Dimmuborgir

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 12:00:00 (3472)

     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin og hæstv. umhvrh. fyrir undirtektirnar og öðrum þingmönnum sem hér hafa talað. Það er rétt að hér er út af fyrir sig um að ræða vandamál sem á sér víða sína líka. En staðreyndin er þó sú, eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. gat um, að þarna er um að ræða alveg sérstakt vandamál. Það blasir við að Dimmuborgir hverfi í raun og veru ef um yrði að ræða varanlega þunga sunnanátt langtímum saman. Og ég tel að það sé réttlætanlegt að taka Dimmuborgir með einhverjum hætti út úr. Mér finnst að það skorti í almennri stefnumótun í umhverfismálum að menn raði stöðum í forgangsröð í þessu efni þannig að menn séu ekki alls staðar að setja inn smáupphæðir heldur reyni að afgreiða hlutina hvern fyrir sig. Þess vegna tel ég að það sé mjög mikilvægt að málið var tekið fyrir og rætt og það er rétt hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. að út af fyrir sig eru 3,9 millj. aðeins upphaf að verki. Hér þarf auðvitað margt fleira að koma til. En mér finnst skynsamlegt að taka á málinu í heild með þeim hætti sem hér hefur m.a. verið bent á og hæstv. forsrh. tók ágætlega undir að mínu mati.
    Varðandi gjaldtöku af ferðamönnum þá er það mikið mál og ég skil vel að hæstv. umhvrh. skuli nefna það mál miðað við þann vanda sem hann stendur frammi fyrir án þess að ég sé í sjálfu sér að taka undir hans sjónarmið. Þetta leiðir hugann að því hvað það er nauðsynlegt að það yrði til form hér á Alþingi fyrir stefnumótunarumræður þar sem við gætum einhvern daginn borið okkur saman um hvort svona gjaldtaka er almennt eðlileg án þess að við séum á sama tíma endilega að ræða um lagafrv. eða eitthvað því um líkt í þeim efnum. Og ég mundi vilja hvetja hæstv. umhvrh. til að koma því með einhverjum hætti á dagskrá Alþingis að við ræðum um þetta mál sem er mjög stórt mál bæði gagnvart útlendum ferðamönnum og kynningu á Íslandi erlendis en þó sérstaklega gagnvart íslenskum ferðamönnum. Ég er ekki alveg viss um að gjaldtakan leysi nema mjög takmarkaðan hluta þessa vanda. Menn mega ekki líta á hana sem haldreipi sem frelsi ríkið frá því að gera allt sem það getur til þess að halda vel utan um þessar náttúrugersemar sem þjóðin á. En ég þakka umræðuna.