Síldarverksmiðjur ríkisins

81. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 14:28:00 (3498)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir um Síldarverksmiðjur ríkisins vekur margar spurningar. Ein spurningin vaknar við lestur á 9. gr. frv. þar sem segir að fjmrh. sé heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að yfirtaka skuldir Síldarverksmiðja ríkisins að fjárhæð allt að 500 millj. kr.
    Það fyrirtæki sem við erum að ræða hér um er eitt mikilvægasta fyrirtæki landsmanna. Það hefur skilað þjóðinni gífurlegum arði, beint og óbeint, og ríkið hefur aldrei lagt fram eina einustu krónu til þessa fyrirtækis, hvorki fyrr né sé síðar. Fyrirtækið hefur aflað alls þess fjár sem þurft hefur til að byggja það upp, fengið að taka lán og endurgreitt þau. Að sjálfsögðu eru þeir fjármunir gífurlegir sem þetta fyrirtæki hefur skilað í þjóðarbúið.
    Nú allt í einu kemur fram tillaga um að ríkið eigi að taka á sig 500 millj kr., þær eigi að borga af almennafé til þessa reksturs 500 millj. kr. Hvað veldur þessu? Fyrirtækið er ekki gjaldþrota. Að vísu hefur hæstv. forsrh. ítrekað haldið því fram að fyrirtækið sé gjaldþrota. Hann hélt þessu mjög stíft fram í kosningabaráttunni fyrir einu ári síðan en það var afhjúpað sem ósannindi. Það reyndist blekking. Gögn komu fram í fjölmiðlum af hálfu Síldarverksmiðja ríkisins sem sýndu það greinilega að eiginfjárstaða fyrirtækisins var jákvæð um verulega upphæð. Það hefur ekki verið upplýst í þessu máli að fyrirtækið sé gjaldþrota nú og þess vegna vaknar spurningin: Hvers vegna á að leggja fyrirtækinu til 500 millj. kr.? Svarið

er augljóslega það að ætlunin er að koma þessu fyrirtæki í hendur einkaaðila. Fyrirtæki sem búið er að starfa í hálfa öld og hefur aldrei þurft á fjármunum að halda af almannafé er núna loksins í þörf fyrir peninga og það vegna þess að það á að koma því í hendur einkaaðila. Þetta er auðvitað mjög eftirtektarverð staðreynd.
    Ég held að vandinn í þessu samhengi sé auðvitað sá að hér er um gríðarlega stórt fyrirtæki að ræða og það getur orðið vandi að finna út hverjir eiga að yfirtaka þetta fyrirtæki og með hvaða hætti. Ég tel að hér sé öfugt að farið. Auðvitað væri eðlilegast að móta einhverja stefnu í þessu máli, ákveða hvernig hugsanlegt væri að skipta upp þessu fyrirtæki, átta sig á því hvort það er mögulegt og afla síðan staðfestingar Alþingis á þeirri stefnu sem tekin er í málefnum fyrirtækisins. En hér er alveg öfugt að farið. Það er byrjað á því að biðja Alþingi að afsala sér yfirráðum yfir fyrirtækinu með því að breyta því í hlutafélag. Breytingin felur það í sér að í stað þess að Alþingi kjósi stjórn fyrirtækisins þá á fyrirtækið að verða í höndum hluthafa. Fyrst í stað er ríkið aðalhluthafinn þannig að það er sjútvrh. eða fjmrh. eða kannski þeir báðir í sameiningu sem skipa alla stjórnarmenn fyrirtækisins. Sem sagt, sú breyting sem fyrst og fremst felst í þessu frv. er þessi formbreyting að þeir sem ákvörðunina eiga að taka um stefnumótun í málefnum fyrirtækisins eru ekki fimm menn kjörnir hlutfallskosningu á Alþingi og þar af leiðandi tilnefndir af a.m.k. fjórum stjórnmálaflokkum heldur á að koma ákvörðunarvaldinu í hendur eins stjórnmálaflokks, þess stjórnmálaflokks sem fer með fjármál ríkisins og hefur yfirumsjón með fjmrn.
    Hins vegar liggur ekkert fyrir um það í þessu máli hvaða stefnu eigi að fylgja eftir að þessi breyting hefur verið gerð, hvernig verðlagningu á eignum fyrirtækisins verður háttað, hver verður forkaupsréttur heimamanna þegar kemur að því að fyrirtækið verði selt o.s.frv. Það er nákvæmlega engin stefna mörkuð í upphafi, aðeins verið að tryggja það í fyrsta lagi að ráðherrann hafi til úthlutunar 500 millj. kr. sem hann geti notað til þess að auðvelda að koma fyrirtækinu í hendur einkaaðila og í öðru lagi að Sjálfstfl. sé þarna einráður í málinu og engin hætta sé á að fulltrúar annarra flokka geti haft neitt um málið að segja. Ég álít sem sagt að það sé mjög einkennilega staðið að þessu máli. Ég álít þetta frv. stórgallað. Ég álít að eðlilegast væri að hæstv. ráðherra afturkallaði frv., undirbyggi þetta mál miklu betur og kæmi fram og segði hvernig á að standa í smáatriðum að því að einkavæða fyrirtækið frekar en fara svona í málið að tryggja einum stjórnmálaflokki alger yfirráð um þá stefnu sem verði mótuð og segja að öðru leyti ekkert um það hvernig á málinu verði haldið. Fyrst verða alþingismenn auðvitað að vita hvað á að gera. Fyrst verða þeir að fá tækifæri til þess að átta sig á því hvort nýtt skipulag verður eitthvað betra en það gamla og svo geta þeir tekið ákvörðun en ekki öfugt, að fyrst sé þeim ætlað að afsala sér öllum ákvörðunarrétti í þessu máli og svo eigi þeir eftir á að meta hvort það hafi verið hyggilegt af þeim eða ekki að veita þessa heimild.