Síldarverksmiðjur ríkisins

81. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 14:45:00 (3500)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta fer að verða nokkur umræða um afkastagetu loðnuverksmiðja í landinu og ætti í sjálfu sér ekki að verða til þess að menn taki þetta mjög inn á sig eða séu mjög viðkvæmir fyrir einhverjum orðaskiptum af því taginu. Ég tók einfaldlega undir í mínu máli áðan mjög góða ræðu hv. 1. þm. Norðurl. v. sem vakti á því athygli að það væri um að ræða þá aðstöðu að við værum með umframafkastagetu og af því hefði hlotist nokkurt óhagræði. Mér er auðvitað manna best ljóst hvernig loðnuveiðarnar hafa verið að þróast síðustu árin þar sem haustveiðin hefur brugðist. Ég vakti á því að athygli að þrátt fyrir það að við værum að veiða loðnukvótann núna á enn þá skemmri tíma en oftast nær áður þá væri málum samt sem áður þannig komið að mjög góð loðnuverksmiðja sem ég nefndi, loðnuverksmiðjan á Siglufirði, hefði fengið sáralítinn afla. Og eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði áðan þá eru verksmiðjurnar á Austurlandi farnir að búa sig undir skort á hráefni með því að bunka að sér loðnu. Mér finnst ekki að við þurfum í sjálfu sér að fara neitt að hnotabítast um þetta atriði. Ég held að þeir sem munu svara þessu best séu hagsmunaaðilarnir sjálfir, þeir sem reka verksmiðjurnar, sem munu finna það sjálfir hvort ástæða sé til að keyra allt verksmiðjuapparatið í landinu á fullum afköstum, hvort það séu möguleikar á því. Þeir hafa í rauninni svarað því þannig að það sé þörf á að fækka verksmiðjum og þetta hefur verið að eiga sér stað smám saman á síðustu árum. Ég held einfaldlega að þær staðreyndir sem við okkur blasa segi okkur þetta og um það þurfi ekki að verða neinn pólitískur ágreiningur og sé engin ástæða fyrir hv. 4. þm. Norðurl. e. að hafa hér uppi orð um það.