Kjarasamningar við kennara Háskólans á Akureyri

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 10:59:00 (3441)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 206 beinir hv. 6. þm. Norðurl. e. til mín fsp. Sem svar vil ég segja þetta:
    Þegar starfsemi Háskólans á Akureyri hófst og ráðningarsamningar og önnur starfsmannagögn fóru að berast starfsmannaskrifstofu fjmrn. var fyrst litið til kjarasamningaaðildar að Félagi háskólakennara. Forvígismenn Félags háskólakennara höfnuðu hins vegar aðildarumsóknum háskólakennaranna á Akureyri og var þeim því til bráðabirgða fundinn staður í Útgarði en þar lenda þeir háskólamenn sem ekki eiga beina aðild að öðru félagi. Að mati starfsmannaskrifstofunnar má segja að þessi aðgerð hafi verið mistök því að það hefur verið stefna skrifstofunnar í vafatilvikum eins og þessum að opinberir starfsmenn séu settir í svonefnda ráðherraröðun á meðan línur eru að skýrast. Við launagreiðslur, þ.e. launaflokkaröðun, vinnutíma og þess háttar er þá litið til þeirra sem starfa við sams konar störf og hafa gert kjarasamning við íslenska ríkið. Í þessu tilviki er um að ræða kjarasamning við Félag háskólakennara.
    Allar götur frá því að þetta gerðist hafa átt sér stað viðræður við Félag háskólakennara um framtíðarskipan mála á Akureyri. Fullreynt þótti í því efni um áramótin 1990--1991 er gengið var frá nýjum kjarasamningi fyrir Háskóla Íslands af fyrrv. fjmrh. Skömmu síðar komu fram kröfur Útgarðsmanna um samningsgerð fyrir norðanmenn eða háskólakennarana á Akureyri. Áður en gengið yrði til slíks vildi ráðuneytið kanna vilja háskólafólks á Akureyri. Settir voru fram þrír kostir. Sá fyrsti að gerður yrði sérstakur samningur vegna Háskólans á Akureyri, en þar sem skilyrðum samningsréttarlaganna er ekki fullnægt, a.m.k. að sinni, er þeirri leið hafnað. Hv. fyrirspyrjandi minntist einmitt á það að í 5. gr. laga nr. 94/1986 eru skilyrði sem kennararnir fyrir norðan uppfylla ekki. Annar kosturinn er ráðherraröðun með viðmiðun við samninga Félags háskólakennara og sá þriðji er samningsgerð við Útgarð.
    Með bréfi dags. 6. mars 1991 og á fundi þann 8. apríl á sama ári var þessum sjónarmiðum komið á framfæri við forvígismenn starfsfólksins við Háskólann á Akureyri. Í bréfi frá þeim dags. 11. apríl 1991 er boðuð efnisleg afstaða um miðjan maí en hún liggur ekki fyrir enn. Að sögn skrifstofustjóra starfsmannaskrifstofu ráðuneytisins var allt framangreint ítrekað á fundi með Útgarði 23. maí 1991 og óskuðu forráðamenn félagsins eftir frestun fundarins.
    Að beiðni formanns Útgarðs var aftur sest niður í des. sl. og varð niðurstaða viðræðnanna sú að freistað skyldi sjálfstæðrar samningsgerðar milli starfsmanna og fjmrn. þrátt fyrir takmarkanir samningsréttarlaganna eða laganna nr. 94 frá 31. des. 1986. Samkvæmt upplýsingum starfsmannaskrifstofunnar skýrði formaður Útgarðs fyrir skömmu frá því að hann hefði rætt þennan kost við starfsmenn Háskólans á Akureyri og mætti fjmrn. vænta tilnefningar þeirra í samninganefnd á allra næstu dögum. Þannig stendur þetta mál nú og vonandi leysist það innan tíðar.