Auglýsingakostnaður fjármálaráðuneytis

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 11:35:00 (3459)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þm., sem kallaði hér fram í að hann þurfi að bera að sér sakir, að það er full ástæða til þess að leyfa honum það þegar þar að kemur en ég lít svo á að það gerist ekki innan þessarar umræðu.
    Ég tel að þessi umræða hafi verið ágæt og nauðsynlegt sé að sjálfsögðu að upplýsa um mál eins og þetta. Það er rétt að gjarnan má fá fyllri og meiri upplýsingar um vissa þætti sem erfitt er að koma við, en það stendur auðvitað eftir í þessari umræðu, og þar er ekki verið að bea sakir á einn né neinn, að það hlýtur að vera ógætilegt af hálfu formanns stjórnmálaflokks sem gegnir jafnveigamiklu embætti og fjármálaráðherraembættinu að versla í svo stórum stíl við auglýsingastofu sem, eins og allir vita, rak meira og minna kosningabaráttu Alþb. fyrir síðustu kosningar og sá um allan prentaðan áróður flokksins annan en þann sem kom fram í Þjóðviljanum sáluga. Þetta er ekki sagt vegna þess að ég sé að gefa í skyn eitt eða annað heldur einungis vegna þess að það gefur auga leið að grunsemdir og tortryggni hljóta að vakna.
    Ég kom hins vegar hingað upp til þess aðallega að svara fyrirspurn um Pressuna. Að því er ég best veit er Pressan, vegna sérstaks samnings á milli Alþýðublaðsins og Pressunnar, send út á vegum Alþýðublaðsins um nokkurra mánaða skeið því að ríkið hefur ekki heimild til þess að kaupa Pressuna eða Helgarblað Þjóðviljans eða Helgarblaðið sem það heitir víst nú þar sem í 6. gr. fjárlaga, nánar tiltekið í lið 6.1., er einungis heimild til þess af hálfu fjmrn. að kaupa dagblöð en ekki vikublöð eins og Pressuna og Helgarblaðið. Hitt er svo annað mál að einstakar stofnanir geta auðvitað keypt þetta blað og ég hef ekki kannað það sérstaklega hvort Alþingi hafi ákveðið að kaupa Pressuna og senda alþingismönnum heim með öðrum blöðum. Ég hygg að svarið sé það að sérstakur tímabundinn samningur sé á milli Pressunnar og Alþýðublaðsins og þess vegna fái alþingismenn Pressuna á vegum Alþýðublaðsins. Sé svo er kannnski hægt að þakka forráðamönnum Alþýðublaðsins fyrir þá tillitssemi.