Ferð forsætisráðherra til Ísraels

79. fundur
Miðvikudaginn 12. febrúar 1992, kl. 16:07:00 (3428)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég óskaði reyndar eftir því að hæstv. forsrh. yrði hér í salnum en hann kaus að ganga út. Ræða hæstv. forsrh. hér í umræðum um alvarlegt mál var slíkur stráksskapur og slíkt hneyksli að það er ekki hægt að ljúka umræðunni um ferð hans til Ísraels og utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar með þessum hætti.
    Það má vel vera að það form sem var valið fyrir þessa umræðu, hálftími, hafi sniðið henni þann stakk sem hér kom í ljós í svarræðu hæstv. forsrh. Ég bar fram við hann mjög alvarlegar spurningar, hvort hann hefði kynnt sér skýrslu Amnesty International um mannréttindabrot í Ísrael. Ég fekk ekkert svar. Ég bar fram við hann þá spurningu hvort hann ætlaði að stíga fæti sínum á herteknu svæðin. Ég fekk ekkert svar. Þetta tvennt er þó grundvallaratriði til þess að hægt sé að átta sig á því hvers konar stefna af hálfu Íslands og ríkisstjórnar þess felst í heimsókn forsrh. til Ísraels.
    Vegna þess hvernig hæstv. forsrh. kaus að ljúka þessari umræðu og þess óheyrilega stráksskapar og ósvífni sem kom fram í hans svari þá vil ég, virðulegi forseti, tilkynna það hér að ég mun óska eftir því að fram fari hér á Alþingi áður en hæstv. forsrh. fer í sína ferð, sérstök umræða með ótakmörkuðum ræðutíma um viðfangsefnið ,,heimsókn forsrh. Íslands til Ísraels og utanríkisstefna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar``. Ég fer hér formlega fram á það að lokinni þessari umræðu að slík umræða með ótakmörkuðum ræðutíma fari fram hér á Alþingi áður en forsrh. leggur í för sína.