Lánasjóður íslenskra námsmanna

82. fundur
Mánudaginn 17. febrúar 1992, kl. 14:29:00 (3525)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Menntmrh. sagði áðan, sem svar við spurningu sem beint var til hans í ræðu, að þó ekki væri algengt þá væri það hins vegar ekki óþekkt að námslán féllu á ábyrgðarmenn. Hann sagði jafnframt að það væri kannski ekkert óeðlilegt því að þeir sem gerðust ábyrgðarmenn hlytu að vita hvað þeir væru að gera þegar þeir gengjust í ábyrgð.
    Það er skoðun mín og ég vænti þess að það sé skoðun allra hér inni að fólk eigi ekki að ábyrgjast meira en það er borgunarmenn fyrir hvort sem það eru námslán eða annars konar skuldbindingar sem einhverjir takast á hendur. Hins vegar finnst mér sem ríkisvaldið geri með 7. gr. frv. kröfu til þess að einhverjir einstaklingar gerist sjálfskuldarábyrgðarmenn að hundruðum þúsunda, jafnvel milljónum kr. án þess að vita í rauninni hver framtíð þess fólks verður sem tekur þessi námslán. Ég vil benda á að í athugasemdum við 7. gr. með frv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Tekin er upp sú nýbreytni að á hverju nýju skuldbréfi sem námsmaður gefur út komi fram heildarskuld hans. Endurgreiðsla fer fram eftir síðasta skuldbréfi sem hann gefur út. Er þá eldra bréf eyðilagt um leið og nýtt er gefið út. Skv. núgildandi lögum undirrita flestir lánþegar LÍN mörg skuldabréf, sem falla öll í gjalddaga á sama tíma, og væru þau innheimt samtímis yrði um margfalda greiðslubyrði að ræða. Þetta fyrirkomulag er enn fremur mjög óheppilegt þegar innheimta þarf vanskil. Hefur hér vafalaust verið um yfirsjón að ræða hjá löggjafanum`` --- er síðan sagt --- ,,þegar lög nr. 72/1982 voru sett.``
    Ég held að þetta hafi ekki verið yfirsjón heldur hafi þetta vísvitandi verið gert til að hafa skuldabréfin mörg og þar af leiðandi hugsanlega marga sjálfskuldarábyrgðamenn þannig að hver sjálfskuldaábyrgðarmaður bæri þá ábyrgð á minni upphæð. Þessi breyting sem nú er verið að gera þýðir það að að lokum eru það tveir einstaklingar sem standa uppi með ábyrgðina á öllu námsláninu hvort sem það hleypur á milljónum og þetta finnst mér

að verði að skoða vel í menntmn.