Innheimta skyldusparnaðar ungs fólks

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 12:46:00 (3488)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr í fyrsta lagi: Hver eru vanskil launagreiðenda við Húsnæðisstofnun ríkisins, sundurliðað eftir kjördæmum, og hve stór hluti vanskila er eldri en sex mánaða? Svar við því er, samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðisstofnun ríkisins, að heildarfjárhæð vanskila vegna skyldusparnaðar ungmenna er samtals um 25,4 millj. kr. Þar af eru um 22,7 millj. kr., eða um 89%, vegna vanskila sem eru eldri en sex mánaða. Heildarvanskil skiptast eftir kjördæmum með eftirfarandi hætti:
    Reykjavík, 10,3 millj. eða 40,7% af heildarfjárhæð vanskila. Vesturland, 1,2 millj. eða 4,9% af heildarfjárhæðinni. Vestfirðir, 1,6 millj. eða 6,6% af heildarfjárhæð vanskila. Norðurland vestra, 289 þús. eða 1,1%. Norðurland eystra, 786 þús. eða 3,1%. Austurland, 2,1 millj. eða 8,3%. Suðurland, um 3 millj. eða 12,1%. Reykjanes, 5,8 millj. eða 23,8% af heildarfjárhæð vanskila.
    Í öðru lagi er spurt um hvernig fylgst er með því að launagreiðendur geri skil á skyldusparnaði. Húsnæðisstofnun hefur engin ákveðin úrræði til að knýja fram greiðslur í samræmi við nefnd lög og reglugerð ef upplýst er um vanskil til stofnunarinnar. Hér er um að ræða afleidda lögtaksheimild og stofnunin óskar opinberrar rannsóknar á meintum vanskilum. Lögtaksbeiðnir og kærur byggjast svo til eingöngu á upplýsingum frá launþegum enda verða þær að vera staðfestar með launaseðlum eða launamiðum. Stofnunin hefur að lögum engar heimildir til að knýja fram upplýsingar frá launagreiðendum eða frá skattyfirvöldum um það hvort eða hvar fólk á skyldusparnaðaraldri er að störfum og hver skil ættu að vera í krónum talin. Það er því fyrst og fremst launþeginn sjálfur sem verður að fylgjast með því hvort skil hafa verið gerð frá launagreiðanda. Þrisvar á ári sendir Húsnæðisstofnun nákvæmt yfirlit þar sem greint er frá því hvenær og hvað sérhver launagreiðandi greiddi inn á tímabilinu. Einnig er vakin sérstök athygli á því ef ekkert hefur verið greitt inn á skyldusparnaðarreikninginn. Þá er alla virka daga hægt að fá upplýsingar um skyldusparnaðinn hjá Veðdeild Landsbankans. Stofnunin hefur hvatt til árverkni í þessu sambandi með auglýsingum, bréfum til launagreiðanda og samtaka þeirra og til stéttarfélaga. Einnig með sérstökum bréfum til launþega ef engar innborganir hafa verið á reikninginn í ákveðinn tíma.
    Húsnæðisstofnun hefur gert ýmislegt til að kanna hugsanleg vanskil. Stofnunin aflaði tímabundinnar heimildar tölvunefndar til samkeyrslu á ákveðnum upplýsingum úr tölvuskrám ríkisskattstjóra og upplýsingum úr skrám Húsnæðisstofnunar. Sú athugun fór fram á árinu 1990 og voru gögn vegna ársins 1988 lögð til grundvallar. Í þessu sambandi var 5.700 launagreiðendum send bréf varðandi nokkur þúsund launþega þar sem skilum á skyldusparnaði var áfátt. Niðurstaðan varð hins vegar sú að um eiginleg vanskil var ekki að ræða nema í fáum tilvikum. Í langflestum tilvikum hafði skyldusparnaðurinn ekki verið dreginn af launum viðkomandi þar sem hann átti rétt til undanþágu en hafði ekki sótt formlega um hana til stofnunarinnar. Athuganir benda einnig til þess að í mörgum tilvikum veit skyldusparandi af vanskilum launagreiðanda, en veigrar sér við að leita réttar síns.
    Loks er spurt hvort félmrh. hyggist beita sér fyrir aðgerðum sem tryggi betri skil á skyldusparnaði innan sex mánaða frá útborgun launa. Spurningu um aðgerðir til að tryggja betri skil vil ég fyrst svara þannig að það er bæði kostnaðarsamt að mati Húsnæðisstofnunar og erfitt viðureignar að beita harðari aðgerðum en Húsnæðisstofnun hefur staðið að hingað til. Ég tel að endurskoða þurfi núverandi fyrirkomulag skyldusparnaðar ungmenna en á vegum félmrn. eru þessi mál til athugunar. Í kjölfar þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á útlánastarfsemi Byggingarsjóðs ríkisins er nauðsynlegt að athuga sérstaklega stöðu skyldusparnaðarins og hlutverk hans í framtíðinni. Í þessu skyni óskaði ég með bréfi í ágúst 1991 eftir tillögum frá húsnæðismálastjórn um breytingar á núverandi skipan skyldusparnaðar ungmenna. Tillögur húsnæðismálastjórnar, en hv. fyrirspyrjandi á sæti í henni, hafa ekki borist ráðuneytinu.
    Nefnd sem falið var að gera úttekt á framkvæmd laga um húsbréfaviðskipti lagði til að athugað yrði hvort hægt væri að koma á sparnaðarhvetjandi fyrirkomulagi sem byggðist á reglubundnum kaupum einstaklinga á húsbréfum. Þessa tillögu nefndarinnar vil ég nefna í þessu sambandi en ekki hafa verið teknar frekari ákvarðanir í ráðuneytinu varðandi tillögu þessarar nefndar. Í lokin vil ég nefna að það hafa einnig komið fram tillögur um breytingar á lögum um húsnæðissparnaðarreikninga.