Síldarverksmiðjur ríkisins

81. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 14:23:00 (3496)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Það þarf ekki að draga í efa að hv. 4. þm. Norðurl. e. vilji mjög mikið leggja af mörkum til þess að um þetta mál megi takast þverpólitísk samstaða. Um leið og honum varð það á að andmæla einum litlum kafla í minni ræðu, þá lagði hann þá lykkju á leið sína að skipta strax um skoðun í næstu setningu og komast að annarri niðurstöðu, allt náttúrlega í þeim tilgangi að ná um þetta þverpólitískri samstöðu.
    Kjarni málsins, sem lýtur að því hvort um sé að ræða of mikla afkastagetu loðnuverksmiðjanna í landinu, er einfaldlega þessi: Það er þannig að langoftast eru aðstæður þær að um mikla umframgetu er að ræða, jafnvel á háloðnuvertíðinni. Það kann að koma fyrir dag og dag að flestar þrær landsins séu fullar. Ég vek þó athygli á því að stærsta loðnuverksmiðja landsins var samkvæmt upplýsingum blaðanna í morgun ekki búin að fá nema 1.200 tonn á land og svo mikið höfðu menn við á Siglufirði þennan morgun þegar þessi 1.200 tonn bárust að landi að allir fyrirsvarsmenn bæjarins mættu á bryggjuna með rjómatertu til þess að fagna þessu. Þetta sýnir það auðvitað að í dag, þrátt fyrir það að aflast hafi þokkalega núna síðustu dagana, þá er það þannig því miður að umframafkastageta er við allar venjulegar aðstæður. Ég tel hins vegar að það eigi að fara með mjög mikilli gætni í úreldingu á loðnuverksmiðjunum, gera það þannig að hagsmunir einstakra byggðarlaga séu hafðir í fyrirrúmi. Slík úrelding hefur verið að eiga sér stað, ekki að hún ætti eingöngu, eins og hv. 3. þm. Vesturl. ýjaði að, að fara fram á vettvangi Síldarverksmiðja ríkisins. Hún hefur farið fram hjá þó nokkrum loðnuverksmiðjum, einkanlega hér á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum og raunar víðar sem bendir til þess að menn í greininni finni það sjálfir að það þurfi að auka hagræðinguna, m.a. með því að draga úr afkastagetu verksmiðjanna.