Lánasjóður íslenskra námsmanna

82. fundur
Mánudaginn 17. febrúar 1992, kl. 13:46:18 (3514)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Í umræðum um þetta mál í síðustu viku var beint til mín allmörgum fyrirspurnum sem ég vil nú leitast við að svara. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir gagnrýndi nokkuð nefndaskipanina og þótti of mikið liggja á við afgreiðslu þessa máls. Varðandi skipan nefndarinnar og starfstíma hennar eftir að námsmenn fengu aðild að nefndinni, þá er rétt að taka fram að námsmenn höfðu haft hugmyndir nefndarinnar til athugunar og umfjöllunar í nokkrar vikur áður en seinni nefndin tók til starfa. Þeir höfðu jafnframt skilað sínum hugmyndum til upphaflegu nefndarinnar. Mér finnst það þess vegna ekki vera réttmæt gagnrýni að einhver sérstakur æðibunugangur, eins og það hét í máli hv. þm., hafi verið á þessu starfi þótt nefndinni hafi verið ætlað að skila tillögum sínum á tiltölulega skömmum tíma. Það er hins vegar rétt að það liggur nokkuð á að þetta mál hljóti afgreiðslu þingsins sem allra fyrst.
    Ég hef fyrr við umræðuna lýst stöðu sjóðsins, hver hún er, og gerði það raunar fyrr í haust og það verður að bregðast við henni, annars fer illa. Ef ekki verða samþykkt ný lög núna eru ekki mörg ráð til úrlausnar önnur en þau að skerða námslánin verulega. Heimildir eru til þess eða hægt að fá þær heimildir í reglugerðum en ég vildi síst af öllu standa frammi fyrir þeim kosti.
    Hv. þm. talaði einnig nokkurt mál um það sem kallað var valdaframsal og taldi jafnvel skárra að hafa valdið hjá ráðherra. Ég met að vísu það traust en engu að síður held ég að þarna sé farið inn á rétta braut með því að fela stjórn lánasjóðsins meira ákvörðunarvald en verið hefur í dag. Nefndar voru 2., 3., 6., 13. og 16. gr. Um 2. gr. tek ég fram að þar hefur verið tekið út það ákvæði að nemendur tiltekinna skóla eða einstakir árgangar þeirra skuli njóta námslána samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Þegar hefur komið fram hvers vegna þessi breyting er lögð til. Leitast er við að hafa samræmi í lánareglum þannig að ekki þurfi að hringla með þær frá ári til árs. Heimild til að lána öðrum námsmönnum en þeim sem falla undir skilgreiningu 1. gr. verður áfram fyrir hendi, enda hafi þeir náð 20 ára aldri. Ég hef jafnframt farið yfir rökin fyrir hinni svokölluðu 20 ára reglu en ég hef líka sagt að ef vilji þingsins er að hafa þessa reglu óbreytta þá beygi ég mig að sjálfsögðu undir það. Það kemur mér nokkuð á óvart ef menn vilja beina mönnum inn á tilteknar námsbrautir öðrum fremur í gegnum lánasjóðinn. En ég hef tekið fram og óskað eftir því að hv. menntmn. athugi þetta mál sérstaklega.
    Varðandi 3. gr. og valdaframsal sem þar á að hafa átt sér stað. Þar er stjórn LÍN heimilað að taka tillit til ýmissa atriða sem áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns þegar upphæð námslána er ákvörðuð. Í núgildandi lögum eru talin upp atriði sem taka skal tillit til við ákvörðun námslána. Með þessari breytingu hefur stjórnin meira svigrúm til ákvarðana en nú er. Rétt er að geta þess að í 12. gr. er heimilað að taka tillit til ýmissa þátta varðandi hagi námsmanna og veita þeim aukalán á sömu kjörum og almenn lán. Enn fremur er í 12. gr. heimild til handa stjórn sjóðsins að veita venjuleg skuldabréfalán með bankavöxtum til allt að 10 ára. Stjórninni er ætlað að móta nánari reglur um notkun þessarar heimildar en með henni gefst að sjálfsögðu aukið svigrúm til að taka tillit til ófyrirséðra þátta.
    Næst var 6. gr. nefnd. Í henni er m.a. gert ráð fyrir að stjórn sjóðsins ákvarði hvaða skilyrðum lántakendur og ábyrgðarmenn þurfi að fullnægja. Gert er ráð fyrir að um ábyrgðarmenn gildi svipaðar kröfur og í bankakerfinu. Í þessum efnum er eðlilegt að stjórnin ákveði þau skilyrði sem uppfylla þarf en það sé ekki gert í lögum eða reglugerð. Þá er stjórninni þarna heimilað að innheimta lántökugjöld.
    Um 13. gr. er það að segja að þar er stjórn sjóðsins fengin heimild sem áður var hjá ráðherra. Það er rétt að þar er þrengt að lánsrétti þeirra erlendu ríkisborgara sem ekki eru frá Norðurlöndum. Eðlilegt er að þetta vald sé hjá sjóðstjórn en ekki hjá ráðherra. Það er a.m.k. mitt mat.
    Um 16. gr. er það að segja að þar er ráðherra heimilað að setja reglugerð um frekari framkvæmd laganna. Stjórn sjóðsins er falið að setja reglur um önnur atriði laganna og gefa þær út árlega. Þessar reglur eru hins vegar samþykktar af ráðherra. Þarna kemur raunar fram óskorað forræði ráðherra yfir stofnuninni. Þó margt sé þannig fært frá ráðherra til stjórnar til hægðarauka hefur hann enn óskorað vald yfir sjóðnum innan ramma laganna. Sú breyting er gerð þarna að ekki er lengur heimilt að innheimta félagsgjald af lánþegum án þess að fyrir liggi ósk þeirra og samtaka þeirra. Hér er reglum breytt í þá veru að virða rétt þeirra einstaklinga sem taka lán úr Lánasjóði ísl. námsmanna. Ekki þykir rétt að skylda nokkurn þann sem taka þarf námslán til að greiða af lánum sínum til félagasamtaka án hans samþykkis. Þetta vildi ég taka fram varðandi gagnrýnina sem komið hefur fram frá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur og raunar fleirum um hið svokallaða valdaframsal.
    Hv. þm. spurði svo hvernig námsmenn ættu að fá aðgang að húsbréfakerfinu. Því er til að svara að það eru auðvitað margir sem ekki komast inn í húsbréfakerfið. Það eru ekki aðeins námsmenn með lán á bakinu. Þær breytingar sem verið er að gera á lánasjóðnum hafa óhjákvæmilega í för með sér hærri endurgreiðslur fyrir lánþega. Öðruvísi er ekki hægt að bæta hag sjóðsins nema með stórauknum framlögum frá Alþingi. Ég hef farið yfir þann þátt og látið í ljós þá skoðun, miðað við sögu undangenginna ára, að um það sé varla að ræða.
    Þessar hertu endurgreiðslur hafa áhrif á getu námsmanna til að taka önnur lán, það gefur auga leið. En í þessu sambandi verður einnig að taka tillit til þess að þær reglur sem lagðar eru til munu hafa þau áhrif að lán einstaklinga verða kannski ekki eins há í framtíðinni og nú er.
    Þá spurði hv. þm. hvað átt væri við með eflingu Vísindasjóðs. Ég hef rætt það áður, gerði það í framsögu minni, að niðurstaðan hefði orðið sú að blanda ekki beinum styrkjum saman við lánasjóðinn heldur yrði þeim vísað á Vísindasjóð. Það liggur hins vegar ekki fyrir með hvaða hætti það verður gert. Rætt hefur verið við stjórn Vísindasjóðs um að sjóðurinn taki þetta hlutverk að sér. Að sjálfsögðu verður það ekki gert nema hann verði efldur en núna liggja ekki fyrir ákveðnar tillögur í því efni.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gagnrýndi einnig vinnubrögð við skipan nefndarinnar en var svo sem ekki með beinar spurningar varðandi það. Ég vil bæta því við að tekin var sú ákvörðun að í undirbúningsnefnd sætu fulltrúar stjórnarflokkanna og að þeir störfuðu að undirbúningi málsins í þrjá mánuði. Starfsmaður nefndarinnar var starfsmaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Þessi fyrri nefnd lét reikna fyrir sig ýmsar hugmyndir og möguleika. Þegar því starfi lauk var hagsmunaaðilum sent málið til umsagnar og þegar þær umsagnir höfðu borist var fulltrúum námsmanna bætt við í nefndina og henni falið að ganga frá endanlegum tillögum til mín.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson talaði einnig um það í ræðu sinni að þrengdir væru kostir þeirra sem standa höllum fæti. Þeir sem standa höllum fæti eru væntanlega þeir sem ekki geta stundað nám án þess að eiga kost á lánum frá Lánasjóði ísl. námsmanna. Það sem við erum að gera er einfaldlega þetta. Við erum að renna stoðum undir lánasjóðinn.

Lánasjóðinn sem stefnir í þrot ef ekkert verður að gert. Þetta gerum við með þeim hætti að fullt tillit verði tekið til mismunandi endurgreiðslugetu lánþega. Ég get þess vegna ekki fallist á að verið sé að þrengja kost þeirra sem standa höllum fæti. Það mundi verulega þrengja kost þeirra ef við aðhefðumst ekkert og létum sjóðinn komast í þrot. Þá mundu þeir sem ekki eiga fjársterka að ekki eiga þess kost að stunda nám. Með því að renna traustum stoðum undir Lánasjóð ísl. námsmanna erum við einmitt að tryggja áframhaldandi jafnrétti til náms.
    Hv. þm. nefndi það einnig að námsmönnum hefðu ekki verið ætlaðir meira en 10 dagar í haust til að tjá sig. Ég hef rakið þetta að nokkru nú þegar. Námsmenn fengu hugmyndir upphaflegu nefndarinnar sendar til umsagnar nokkrum vikum áður en fulltrúar þeirra voru skipaðir í nefndina. Umsagnir þeirra lágu fyrir þegar þeir tóku til starfa í nefndinni og að nokkru leyti var tekið tillit til þeirra. Þess vegna er rangt að segja að námsmenn hafi einungis fengið 10 daga til að tjá sig um frv.
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir talaði m.a. um að fortíðarvanda ætti ekki að leysa með því að leggja það á þá sem ættu eftir að fá lán úr sjóðnum. Vissulega er hluti af vanda LÍN fortíðarvandi. Það er hluti af þeim vanda að í tíð síðustu ríkisstjórnar voru námslán hækkuð á sama tíma og framlög ríkisins til sjóðsins voru lækkuð. Þannig þurfti sjóðurinn að fjármagna sig í auknum mæli með lántöku á fullum vöxtum á meðan sífellt hærri fjárhæðir voru lánaðar út vaxtalaust. En við erum ekki bara að tala um fortíðarvanda. Á meðan fjárveitingavaldið er ekki tilbúið að leggja sjóðnum til allt það fé sem hann þarfnast og á meðan sjóðurinn þarf að taka lán með vöxtum og lána út vaxtalaust verður til sívaxandi vandi. Við höfum ástæðu til að ætla að fjárveitingavaldið sé ekki tilbúið að leggja LÍN til alla þá milljarða sem hann þarf. Þetta eru þær staðreyndir sem við verðum að beygja okkur undir.
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir spurði hvort lánað yrði vegna skólagjalda við Háskóla Íslands. Því er til að svara að ákvörðun um þetta hefur ekki verið tekin og verður ekki tekin fyrr en frv. hefur verið afgreitt. Ég hef hef hins vegar lýst því yfir að mér þyki líklegt að lánað verði vegna skólagjalda við Háskóla Íslands.
    Þá nefndi hv. þm. það ákvæði, það kom raunar fram í máli fleiri ræðumanna, að nú væri krafist tveggja ábyrgðarmanna og spurði hvort þetta gæti talist eðlilegt og hvort algengt sé að lántakendur greiði ekki og greiðslur falli á ábyrgðarmenn. Mér skilst að það sé ekki algengt að greiðslur hafi fallið á ábyrgðarmenn en ekki heldur óþekkt og einhverjar slíkar innheimtur munu núna vera á ferðinni. Ég get ekki séð að það sé neitt óeðlilegt við það. Menn hljóta að vita hvað þeir eru að gera þegar þeir gangast í ábyrgðir fyrir þá sem taka lán.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson beindi til mín allmörgum fyrirspurnum. Raunar hóf hann mál sitt með fyrirspurn sem er að vísu þessu máli alveg óviðkomandi. Hann spurði hvað menntmrh. ætlaði sér að gera ef Háskóli Íslands innritaði ekki nýnema í haust. Ég get ekki svarað öðru en því að ef til þess kemur þarfnast það að sjálfsögðu sérstakrar athugunar. Hins vegar get ég ítrekað það sem ég hef áður sagt og við önnur tækifæri að ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að í aðhaldsaðgerðum sínum muni Háskóli Íslands fara þá leið í haust að innrita enga nýnema. Ég tel að ef Háskólinn velur þá leið verði hann að skilgreina forgangsröðun sína öðruvísi en nú og gera ljósari grein fyrir henni. Hv. þm. spurði hvort eftirstöðvar lána féllu niður við 67 ára aldur og vísaði í töflur sem fylgja frv. t.d. töflur sem varða hjúkrunarfræðinga. Um þetta eru ekki ákvæði í frv. Almenna reglan þar er hins vegar sú að öll lán eigi að greiðast upp. Stjórn sjóðsins hefur hins vegar viðtækar heimildir til að taka tillit til sérstakra aðstæðna og veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu að hluta eða öllu leyti ef fjárhagsleg staða skuldara breytist verulega. Í töflum með frv. eru sýndir útreikningar til 67 ára aldurs skuldara. Eftir þann aldur eru margir hættir störfum og hafa lífeyri sér til framfæris. Af frv. verður það hins vegar ráðið að stjórn sjóðsins er heimilt að taka tillit til slíkra breytinga á högum fólks og þá að teknu tilliti til eigna og annarra þátta. Svar mitt er því að til þess geti komið að eftirstöðvar lána falli niður þegar þessum aldri er náð en til þess þarf atbeina stjórnarinnar.

    Þá spurði hv. þm. hvort ætlunin væri að útiloka lækna frá sérnámi í Bandaríkjunum. Læknar í sérnámi í Bandaríkjunum og raunar víðar eru flestir starfandi sem aðstoðarlæknar meðan á sérnámi stendur. Í tíð fyrri ríkisstjórnar var sú breyting gerð á útlánareglum að ekki var litið á laun lækna í sérnámi sem laun. Þar af leiðandi fengu þeir og raunar makar þeirra ýmis réttindi sem áður voru ekki fyrir hendi. Núverandi stjórn LÍN hefur fært útlánareglur til fyrra horfs. Fái námsmaður styrki eða laun fyrir nám sitt sem eru hærri en reiknuð framfærsla LÍN á viðkomandi námsstað er viðkomandi námsmaður talinn vera í starfi en ekki námi. Vegna þess að sérstaklega er spurt um sérnám lækna í Bandaríkjunum má geta þess að mjög algengt er að þeir læknar hafi laun sem jafngilda 100.000--200.000 kr. íslenskra á mánuði. Hér er sem sagt verið að koma í veg fyrir að þessi hópur njóti sérréttinda hjá LÍN. Nú eru reglurnar eins og þær voru áður en fyrri stjórn breytti þeim. Þá hindraði þessi regla lækna ekki í því að sækja sérnám í Bandaríkjunum og það gerir hún heldur ekki nú. Þetta er svar mitt við þessari spurningu.
    Hv. þm. spurði svo hvort vitað væri hversu margir íslenskir námsmenn hafi sest að erlendis. Lánasjóðurinn hefur upplýsingar um búsetu viðskiptavina sinna og það er auðvitað alltaf svo að einhverjir þeirra setjast að erlendis. Um þá gilda ákveðnar reglur um framtal launa gagnvart LÍN og ef ekki berast staðfest framtöl þá er áætlað mjög stranglega á þessa aðila. Ég held hins vegar að það sé varhugaverð leið að setja einhvers konar átthagafjötra á okkar námsfólk eftir að námi lýkur. Það kann að vera nokkurs virði fyrir okkur fámenna þjóð að hafa aðgang að löndum okkur sem starfa erlendis við aðrar aðstæður en eru hér á landi, getur haft ýmsa kosti og þýðingu í för með sér. Einnig er það svo að ef við ætluðum að láta þá sem setjast að erlendis greiða hraðar til baka þyrftum við að hafa tvenns konar skilmála í skuldabréfunum. Þetta er auðvitað hægt og ef vilji er til þess að fara þá leið er sjálfsagt að athuga hana og þetta er eitt þeirra atriða sem ég óska eftir að hv. menntmn. kanni til hlítar.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir kom víða við í sinni ræðu en ég held að ekki hafi verið beinar spurningar til mín nema þá um atriði sem ég hef þegar gert að umræðuefni og svarað.
    Hv. þm. Finnur Ingólfsson spurði hvort til greina kæmi að skipta endurgreiðslum þannig, ég vona að ég hafi tekið rétt eftir, að tekjutengja afborganir fyrstu 25 árin en taka síðan upp jafngreiðslulán og tryggja þannig endurgreiðslu lánanna að fullu, endurgreiðslu á einhverju tilteknu árabili án þess að hv. þm. nefndi það. ( Gripið fram í: Á 15 árum.) Á 15 árum, þannig að heildarlánstíminn yrði 40 ár. Þetta er ég að láta reikna núna. Ég var að gera mér vonir um að hafa fengið niðurstöðu fyrir þennan fund en það varð ekki og ég fæ þetta ekki fyrr en seinni partinn í dag. Mér finnst þessi leið hugsanlega koma til greina ef sömu markmiðin og við höfum sett fram með frv. nást. Ég treysti mér ekki til að segja meira um þetta meðan ég hef ekki séð útreikningana. Auðvitað þarf að gefa sér ýmsar forsendur þegar verið er að reikna svona töflur og ætla ég ekki að leggja mat á hvort t.d. 25 ár séu hæfilegur tími. En mér finnst hugmyndin athyglisverð og eins og ég sagði er ég þegar búinn að óska eftir því að þetta verði reiknað út og hv. menntmn. mun að sjálfsögðu taka þetta til athugunar. Ég hef lýst því yfir að ég sé reiðubúinn til þess að skoða aðrar leiðir en settar eru fram í frv. ef þær verða til þess að við náum höfuðmarkmiðum okkar.
    Hv. þm. spurði hvort uppi væru hugmyndir um að hætta að taka tillit til aðstæðna einstakra umsækjenda. Nei, það er ekki. Í athugasemdum við 3. gr. frv. segir m.a.: ,,Ekki er gert ráð fyrir neinum verulegum breytingum á útlánum sjóðsins.`` Í frv. er hins vegar gert ráð fyrir því að sjóðstjórn hafi meira svigrúm en nú er eins og ég hef raunar þegar rakið, þ.e. hvaða tillit skal tekið til ýmissa félagslegra þátta. Af sjálfu leiðir að þar á sjóðstjórnin eftir að setja reglur þar sem frv. er ekki orðið að lögum. Ég hef þegar svarað þeirri spurningu hvort ég geti hugsað mér aðrar endurgreiðsluleiðir en eru í frv.
    Hv. þm. lauk máli sínu með því að beina til mín nokkrum spurningum. Ég er ekki alveg viss um að ég hafi náð þeim öllum en m.a. spurði hann um heimildina til að gefa út skuldabréfalán og spurði til hvers. Hvers vegna ekki að nota bankakerfið? Í 12. gr. frv.

er heimild til handa stjórn LÍN að veita almenn skuldabréfalán, verðtryggð og með vöxtum sambærilegum við útlánsvexti banka til allt að 10 ára. Þessi heimild er hugsuð til þess að stjórn sjóðsins hafi svigrúm til að veita lán sem ekki er hægt að lána með þeim kjörum sem tíðkast í námslánakerfinu. Ekki er farið út í að skilgreina í frv. til hvers skal lánað og undir hvaða kringumstæðum heldur er stjórninni ætlað að móta reglur um þessi lán. Ástæðan fyrir því að þessi lán eru ekki í bankakerfinu er sú að bankakerfið veitir venjulega ekki lán til svo langs tíma sem hér er heimilt. Þegar þær aðstæður hafa skapast á íslenskum lánamarkaði að bankakerfið láni til svo langs tíma má vel hugsa sér að þessi heimild verði felld niður og bönkunum falið að sjá um slík lán og til þess þarf að sjálfsögðu ekki neina sérstaka löggjöf.
    Hv. þm. spurði svo hver ástæðan væri fyrir því að lán vegna verkmenntunar væru felld niður. Er það ekki rétt? Ég hef líka skýrt það út áður. Það er hin svokallaða 20 ára regla og meginrökin eru þau að ekki felst jafnræði í því að nemendur sitji hlið við hlið t.d. í fjölbrautaskólum undir 20 ára aldri en aðeins sá sem er á verknámsbraut fær lánið, ekki hinn. Ég hef rætt þetta áður og ítreka að ef mönnum þykir að rétta leiðin til þess að örva menn til verkmenntunar --- og ég vil leita allra leiða til þess --- að lánað sé til hennar í gegnum lánasjóðinn þá er það sjónarmið út af fyrir sig.
    Hv. þm. spurði einnig, ég verð að viðurkenna að ég er í hálfgerðum vandræðum með að lesa mína eigin skrift hérna því að ég skrifaði hratt eftir honum spurningarnar, varðandi sameiningu skuldabréfanna. Ég hef líka skýrt frá því að aðrar leiðir koma til greina varðandi sameiningu skuldabréfanna en getur um í frv. Ég hef þegar látið kanna áhrif annarra leiða sem ég hef komið til hv. allshn. og sé ekki ástæðu til að rekja hér á þessu stigi. ( SvG: Til menntmn.) Til menntmn., sagði ég eitthvað annað? (Gripið fram í.) Já, sei, sei. Til menntmn. átti það að vera.
    Ég held, herra forseti, að ég hafi komið að flestum þeim spurningum, vonandi öllum, sem til mín var beint en er að sjálfsögðu reiðubúinn til að taka frekari þátt í umræðunni.