Ferða- og dagpeningar opinberra starfsmanna

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 10:36:00 (3430)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Sem svar við fsp. hv. fyrirspyrjanda vil ég segja að nýlega var gefin út reglugerð um erlenda dagpeninga og ferðakostnað og sú nýjung tekin upp að inn í reglugerðina eru sett ákvæði sem snerta æðstu embættismenn íslenska ríkisins. Sá háttur hafði áður verið á að einungis var til í reglugerð ákvæði um almenna starfsmenn ríkisins en um dagpeninga þeim til handa fer samkvæmt sérstökum samningum á milli fjmrn. og félaga opinberra starfsmanna. Með þessum hætti vildum við opinbera þær reglur sem notaðar eru um dagpeninga æðstu embættismanna og alþingismanna og við teljum mjög til bóta að slíkar reglur séu almenningi kunnar með þessum hætti.
    Þessu til viðbótar vil ég geta þess að nú standa yfir viðræður á milli fjrmn. og Flugleiða um hugsanlega sérsamninga fyrir ríkisstarfsmenn sem gætu lækkað ferðakostnað til útlanda. Jafnframt hafa farið fram viðræður við ferðaskrifstofur hér á landi til þess að freista þess að ná enn niður ferðakostnaði.
    Sú gagnrýni hefur oft komið upp að líta megi á dagpeninga sem einhvers konar launauppbót. Ég vara við því að það sé gert einfaldlega vegna þess að þeir sem njóta dagpeninga umfram umsamda á milli ríkisins og almennra starfsmanna fara til útlanda með afar misjöfnum hætti. Þannig geta t.d. sumir ráðherrar farið tífalt meira en aðrir. Ef um launauppbót væri að ræða hygg ég að flestir mundu grípa til annarra aðgerða því að það yrði vart þolað að launauppbótakerfið væri þannig að sumir ráðherrar hefðu tífalt meiri möguleika til að afla slíkrar uppbótar en aðrir.
    Hv. þm. spurðist fyrir um dagpeninga maka sem nú hafa verið lækkaðir um 20% eins og dagpeningar ráðherra og æðstu embættismanna. Því er til að svara að fyrir nokkrum árum var tekin upp sú breytni að makar ráðherra gætu ferðast með ráðherrum og notið sérstakra dagpeninga. Þetta byggir á því sjálfsagða grundvallarlögmáli að þar er um einstaklinga að ræða sem fara til útlanda á vegum íslenska ríkisins, en oft er gert ráð fyrir því að ráðherrar ferðist með maka sína. Þetta hefur að sjálfsögðu oft kostnað í för með sér, stundum vinnutap eða annað kostnað og ég held að í nútímanum þyki flestum sjálfsagt mál að makar fái greiddan kostnað með svipuðum hætti og þeir sem ferðast á vegum íslenska ríkisins. Þar sem gera má ráð fyrir því að útgjöldin séu minni þegar tveir deila kjörum hefur sú leið verið farin að einungis helmingur dagpeninga rennur til þeirra.
    Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að hugsanlegt er að fara allt öðruvísi að en hér hefur verið gert um árabil. T.d. þekkist það annars staðar að um sérstök kort sé að ræða eða vasapeninga og síðan sé greitt eftir reikningi og í framtíðinni kemur auðvitað til greina að skoða það. Þegar síðast var tekið á þessu máli vakti tvennt fyrir mér, annars vegar að opinbera reglurnar sem notaðar eru og hins vegar að lækka dagpeningana sem renna til opinberra embættismanna, æðstu embættismanna og alþingismanna, enda eru þeir

og hafa verið ríflegir.