að ég kynni mér það hjá frú Thatcher hvernig það er að vera forsætisráðherra eftir að maður hættir eftir 12--13 ár. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það. (Gripið fram í.)
    Þessi umræða er afar sérstæð, svo ekki sé meira sagt, og ég verð að furða mig sérstaklega á ummælum fyrrv. forsrh. sem beinlínis sagði hér að með heimsókn til Ísraels væri ég að leggja blessun yfir fyrir Íslands hönd --- hann nikkar nú úr salnum --- þau meintu mannréttindabrot sem þar hefðu átt sér stað. Var hann, þegar hann fór í opinbera heimsókn til Kína, að leggja blessun yfir mannréttindaástand í Kína? Var hann að leggja blessun yfir innlimun Tíbet í Kína með hervaldi þegar hann fór í opinbera heimsókn til Kína? Auðvitað er fráleitt að halda slíku fram. (Gripið fram í.) Eða þegar þingmaðurinn fór sem sjútvrh. og samgrh. og forsrh. til Sovétríkjanna, var hann að leggja blessun sína yfir alla þessa hluti? Auðvitað er fráleitt að halda því fram með þessum hætti. Fyrrv. forsrh. verður þá að gera grein fyrir hvers vegna hann lagði blessun sína yfir mannréttindaástandið í Kína og yfir innlimun á Tíbet með hervaldi í Kína ef hann lítur þannig á. Hann fór reyndar í heimsókn til Egyptalands og á þeim tíma ekki til Ísraels og hann sagðist ekki hafa viljað fara í opinbera heimsókn til Arafats. Hann gat ekki farið í opinbera heimsókn til Arafats af því að stjórn hans hafði ekki viðurkennt Palestínuríki, þannig að það var ekkert um að að ræða að vilja ekki fara í opinbera heimsókn. Hún var eins opinber eins og verða kann því það var samþykkt sérstaklega í ríkisstjórninni að hann færi. Það var því bersýnilega ekki um neina einkaheimsókn að ræða í þeim efnum.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór til Egyptalands, ég hygg við ellefta mann. Minna mátti nú ekki gagn gera. ( Gripið fram í: Tíu.) Nú, voru þeir bara tíu sem fóru með honum þangað, til að tryggja ferðamannastraum hingað og eini ferðamannastraumurinn var nú ferð hans til baka frá Egyptalandi til Íslands í framhaldi af þessari miklu ferð þingmannsins. Ekki kom hann við í Ísrael af því tilefni eftir því sem ég best veit. Ég tel ekki að hann hafi verið að leggja blessun sína yfir mannréttindaástandið í Egyptalandi á þessum tíma. Ég býst ekki við því. Því þar hefur því miður verið pottur brotinn eins og víða í veröldinni. Það er því fráleitt að taka til orða með þeim hætti sem hér hefur verið gert. Og þegar menn hugsa til þess að fyrrv. forsrh. gaf hér til kynna að ég væri að leggja blessun yfir mannréttindabrot, heimsótti Kína í opinberri heimsókn --- og ég man ekki betur en hann hafi látið mjög vel af, filmaði meira og minna heimsóknina með vídeóvél. Ég man ekki betur en hann hafi ekki gert neinar athugasemdir heim kominn við það að í þessu fælist auðvitað ekki viðurkenning á innlimun Tíbet eða blessun á mannréttindabrotum. Enda datt engum í hug á því augnabliki að fullyrða slíkt eins og hv. gerði hér áðan.
    Varðandi það með hvaða hætti ég vilji kynna sjónarmið Íslands í heimsókn minni í Ísrael þá mun ég auðvitað kynna ályktun Alþingis frá 18. maí, sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vitnaði til. Og ég mun vitna til þess að Ísland er meðflutningsaðili að tillögum í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna þar sem hernám er fordæmt. Auðvitað mun ég gera glögga grein fyrir þeirri afstöðu Íslands.