Dimmuborgir

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 11:49:03 (3468)

     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef fyrir allnokkru lagt hér fram á hinu háa Alþingi fyrirspurn til hæstv. forsrh. Fyrirspurnin er á þessa leið:
    ,,Hefur ríkisstjórnin ákveðið hvernig tekið verður á þeim vandamálum sem nú blasa við í Dimmuborgum vegna sandfoks, gróðureyðingar og verulega aukins ágangs ferðamanna?``
    Ég skal viðurkenna, virðulegi forseti, að eins og það er nú skynsamlegt að skipta fyrirspurnum í

flokka eftir ráðherrum, eins og hér er gert, gæti líka verið snjallt að skipta fyrirspurnum eftir efnisatriðum með öðrum hætti vegna þess að þessi fyrirspurn og umræða um hana er býsna ólík þeirri umræðu sem fór hér fram síðast um auglýsingakostnað á undanförnum árum. Engu að síður er hér hreyft mikilvægu máli.
    Ástæða þess að ég ber þetta fram við hæstv. forsrh. er sú að þetta mál snertir í raun og veru tvö ráðuneyti, annars vegar umhvrn. og hins vegar landbrn. Ég vil ekki blanda þessari umræðu í þá deilu sem er á milli þessara tveggja ráðuneyta um verkaskiptingu á ákveðnu sviði og kaus þess vegna að bera þetta fram fyrir hæstv. forsrh. En heila málið er þetta að Dimmuborgum, sem er einhver mesta náttúrugersemi Íslands, stafar veruleg hætta af traðki ferðamanna og sandi sem berst sunnan af öræfunum. Vaxandi straumur ferðamanna veldur miklu álagi á viðkvæman gróður í Dimmuborgum og það er áætlað að um 100 þús. ferðamenn heimsæki Mývatnssveit á hverju ári og langflestir þeirra koma í Dimmuborgir. Göngustígar og aðstaða fyrir ferðafólk tekur á engan hátt mið af þessum fjölda og þrátt fyrir úrbætur sem gerðar hafa verið í samvinnu Náttúruverndarráðs Skútustaðahrepps og Landgræðslunnar er augljóst að Dimmuborgir eru í verulegri hættu ef ekki fæst aukið fjármagn til að bæta aðstöðu þar.
    En í annan stað eru Dimmuborgir í hættu vegna þess að þar er um að ræða stófellt sandfok af svæðunum sunnan Dimmuborga og sunnan Mývatnssvæðisins og þetta sandfok hefur gjörbreytt landslagi þarna á undanförnum árum og áratugum eins og þeir hafa séð sem hafa komið í Dimmuborgir reglulega t.d. sl. 10 ár að það má heita að það sé áramunur á ástandinu í Dimmuborgum vegna þess gífurlega sandfoks sem þarna er um að ræða. Þess vegna er það í raun og veru tvennt sem þarf að gera. Annars vegar að efna til úrbóta vegna ferðamanna og hins vegar að leggja í framkvæmdir við að hefta sandfok og lagfæringar í því sambandi.
    Fjárln. fékk í vetur bréf um þetta efni, dags. 1. nóv. 1991, þar sem bent var á aðgerðir sem kosta aðeins, ég segi aðeins, virðulegi forseti, 6,9 millj. kr. Ég tel að hér sé ekki um að ræða stóra fjármuni miðað við þá hættu sem blasir við þessum náttúrugersemum sem eru þessar einstæðu klettaborgir sem Dimmuborgir eru. Af þeim ástæðum vil ég vekja athygli á þessu máli til að leggja áherslu á nauðsyn aðgerða og þess um leið, virðulegi forseti, að þess verði gætt við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1993 að þá verði í síðasta lagi lagðir fram fjármunir til skipulegra aðgerða í þessu efni.