Auglýsingakostnaður fjármálaráðuneytis

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 11:27:00 (3453)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Tilefni þess að ég kveð mér hljóðs er að ég vil mótmæla harðlega þeim ummælum sem hv. 6. þm. Norðurl. e., Jóhannes Geir Sigurgeirsson, viðhafði hér áðan um fundaferðir ráðherra. Ef ég man rétt, þá var það varaformaður Framsfl. og þáv. sjútvrh. sem var brautryðjandi í slíkum ferðalögum um landið á vegum síns ráðuneytis, m.a. til að kynna fiskveiðistefnu. Ég held að það hafi verið gott og hafi verið nauðsynlegt. Ég held að þetta eigi ráðherrar að gera og það er furðulegt að landsbyggðarþingmaður skuli koma hér upp og tala með þeim hætti sem þessi hv. þm. gerði.
    Ég hef sömuleiðis setið fundi sem ráðherrar hafa haldið, bæði um GATT og Evrópskt efnahagssvæði. Þar var verið að kynna þjóðinni stórmál og stefnumál fyrrv. ríkisstjórnar og núv. ríkisstjórnar. Ég held að þessir fundir ráðherranna, og þeir eru ekki mjög dýrir, hv. þm., séu nauðsynlegir og mjög brýnn þáttur í tengslum stjórnmálamanna og þjóðarinnar.