Auglýsingakostnaður fjármálaráðuneytis

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 11:25:00 (3451)

     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Það ætti ekki að koma hæstv. fyrrv. fjmrh. á óvart hvernig úthlutað hefur verið fjármagni í þessu skyni sem hér er fjallað um því að aðstoðarmaður ráðherra, Mörður Árnason, stjórnaði því verki að mestu leyti en hann var aðstoðarmaður Ólafs Ragnars Grímssonar. Það er auðvitað með ólíkindum þegar á þann hátt er úthlutað fjármagni í auglýsingaskyni til pólitískra vina og vandamanna svo að nemur milljónum króna.
    Ég spurði Mörð Árnason, aðstoðarmann hæstv. fyrrv. fjmrh. Ólafs Ragnars Grímssonar, einu sinni að því hvort auglýst væri samkvæmt ákveðnum reglum. Svarið var einfaldlega nei. Og ég vil að það komi fram að hann bætti við: Við auglýsum eins og okkur sýnist og ákveðum sjálfir hjá hverjum við auglýsum án nokkurra reglna.