Síldarverksmiðjur ríkisins

81. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 14:36:00 (3499)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Það er bara smáviðbót af minni hálfu. Ég hafði ekki tíma til að klára almennilega að svara hv. 3. þm. Vestf. áðan. Við áttum aðeins orðaskipti um afköst í mjöliðnaðinum og ég gerði athugasemdir við ummæli hans í ræðu og varaði hann og aðra við að hrapa að því að fella stóra dóma um mikla umframafkastagetu í bræðslunni. Ég var að reyna að rökstyðja það sem er mín skoðun að ef við horfum til þess hversu afbrigðilegar loðnugöngur geta greinilega orðið þar sem nánast engin vertíð hefur verið annarri lík undanfarin allmörg ár og ber enn á því að loðnugengdin sé með nokkuð óvenjulegum hætti og veiðisvæðin mismunandi eftir árum. Sum árin hér fyrr var stór hluti veiðinnar norðan við land, síðsumars og á haustin en nú hin síðustu ár hefur veiðin í raun og veru tæplega hafist fyrr en um áramót og þá ekki í neinum mæli fyrr en gangan er komin austur fyrir Langanes. Þrátt fyrir það er hér mikið magn á ferð sem betur fer og horfur á jafnvel enn meiri veiðimöguleikum á næsta ári eða næstu vertíð.
    Einfalt reikningsdæmi sýnir manni að eigi að ná að vinna innan lands, sem hlýtur að vera keppikeflið, loðnuna á þessari vertíð það sem eftir er að veiða af henni og miðað við nokkurn veginn fullnýtta afkastagetu íslensku verksmiðjanna, lágmarksuppihöld eða frátafir vegna ógæfta, þá stendur það svona á endum að flotinn og verksmiðjurnar hafi það af fyrir miðjan apríl að klára vinnslu þessa loðnukvóta. Það má í raun og veru ekkert út af bera til að það takist. Þess vegna hefði hv. þm. eiginlega átt að varast að nefna það dæmi hér að verksmiðjan á Siglufirði hefði enn sáralítið hráefni fengið á þessari vertíð vegna þess að hver dagur sem líður og verksmiðjan á Siglufirði fær ekki hráefni dregur úr líkunum á því að við náum að nýta til fulls verðmætin í núverandi loðnukvóta á þessari vertíð. Það þarf ekki að útskýra fyrir hv. 3. þm. Vestf. eða vonandi ekki hversu skammlíf skepna loðnan er og að sú loðna sem einu sinni fer fram hjá gengur ekki aftur mörg ár til veiða eða mér er ekki kunnugt um það að loðnan sé almennt talin í hópi þeirra dýrategunda sem á líf eftir dauðann fyrir höndum, a.m.k. ekki í efnislegum skilningi og verður ekki brædd. Það alveg á hreinu. Þetta er einfaldlega svona að þegar maður fer yfir þessi dæmi um afkastagetu í veiðum og jafnvel í vinnslu og þegar öll þau frávik og sveiflur, sem þar er nauðsynlegt að taka tillit til og hafa vara á sér gagnvart, eru tekin með í dæmið þá reynast þessir útreikningar um hina miklu umframafkastagetu sem við höfum iðulega heyrt á undanförnum árum í flotanum og í vinnslunni oft á tíðum stórhættulegir, stórgallaðir.
    Ég tók það að vísu fram að það kann að vera reikningsdæmi út af fyrir sig hvort það borgi sig ekki að hafa í landinu þá uppbyggingu og þau afköst í veiðum og vinnslu að menn nái að nýta kannski hæstu toppana þegar þeir koma. Vel getur verið að það sé ekki nægjanlega arðsöm fjárfesting sem miði að

því að fullnýta kannski 10--15% möguleikana á veiðum loðnu og síldar í metaflaárum. Þá það, þá er það bara reikningsdæmi sem menn þurfa að leysa ef þeir eru á annað borð tilbúnir til þess að fara út í að reyna að hafa einhvern hemil á því að stýra því með einhverjum hætti. Ég hélt satt best að segja að markaðurinn væri alvitur og óskeikull í þeim efnum og þetta ætti bara að hafa sinn gang. Og ef einhverjir væru svo vitlausir að þeir vildu byggja hér þúsund loðnubræðslur þá mættu þeir það því að markaðurinn mundi hafa hafa sinn gang. En hvað sem því líður þá er það nú ljóst að a.m.k nær okkur litið skiptir sú aðstaða og þau afköst sem fyrir hendi eru og til eru í landinu miklu máli þegar með tiltölulega skömmum fyrirvara koma upp þær aðstæður eins og hafa gerst á þessari vertíð að fiskifræðingar meta það óhætt að taka mun meiri afla heldur en áður var óformað. Og þá kemur það sem sagt í ljós sem ég tel mig hafa rökstutt sæmilega að í raun megum við hafa okkur alla við til þess að ná þessum verðmætisauka inn í þjóðarbúið sem er nú einn af fáu sólargeislunum sem borið hafa upp á í þessu skammdegi, þ.e. þessir 1--2 milljarðar kr. eða hvað það er sem viðbótarveiðiheimildir á loðnu geta gefið okkur ef við náum að nýta okkur þá.
    Eitt enn þarf hv. 3. þm. Vestf. líka að hafa í huga og aðrir ræðumenn og er hann kannski ekki sá sem helst þarf fræðslu við í þessum efnum hér í þingsalnum. Það er auðvitað að menn gera misjafnlega mikil verðmæti úr þessu hráefni sem þeir fá til sín og það er ekki endilega gleðiefni að verksmiðjan á Siglufirði standi tóm á sama tíma og hráefni hleðst upp í verksmiðjum á Austfjörðum og verður þar viku, tíu daga til hálfsmánaðar gamalt, vegna hvers? Vegna þess að um leið og hráefnið er orðið meira en fjögurra til sex sólarhringa gamalt vitum við að verðmætin sem úr því koma verða minni en ef það væri brætt ferskt. Þess vegna er það líka keppikefli í sjálfu sér að nýta afkastagetu verksmiðjanna þannig að þegar vel veiðist séu þær helst allar að bræða ferskt hráefni, þá verða verðmætin mest. Bara þessi eini þáttur gerir það að verkum að það getur verið ástæða til að skoða þetta afkastadæmi og birgðarýmið í alveg nýju ljósi, 10--15% viðbótarverðmætisauki út úr gæðamjöli eða ferskara hráefni getur sveiflað stórum upphæðum í þessu dæmi þar sem gróði og reyndar tap eins og við vitum, því miður, getur verið ákaflega fljótt að myndast.
    Um þetta gæti ég masað hér lengi dags og ( Gripið fram í: Viltu þá ekki bara gera það?) við hv. 3. þm. Vestf. sjálfsagt klárað daginn til kvölds ef út í það væri farið að hella úr skálum okkar um þessi bræðslumál. Þótt ég hafi fengið hérna vinsamlega ósk um að gera það þá er ég að hugsa um að láta það bíða betri tíma a.m.k. Ég tel í sjálfu sér úr því sem komið er, þrátt fyrir það sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan, kannski ekki annað betra að gera nema hæstv. sjútvrh. verði við tilmælum hans. En ef ekki þá sé ekki annað betra að gera en taka þetta mál til skoðunar í sjútvn. og treysta á að þar verði skilningur á því að reyna að vinna þetta mál vel, skoða á því allar hliðar og reyna að ná um það einhverri samstöðu ef mögulegt er. Hvers vegna í ósköpunum vilja menn endilega hafa öll mál hér í illindum og ágreiningi ef kostur er á öðru? Er það orðið eitthvert keppikefli í sjálfu sér að afgreiða helst ekki nokkurn skapaðan hlut hér í þinginu nema í illsku? Manni finnst stundum að það örli á því hugarfari hjá mönnum. Ég hélt að það sem ég taldi vera ákaflega vinsamlega ræðu, m.a. í garð hæstv. sjútvrh., ítrekaði álit mitt á honum og að ég treysti honum mörgum mönnum betur fyrir því mikla valdi sem honum er ætlað með þessu frv. ef að lögum verður og reyndi svona að leggja frekar gott til umræðunnar og einhver rök inn í þetta samhengi en fékk svo þær kveðjur sem hér birtust frá hv. 3. þm. Vestf. Mér fannst það ekki vita á alveg nógu gott en ég vona að það hafi verið eitthvert stundarkast sem hljóp í ræðumanninn og hann sé nú eftir sem áður velviljaður því að menn skoði þetta í bróðerni og leiti leiða til þess að ná samstöðu um þetta mál því að ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vera hægt.