Ferða- og dagpeningar opinberra starfsmanna

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 10:45:00 (3433)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Ég vil þakka þær umræður sem hafa orðið um þessar reglur. Ég tel ástæðu til þess að árétta sjónarmið mitt varðandi maka ráðherranna. Ég tel að reglur þær sem hér eru settar séu til fyrirmyndar. Ég tel að reyndar sé sjálfsagt og eigi að gera sem oftast að makar ráðherra séu með í för og tel að fara eigi með slík mál eins og hérna segir í reglugerð og eins og samþykkt var fyrir nokkrum árum af þáverandi ríkisstjórn. Það eru hins vegar athyglisverð sjónarmið sem koma fram hjá öðrum sem hér hafa talað um þetta efni.
    Ég vil síðan einungis árétta að tilgangurinn með breytingum á reglugerðinni var sá að opinbera reglurnar þannig að ekkert feimnismál væri hvaða reglur giltu um þessi efni. Þær hljóta að sjálfsögðu ávallt að vera til skoðunar og breytingum undirorpnar.
    Enn fremur þótti okkur rétt að lækka þá dagpeninga sem höfðu verið greiddir æðstu embættismönnum hingað til og vona ég að það njóti skilnings á þeim tímum sem við lifum nú á.