Áfengiskaup opinberra aðila hjá ÁTVR

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 10:52:00 (3438)

     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra svör hans en mér þykir reyndar miður að endurskoðun á þessum þætti mála skuli einungis tengd því að breytingar verði gerðar á rekstri ÁTVR. Þær breytingar sem ég skil sem slíkar að verið sé að ræða um einkavæðingu á ÁTVR sem ég vissulega styð og vona að verði að veruleika og þar með fellur þessi þáttur að sjálfsögðu um sjálfan sig og dettur út. Það leiðir af sjálfu sér. En meðan svo er ekki tel ég að þessar reglur þurfi að endurskoða. Það eru enn þá verulegar freistingar og það er enn þá möguleiki fyrir menn að misnota þetta ef þeir eru þannig innstilltir og ég held að mönnum væri hreinlega greiði gerður með því að setja um þessi kaup fastar reglur og afnema þetta sérverð á áfengi. Við erum dagsdaglega að tala um að vekja kostnaðarvitund fólks. Það væri liður í því að vekja þá aðila sem þessarar reglu geta notið í dag til frekari kostnaðarvitundar en verið hefur þannig að ég tel brýnt að þessi mál verði endurskoðuð án tillits til þess hvort ÁTVR verður einkavætt eða ekki.