Kjarasamningar við kennara Háskólans á Akureyri

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 11:04:00 (3442)

     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svörin en af þeim má öllum vera ljóst að það hefur verið óhóflegur dráttur á því að gengið yrði frá málinu og m.a. vegna þess að fjmrh. lagði um tíma ofurkapp á það að þetta yrði leyst með ráðherraröðun, að menn væru ekki með neina stéttarfélagarómantík, eins og fulltrúar ráðuneytisins hafa sagt. En ég vil ganga eftir því við hæstv. ráðherra sem mér fannst ekki koma nægjanlega vel fram í hans svari áðan hvort hann sé þá tilbúinn til að gera það sem í hans valdi stendur til að gengið verði frá þessum samningum sem allra fyrst og þá það öðru fremur hvort hann er tilbúinn til að veita undanþágu til þess að ganga megi frá sjálfstæðum samningum við háskólakennarana á Akureyri eins og um væri að ræða sjálfstætt félag. En eins og kom fram bæði í mínu máli í upphafi og hæstv. ráðherra áðan þá þarf ráðherra að gefa undanþágu til þess að svo megi verða. Ég vil ganga eftir því hér þannig að það liggi alveg ljóst fyrir hvort það sé vilji ráðherra að ganga þannig frá þessu máli.