Beiðni um skýrslur

82. fundur
Mánudaginn 17. febrúar 1992, kl. 13:30:00 (3510)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Snemma í haust, í októbermánuði, lögðum við þingmenn Alþb. fram beiðnir um tvær skýrslur. Í fyrsta lagi er mál sem er 3. mál þingsins og fjallar um málefni og hagi aldraðra, beiðni til heilbr.- og trmrh. um skýrslu. Í öðru lagi 24. mál þingsins, sem var einnig lagt fram í októbermánuði, ég hygg í kringum 20. október, þar sem beðið var um skýrslu ríkisstjórnarinnar um stefnu í málefnum iðnaðarins. Hvorug þessara skýrslna er enn þá komin til meðferðar á hv. Alþingi og ég hef ekki orðið var við að ráðherrar hafi búið sig undir að dreifa þeim. Ég spyr hæstv. forseta hvort hann geti gert ráðstafanir til þess að ræða það við viðkomandi ráðherra að þeir skili þessum skýrslum hið allra fyrsta hingað inn. Hvor tveggja málin eru reyndar mjög mikilvæg og til meðferðar úti í þjóðfélaginu, bæði það mál sem snýr að þróun iðnaðarins en ekki síður og kannski enn frekar það mál sem snýr að málefnum og kjörum aldraðra í þessu þjóðfélagi eftir þær ákvarðanir sem hæstv. heilbrrh. hefur tekið í þeim efnum. Þess vegna fer ég fram á það við hæstv. forseta að hann hlutist til um að því verði flýtt að þessar skýrslur komi hér inn og komi til umræðu.