Síldarverksmiðjur ríkisins

81. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 15:05:00 (3502)


     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Auðvitað vitum við að Síldarverksmiðjur ríkisins eru í erfiðri stöðu. Hvers vegna? Vegna þess að það hefur engin loðna verið brædd þar mjög lengi. En hvers vegna er það staðreynd að Síldarverksmiðjur ríkisins hafa aldrei fengið fé frá ríkinu? Halda menn að þetta sé í fyrsta skipti sem svona erfiðleikaástand kemur upp eins og núna? Halda menn að það hafi ekki áður komið fyrir að Síldarverksmiðjur ríkisins væri í vandræðum vegna þess að engin loðna eða engin síld berst? Jú, oft hefur það áður gerst. Það sem er hins vegar meginkjarninn í rekstri fyrirtækisins undanfarna áratugi er að það er það stórt fyrirtæki að það hefur getað jafnað út öldudalina með þeim toppum sem komið hafa þess í milli. Og til þess hafa fyrst og fremst verið tekin lán. Það þýðir ekkert að segja manni það núna eftir djúpan öldudal að það sé algerlega vonlaust að fyrirtækið geti bjargað sér sjálft eins og það hefur oft áður gert með eðlilegri lánsfyrirgreiðslu. Hitt er annað mál að ef fyrirtækið fær ekki eðlilega lánsfyrirgreiðslu þá er það auðvitað í stórkostlegum vandræðum. Og það er það sem hefur skeð. Núv. ríkisstjórn nýtti sér aldrei þá heimild sem Alþingi gaf henni á sl. vetri til að rétta við erfiða rekstrarstöðu Síldarverksmiðju ríkisins með töku á rekstrarláni. Ríkisstjórnin vildi frekar koma fyrirtækinu í vandræði þannig að það væri síðan hægt að segja að það væri óhjákvæmilegt að breyta rekstrinum og endurskipuleggja hann miðað við ástandið eins og það væri orðið.
    Ég fullyrði að með eðlilegri rekstrarfyrirgreiðslu frá því í fyrravetur og fram á þennan dag mundi þetta fyrirtæki fullkomlega geta komist yfir þá erfiðleka sem nú er við að stríða. Og nú þegar loðna er aftur farin að veiðast eru allar líkur á því að sá toppur gæti jafnað þann öldudal sem nú er fyrir hendi.
    Ég vil svo segja að lokum að Siglfirðingar, af því hann nefndi þá áðan, hafa þungar áhyggjur af meðferð hæstv. sjútvrh. á þessu máli.