Dimmuborgir

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 11:53:00 (3469)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Vegna þessarar fsp. hv. 9. þm. Reykv., vil ég taka eftirfarandi fram. Um Dimmuborgir gilda sérstaklega lög nr. 36/1974, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, en að öðru leyti lög nr. 47/1971, um náttúruvernd, og lög nr. 17/1965, um landgræðslu. Í framkvæmd heyrir því vernd Dimmuborga vegna sandfoks og gróðureyðingar undir Landgræðslu ríkisins en vegna ágangs ferðamanna undir Náttúruverndarráð eins og fyrirspyrjandi tók reyndar fram.
    Ásamt sveitarstjórn Skútustaðahrepps hafa þessir aðilar haft samráð um ráðstafanir á svæðinu og hefur eftirtöldum aðgerðum verið hrint í framkvæmd á undanförnum árum. Náttúruverndarráð hefur annast eftirlit með ferðamönnum og landvörslu. Gönguleiðir hafa verið merktar með köðlum og vegvísum komið upp. Trétröppur hafa verið smíðaðar niður frá inngangi og niður í borgirnar og minni brúm og tröppum verið komið upp við sprungur. Við innganginn er upplýsingaskilti sem skýrir myndun Dimmuborga, gönguleiðir og umgengnisreglur jafnframt því sem bæklingur Náttúruverndarráðs er fáanlegur bæði fyrir Íslendinga og útlendinga. Þá hefur lágmarkssnyrtiaðstaða verið sett upp við bílastæðið.
    Samkvæmt upplýsingum frá Náttúruverndarráði mæta ráðstafanir þessar skilningi ferðamanna í vaxandi mæli með því að gönguleiðir og umgengnisreglur eru almennt virtar. Dimmuborgir voru girtar og friðaðar fyrir búfjárbeit árið 1949. Upphaflega var sáð melfræi og grjótgarðar hlaðnir til að stöðva framskrið sandsins, en sandfok er nú uggvænlegasta ógnunin sem steðjar að borgunum. Í ljós hefur komið af gervitunglamyndum að borgirnar liggja við norðurenda mikils uppblásturssvæðis sem nær suður á miðhálendið. Á fjárlögum fyrir árið 1992 eru Landgræðslu ríkisins veittar 2 millj. kr. til aðgerða vegna landeyðingar í Skútustaðahreppi og verður þeim veitt til aðgerða er taka til þessa svæðis sunnan Dimmuborga en ekki reyndist unnt að merkja fjárveitingu til sandskriðs og gróðureyðingar innan Dimmuborga sérstaklega nú. Hins vegar ber að taka fram að óskilgreind fjárveiting til Landgræðslu ríkisins vegna sandfoks og gróðureyðingar nemur árið 1992 79,8 millj. kr. Fjárveitingar til Náttúruverndarráðs vegna eftirlits og landvörslu á Mývatnssvæðum námu á árinu 1991 2,6 millj. kr. en hafa lækkað nokkuð á þessu ári í samræmi við almennar aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum. Þá hafa einkaaðilar sýnt málefnum Dimmuborga skilning og sem dæmi má nefna fyrirheit Íslandsbanka um að veita 1 millj. kr. í styrk til úrbóta og vegna álags af völdum ferðamanna á svæðinu.
    Eins og fram kemur í svari þessu þá er sandfokið talin vera sú ógn sem helst steðjar nú að þessu náttúruundri eftir þær aðgerðir sem gerðar hafa verið til þess að koma í veg fyrir að álag vegna ferðamanna um svæðið spilli því. Bæði hafa sandskaflar aukist innan svæðisins og girðingar og hleðslur hafa ekki megnað að stöðva slíkt og sandskaflar eru einnig á næsta leiti. En meginvandamálið hygg ég vera, og að um það séu menn sammála, uppsprettu þessa vanda, þ.e. svæðið sem liggur miklu sunnar við Dimmuborgir og þetta sandfok kemur frá. Ég get tekið undir með fyrirspyrjandanum að það er full ástæða til, þrátt fyrir að menn fari sjálfsagt varlega með fjármuni, að hyggja sérstaklega að þessum þætti og ekki síðar en á næstu fjárlögum.