Síldarverksmiðjur ríkisins

81. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 13:12:00 (3493)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Ástæða er til þess að fagna því að frv. er komið fram, svo sjálfsagt og eðlilegt sem það er að breyta ríkisfyrirtæki, sem annast rekstur síldarverksmiðja, í hlutafélag vitaskuld með það fyrir augum að selja hlutabréfin á markaði þannig að eignarhald þess fyrirtækis breytist. Allt á sinn tíma, Síldarverksmiðjur ríkisins einnig. Ég efast ekki um að á þeim tíma sem það ágæta fyrirtæki hóf starfsemi sína voru rök sem mæltu með því að ríkið hlutaðist til um rekstur á síldarverksmiðjum á Íslandi. Síðan eru einfaldlega liðin býsna mörg ár og áratugir og aðstæður hafa breyst. Ekkert það sem þá var talið réttlæta eignarhald ríkisins á síldarverksmiðjum er fyrir hendi í dag. Verkkunnáttan sem þarf til þess að reka síldarverksmiðjur er fyrir hendi. Það hefur sýnt sig vegna þess að síldar- og loðnuverksmiðjur eru reknar allt í kringum landið af einstaklingum, hlutafélögum og útgerðarmönnum sem þekkja og kunna vel til verka. Möguleikar manna til þess að kaupa sig inn í þennan rekstur, sem þá voru e.t.v. ekki til staðar, þekkjast í dag og það er mjög athyglisvert þegar við skoðum þá þróun sem hefur orðið í eignarhaldsbreytingum á tilteknum verksmiðjum að þá er það svo í flestum tilvikum að ég hygg ef ekki öllum að sala á einstökum loðnuverksmiðjum hefur einatt orðið til þess að breikka það eignarhald. Sannleikurinn er sá, eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. vakti athygli á, að mjög hörð samkeppni er um loðnuna við landið og verksmiðjurnar þurfa að leggja mikið á sig til þess að ná í hana. Þær hafa margar hverjar, sem það hafa getað, brugðið á það ráð að reyna að tengjast sem best útgerðum bæði með því að kaupa loðnuskip og einnig með því að laða til rekstrarins einstaka útgerðarmenn í því skyni að tryggja betur hráefnisöflun viðkomandi verksmiðja. Allt þetta hefur orðið til þess, eins og hv. þm. vakti réttilega athygli á, að staða þessara verksmiðja til þess að afla sér hráefnis hefur gerbreyst. Nú má orðið heita nauðsynleg forsenda fyrir því að geta rekið verksmiðju að einhverju viti að hafa með höndum nokkurt eignarhald á skipi í því skyni að geta tryggt sér hráefnisöflun.
    Núverandi fiskveiðistjórnun gerir ráð fyrir að menn leiti fanga um að sameina veiðiheimildir einstakra skipa. Um þetta hygg ég að sé býsna mikil sátt í þjóðfélaginu. Menn eru almennt komnir að þeirri niðurstöðu að skip séu of mörg miðað við þann afla sem við erum a.m.k. að veiða í dag. Þess vegna sé það hluti af þeirri hagræðingu sem menn telja nauðsynlega í íslenskum sjávarútvegi að menn sameini aflaheimildir með einum eða öðrum hætti. Ég á ekki von á að um þetta sé svo mikill ágreiningur þó um aðra

þætti fiskveiðistefnunnar sé ágreiningur. Þannig hafa menn auðvitað staðið að verki í loðnubransanum og nú er ekki óalgengt að skip séu með einn og hálfan loðnukvóta. Þetta þýðir einfaldlega að færri skip bjóða núna loðnu til sölu en fyrir nokkrum árum sem gerir það að verkum að samkeppnin um hráefnið hefur verið að aukast.
    Síðan hefur það gerst, eins og allir vita og ég hef verið að nefna hér, að útgerðirnar hafa verið að tengjast æ meir verksmiðjunum sem gerir það að verkum að þær verksmiðjur sem ekki hafa átt kost á skipum eða ekki átt skip hafa einfaldlega orðið undir, hafa ekki fengið hráefni. Dæmi eru um að skip sigli í stórum stíl fram hjá einstökum höfnum og einstökum verksmiðjum af því að þau eru á leið til heimahafnar. Útgerðarmynstur loðnuskipanna hefur verið að breytast að þessu leyti. Sú var tíðin að menn vissu nánast aldrei þegar þeir lögðu úr höfn hvar þeir mundu landa sinni loðnu. Nú er það þannig með fjölmörg skip að þau eru gerð út frá tiltekinni höfn í því skyni að landa loðnunni þar hvenær sem möguleiki er á. Þetta hefur auðvitað gerbreytt allri aðstöðunni og átt sinn þátt í því m.a. að Síldarverksmiðjur ríkisins hafa átt í verulegum erfiðleikum.
    Margir hafa orðið til þess að hafa stór orð um stöðu Síldarverksmiðja ríkisins, skuldastöðu þeirra, rekstrarafkomu o.s.frv. Ég ætla ekki að setja mig í neitt dómarasæti þar um. Kjarni málsins er auðvitað sá að mjög miklir erfiðleikar hafa verið í þessari grein. Það hefur verið verðfall og mjög mikið aflaleysi á loðnu undanfarin ár. Síldarverksmiðjur ríkisins, þetta stóra batterí með mikla fjárfestingu, hefur orðið mjög illilega fyrir barðinu á þessu. Eins og fram kom í máli hæstv. sjútvrh. er það ekki nema önnur ástæðan eða ein ástæðan fyrir því að nauðsynlegt er nú að breyta fyrirtækinu í hlutafélag. Aðalástæðan er allt önnur og hefur í sjálfu sér ekkert með rekstrarstöðu þessa fyrirtækis að gera. Nákvæmlega sömu rök finnst mér gilda fyrir því að einkavæða þetta fyrirtæki þó að staða þess væri mjög góð, fyrirtækið væri forríkt og stæði vel, að aldrei hefði komið neinn aflabrestur og allar aðstæður hefðu verið mjög hagstæðar. Aðalástæðan fyrir því að eðlilegt er að breyta þessu fyrirtæki nú, og þó fyrr hefði verið, er sú að engin rök mæla með því að ríkið sé að fást við þennan atvinnurekstur núna. Það er ekkert fyrir hendi sem menn töldu að væri og var örugglega fyrir hendi á þeim tíma sem verksmiðjurnar voru stofnaðar. Þetta er ekki til staðar núna. Hitt er miklu óeðlilegra að ríkið sé að fást við atvinnurekstur af þessu tagi þar sem samkeppnin er svona grimm í beinni samkeppni við einstaklinga þegar til staðar er öll þessi þekking sem þarf til þess að reka loðnuverksmiðjur í landinu og þess vegna mælir ekkert með því að ríkið sé að fást við þá hluti.
    Þegar verið er að stíga skref af þessu tagi sem felur það í sér að eignarhald ríkisins sleppir og einstaklingum er seld fyrirtækið vaknar mjög oft þessi spurning: Hver verður nú eigandinn? Er líklegt að það verði hinn voðalegi ,,kolkrabbi`` sem menn telja að sé að læsa sig um allt íslenskt atvinnu-, efnahags- og athafnalíf? Því er til að svara að kolkrabbinn svonefndi hefur ekki séð mikla arðsemi í því að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi og það er út af fyrir sig dálítið umhugsunarefni og segir manni kannski nokkra sögu um stöðu sjávarútvegsins, að þeir sem hafa leitað eftir arðsemi af sínu eigin fé hafa ekki séð ástæðu til þess að fjárfesta í þessari grein. Ég held að langlíklegasta þróunin hljóti að verða sú að aðilar í þessari grein og alveg sérstaklega heimamenn, sem hafa beinna hagsmuna að gæta, muni leita leiða til þess að eignast hlut í þessum fyrirtækjum til þess að tryggja að rekstur þeirra verði sem eðlilegastur í framtíðinni, til sem mestra hagsbóta fyrir þeirra pláss. Og miðað við þá þróun sem ég rakti áðan og hefur verið að eiga sér stað er auðvitað líklegast að þeir aðilar, sem hafa þarna beinna hagsmuna að gæta og vilja tryggja þennan rekstur sem hnökralausastan í framtíðinni, muni freista þess að eignast hlutabréf í Síldarverksmiðjum ríkisins, eins og það fyrirtæki heitir nú, í því skyni að fjárfesta í þeim atvinnurekstri.
    Ég held að það sé ekkert ofmælt sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði áðan að mikillar hagræðingar er þörf í þessari grein vegna þess að verksmiðjurnar eru of margar. Mér finnst að vel mætti hugsa sér og skoða í mestu vinsemd, eins og skáldið segir, hvort ekki mætti nota tækifærið sem nú gefst með sölu Síldarverksmiðja ríkisins til þess að stíga eitthvert skref í þessa átt. Á þessu stigi málsins vil ég ekki segja í hverju það ætti að vera fólgið. Ég held að eðlilegt væri að aðrir sem skoðað hafa þau mál betur hefðu meira um það að segja. En auðvitað væri hægt að hugsa sér ýmislegt í þessum efnum sem vissulega gæti þó orðið til hagsbóta fyrir atvinnulíf viðkomandi staða. Ég er ekki að tala um að leggja niður atvinnustarfsemi í tengslum við verksmiðjuna. Ég er að tala um aðra hluti sem gætu falið í sér aukna samvinnu, að menn kysu að hafa ekki endilega loðnuvinnslu með fullum þunga í hverri þeirri verksmiðju sem nú er starfandi heldur einhvers konar aðra starfsemi af því tagi. Þetta er alla vega hlutur sem mér finnst alveg ómaksins vert að menn velti fyrir sér. Ef heimamenn t.d. sjá sér hag í slíkum breytingum á atvinnurekstri í sínu heimahéraði þá reyni ríkið fremur að greiða fyrir þeirri hagræðingu en að trufla hana. Ég tel ekki að ríkið eigi að standa að málinu þannig að það sé að keyra fram einhverjar breytingar í trássi við vilja heimamanna. Ég er miklu frekar að tala um, ef hægt væri, að ríkið notaði tækifærið nú ef heimamenn, sem þarna kæmu að máli, teldu ástæðu til að gera einhverjar breytingar og að ríkið auðveldaði, greiddi fyrir þessum breytingum.
    Ég vek athygli á að í 9. gr. frv. er gert ráð fyrir því að fjmrh. sé heimilt að yfirtaka skuldir verksmiðjanna að fjárhæð 500 millj. Ekki er ólíklegt að með þessu skapist eitthvert svigrúm af því tagi sem ég er að tala um mjög almennum orðum vegna þess að mér finnst engin ástæða til þess að vera að slá neinu föstu um þetta eða nefna nein dæmi vegna þess að ég er ekki búinn að skoða það mál nægilega vel.
Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það er alveg hárrétt sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði. Hagræðingar er þörf í greininni. Nauðsynlegt er að breyta þannig að hin grimmilega samkeppni um hráefnið sé ekki öll á annan veginn eins og núna og þess vegna væri athugandi að við notuðum tækifærið nú til þess að hagræða í greininni.
    Að lokum vil ég nefna atriði sem mér finnst skipta verulegu máli í þessu sambandi og það er hvert líklegt söluverð verksmiðjanna verður. Í loðnuverksmiðjugeiranum eru fjölmörg fyrirtæki fyrir úti um allt land eins og kemur fram í fylgiskjölum frv. Þessi fyrirtæki þurfa að starfa áfram í samkeppni alveg eins og þau eru að gera núna. Væntanlega í samkeppni við hið nýja fyrirtæki sem rís á grunni Síldarverksmiðja ríkisins. Þess vegna þarf að búa svo um hnútana að ekki verði um neina óeðlilega viðskiptahætti að ræða, svo að ég orði það nú þannig, sem gera það að verkum að fyrirtæki sem rísa á þessum grunni hafi aðstöðu sem önnur fyrirtæki í greininni geta ekki búið við. Þau fyrirtæki sem eru í eigu einstaklinga, útgerðarmanna, hlutafélaga og almennings hafa orðið að fjárfesta í stórum stíl í mjög dýrum tæknibúnaði. Og kröfurnar sem eru fram undan í þessum efnum eru um aukna fjárfestingu, auknar mengunarvarnir, aukinn búnað til þess að nýta orku o.s.frv. o.s.frv. Við höfum fylgst með þeim deilum sem hafa farið fram í þeim stóra sjávarútvegsbæ, Reykjavík, þar sem svo virðist sem stór hópur fólks telji að hin merka og ágæta atvinnustarfsemi sem fram fer úti á Granda sé óvelkominn gestur í sjávarútvegsplássinu, verstöðinni Reykjavík, svo undarlegt sem nú það hljómar í eyrum okkar sem búum úti á landi. Engu að síður er það þannig og endurspeglar fyrst og fremst þá miklu kröfu sem uppi er í þjóðfélaginu um að fyrirtækin auki fjárfestingu sína í alls konar búnaði, tækjum og vélum, sem er býsna dýr. Þess vegna skiptir það mjög miklu máli fyrir þá samkeppnisstöðu sem fyrirtækjunum verður búin í framtíðinni og að þannig verði búið um hnútana að hin nýju fyrirtæki eða hið nýja fyrirtæki, hvernig sem þessi mál þróast, sem rís á grunni Síldarverksmiðja ríkisins hafi ekki neina óeðlilega samkeppnisstöðu í framtíðinni að þessu leyti. Ég tel nauðsynlegt að viðra þessar --- ég segi nú ekki áhyggjur mínar en þessi sjónarmið mín vegna þess að ég veit að hæstv. sjútvrh. hefur mikinn skilning á málinu. Ég treysti honum manna best til þess að standa vel að sölu fyrirtækisins svo nauðsynleg sem hún er. Ég vil þess vegna ítreka að ég fagna framlagningu frv. og vænti þess að það fái hraða, vandaða og góða meðferð í þinginu og verði samþykkt sem lög frá Alþingi vel fyrir vorið.