Auglýsingakostnaður fjármálaráðuneytis

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 11:31:00 (3456)

     Össur Skarphéðinsson :
    Frú forseti. Ég ætla ekki að blanda mér efnislega í þær umræður sem hér eiga sér stað en vegna orða síðasta ræðumanns vil ég taka fram að það er ekkert skrýtið við það að tímaritið Þjóðlíf skuli fá drjúgan skerf í auglýsingum fjmrn. vegna þess einfaldlega að á þessum tíma var tímaritið Þjóðlíf gefið út í 10 þús. eintökum. Það var samkvæmt könnunum Verslunarráðs, sem Morgunblaðið er líka þátttakandi í, talið vera útbreiddasta fréttatímaritið á þessum tíma og sennilega útbreiddara en mörg tímarit Fróða hf. til samans.
    Ég vil síðan taka undir orð hæstv. umhvrh. hvað varðar fundi og upplýsingafundi ráðherra. Ég tel að slíkt sé alveg sjálfsagt. Þegar ráðherrar eru að véla um erfið mál, þá tel ég eðlilegt að þeir fari í svona upplýsingaherferðir. Dæmi: Það eru mjög miklar sviptingar í kringum heilbrigðismál. Mjög skortir á það að almenningur í landinu fái greinargóðar upplýsingar um þær breytingar sem þar er verið að gera. Þess vegna tel ég til að mynda sjálfsagt að heilbrrh. fari í upplýsingaferðir um landið.
    Síðan vil ég að það komi hér fram að hæstv. fyrrv. fjmrh. hefur bersýnilega verið þeirrar skoðunar að fjölmiðlar Alþfl. hafi haft verulegt auglýsingagildi og sést það á því að t.d. Alþýðublaðið í Hafnarfirði hefur þriðjung af auglýsingagildi Morgunblaðsins að hans mati. Ég vil beina því til hæstv. núv. fjmrh. að hann taki upp sömu stefnu.