Lánasjóður íslenskra námsmanna

82. fundur
Mánudaginn 17. febrúar 1992, kl. 14:18:00 (3516)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Herra forseti. Mér fannst aðeins gæta misskilnings í svari hæstv. ráðherra í sambandi við læknana sem ég vildi gjarnan fá leiðrétt. Ég geri að sjálfsögðu ekki athugasemd við það að læknar eða aðrir námsmenn, hverjir sem þeir eru, fái ekki lán ef þeir hafa styrki, laun eða einhverjar tekjur aðrar umfram það sem framfærslan er talin kosta í viðkomandi landi. Ábending mín og athugasemd er hins vegar sú að mér finnst að læknar, hvar sem þeir eru, eigi að sitja við sama borð að þessu leyti og aðrir námsmenn. Mér er mjög vel kunnugt um að t.d. í Bandaríkjunum eru margir námsmenn í öðru námi en læknanámi með alls konar aðstoð. Þeir eru sumir það sem kallað er ,,assistanceship`` á ensku eða eiginlega aðstoðarmenn og fá greiðslu fyrir það. Þá hlýtur það að sjálfsögðu að dragast frá þeim framfærslukostnaði sem reiknaður er. Ég vil því leyfa mér að ítreka spurningu mína þannig: Telur ráðherra ekki rétt að læknar sitji við sama borð hvar sem þeir eru og ef þeir hafa ekki einhvers konar tekjur sem nái framfærslukostnaði fái þeir viðbótarlán frá lánasjóðnum? Þetta er í raun og veru spurning mín.