Upplýsingaskylda ráðuneyta og opinberra stofnana

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 12:17:03 (3479)

     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegur forseti. Ég ber hérna fram fsp. á þskj. 192 til forsrh. um upplýsingaskyldu ráðuneyta og opinberra stofnana. Það er nokkuð langt síðan þessi fsp. kom fram, eða á sl. ári, en vegna anna hér í þinginu hefur ekki gefist tími eða ráðrúm til að henni væri svarað og er ég ekki að ásaka neinn í þeim efnum.
    Það er mjög á reiki hverjar skyldur stjórnvalda eru gagnvart félagasamtökum, einstaklingum og fjölmiðlum, alþingismönnum og borgarfulltrúum um að veita upplýsingar um ýmis mál sem eru í vinnslu í ráðuneytum eða hjá opinberum stofnunum. Það er að mínu viti afskaplega mikilvægt að um þetta séu til skýrar reglur. Það eru engin lög til um þetta og því ber ég fram þá spurningu hér við hæstv. forsrh.: ,,Hvaða reglur gilda um upplýsingaskyldu opinberra stofnana gagnvart alþingismönnum, félagasamtökum, einstaklingum og fjölmiðlum?``
    Það hafa komið fram á Alþingi ýmsar tillögur um þetta mál. Sú fyrsta, ef ég man rétt og veit best, kom fram á þinginu 1969--1970 þegar Þórarinn Þórarinsson, þáv. þingmaður, flutti þáltill. um að samið yrði lagafrv. sem lagt yrði fyrir Alþingi um upplýsingaskyldu opinberra stofnana. Sú þingsályktun varð ekki útrædd og var endurflutt 1970. Síðan var í maí 1972 samþykkt þáltill. um þetta efni frá Þórarni Þórarinssyni og Ingvari Gíslasyni. Í kjölfar þess lætur þáv. dómsmrh. semja lagafrv. og leggur það fram á þingi árið 1973. Það mál var ekki útrætt. Það var endurflutt, reyndar endursamið, og síðan endurflutt á þinginu 1976 og enn var málið ekki útrætt. Á síðasta þingi, árið 1990, þá var lagt fram af fyrrv. forsrh. Steingrími Hermannssyni lagafrv. um upplýsingaskyldu opinberra stofnana. Það mál náði ekki fram að ganga. Af þessu má sjá að ýmsar tilraunir hafa verið gerðar í þá veru að koma hér á samræmdum reglum, en því miður þá hefur þingið ekki enn treyst sér til þess að samþykkja slík lög og því spyr ég hæstv. forsrh.:
    ,,Hyggst ráðherra leggja fram á Alþingi frv. til laga um upplýsingaskyldu stjórnvalda?``