Lánasjóður íslenskra námsmanna

82. fundur
Mánudaginn 17. febrúar 1992, kl. 15:51:00 (3527)

     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna er mikið frv. og varðar afkomu fjölda fólks. Ég minnist þess fyrir 30--40 árum, og ég geri ráð fyrir því að hæstv. menntmrh. muni það líka, þegar lánakjör eða styrkir námsmanna við Háskóla Íslands voru á þann veg að við sem ekki áttum ríka að gátum ekki fengið neina styrki vegna þess að við urðum að vinna fyrir okkur. Mér sýnist að við séum örlítið að hverfa í þá átt aftur.
    Samkvæmt lögum íslenska ríkisins lýkur framfærsluskyldu foreldra við 18 ára aldur. Þeir sem eru í skóla 18 ára eru sjálfsagt flestir þannig settir félagslega séð að þeir eiga styrkan stuðning foreldra sinna áfram. En það er ekki sjálfgefið að svo sé og þarna er því komið að vendipunkti í tilveru nokkuð stórs hóps ungmenna sem verður að sjá fyrir sjálfum sér og jafnframt að ganga í skóla. Margir þeirra hafa verið í iðnnámi en auðvitað í öðrum skólum líka. Ég þekki nokkuð mörg dæmi um að ungt fólk, 18 ára og jafnvel yngra, þarf að sjá fyrir sér og á ekki í styrki að sækja nema því aðeins að það sé í verknámi og það ekki einu sinni í öllu verknámi heldur bara sumu.
    Lánasjóður ísl. námsmanna hefur verið þannig hingað til að hann hefur mismunað fólki frá 18 ára aldri. Hæstv. menntmrh. gerði nokkuð mikið úr því að stúlka sem væri í náttúrufræðideild fengi engan styrk en piltur sem væri að læra rafvirkjun fengi styrki frá 18 ára aldri og væru þau þó systkin og byggju við sömu aðstæður. Þetta er rétt svo langt sem það nær en Lánasjóður ísl. námsmanna hefur mismunað verr en þetta hingað til því sumt verknám hefur verið lánshæft en annað ekki. Nægir að nefna þar t.d. sjúkraliðanám þar sem fólk fékk ekki styrk úr lánasjóðnum fyrr en það var komið á síðasta ár en piltar gátu byrjað miklu yngri og miklu fyrr að fá lán ef þeir voru í iðnnámi. Svona mismunun hefur lánakerfið, sem við eigum við að búa, boðið upp á. Þar hafa verið ýmsir fleiri vankantar. Ég hef ekki getað betur séð en þetta kerfi hafi bæði verið vinnuletjandi og líka launaletjandi, þ.e. að ungt fólk sá sér ekki hag í því að vinna nema mjög takmarkað með námi, jafnvel þótt það gæti það, vegna styrkjakerfisins. Svona hluti þarf auðvitað að lagfæra. Það þarf bæði að bæta það að allir sem eru í sams konar námi sitji að sömu kjörum og eins það að fólk sjái sér ekki hag eða óhag réttara sagt í því að vinna og afla sér fjár vegna þess að þá á á vísan að róa í lánasjóðnum. Svona vitleysa á náttúrlega ekki að líðast.
    Kerfið sem nú er boðið upp á í þessu nýja lagafrv. er sýnu verra finnst mér vegna þess að nú á það unga fólk sem ætlar sér að fara í verknám eða starfsnám að bíða í tvö ár þangað til það getur farið að fá styrki til þess að læra til lífsstarfsins meðan þeir sem taka stúdentspróf, hvort sem þeir eru 17, 18 eða 20 ára, geta strax farið að fá styrki. Þetta er mismunun sem ég get ekki séð að sé hæf. Ég held það væri sýnu nær að fólk ætti möguleika á námslánum alveg frá 18 ára aldri. Einnig hefur hæstv. menntmrh. rætt um það að breyta stúdentsprófskerfinu þannig að því ljúki við 18 ára aldur. Þá yrði mismununin enn þá hrikalegri ef allir nemendur yrðu stúdentar 18 ára og færu í styrkhæft framhaldsnám meðan verkmenntafólkið ætti ekki sömu möguleika.
    Ég hef alltaf litið svo á að Lánasjóður ísl. námsmanna styrkti fólk til tvenns. Annars vegar til frekari fræðiiðkana og náms og hins vegar til að búa sig undir lífsstarf. Þörf

þjóðarinnar er þannig varið að við þurfum bæði fólk með trausta undirstöðu og gott verknám, kannski ekki svo afskaplega mörg ár en mjög traust verknám, og hins vegar lengra almennt skólanám og síðan viðbótarnám á háskólastigi. Það unga fólk sem núna stendur frammi fyrir því að velja verknám eða háskólanám, langt háskólanám sem hugsanlega veitir því hærri laun, mun vafalaust hika við að fara í verknámið hversu vel sem það væri hæft einmitt til þeirra starfa. Þetta er vandamál. Þeir munu hika við það og fara kannski heldur í nám sem ekki hæfir því eins vel vegna þess að lánakjörin eru mikið betri og þar af leiðandi velja nemendur það.
    Ég hef nú þegar heyrt frá sérskólanemum sem láta í ljós ótta við það að taka lán og verða svo ekki búnir að borga þau þegar komið er á ellilaun. Þeir segja eins og vonlegt er: Við getum ekki þetta, þetta er ekki hægt að fara út í. Jafnframt get ég ekki betur séð en að þetta kerfi muni hvetja til þess að reynt verði að koma bæði fósturnámi, þroskaþjálfaskóla og fleiri skólum, hugsanlega bændaskólunum líka, upp á háskólastig, jafnvel þótt ekki sé þörf á því. Mér finnst að háttvirtir forustumenn þjóðarinnar, bæði forustumenn Alþfl. og Sjálfstfl. ættu að leggja vel eyrun við þessu. Ég veit að tilhneiging mun verða til þess að ýta þessu námi upp á háskólastig þó ekki sé þörf á því. Ég held að þjóðhagslega séð sé miklu hagkvæmara að þessir sérskólar, sem ég var að nefna, séu ekki endilega á þessu langa háskólastigi heldur á því sem kallast ,,college-stig`` sem er styttra nám og ekki háskólanám. Þetta álít ég að hæstv. menntmrh. ætti að athuga og gefa orðum þessa unga fólks gaum sem segir nú þegar: Við erum óttaslegin, við þorum ekki að taka þessi lán vegna þess að þau verða okkur ofurefli og við getum ekki staðið undir því á gamals aldri að skila nokkurra milljóna kr. skuld til barnanna okkar. Það er líka fortíðarvandi.
    Eins og ég sagði þá er þetta óráðlegt, ekki bara fyrir unga fólkið heldur fyrir okkur sjálf, íslensku þjóðina, að beina því fólki sem hugsanlega hefur besta hæfilega til að fara í umönnunarþjónustu, eins og fósturþjónustu og þroskaþjálfun, beina því inn á miklu lengri og kannski þjóðhagslega óhagkvæmari braut.
    Afborgunarreglurnar, eins og ég var að nefna, eru hættulegar. Þær munu letja fólkið, þær munu ýta því frá þessu stutta námi, þær munu reyna að troða því yfir í nám þar sem er meiri launavon hvert sem hugur þeirra að öðru leyti stefnir. Ég get ekki látið hjá líða að minna á að við erum að fara inn í eitthvert náið samstarf, eftir því sem ríkisstjórn þessi vill, við Evrópskt efnahagssvæði. Ef hæstv. menntrmh. ræðir við forustumenn í menntamálum innan þess svæðis þá mun hann vafalaust fá að kynnast því að þeir leggja mikla áherslu á aukna verkmenntun, aukna menntun þess fólks sem nú á ekki lengur að fá námslán vegna þess að við stefnum í geysimikla samkeppni og það verður lögð höfuðáhersla á mikla verklega færni og mikla afkastagetu. Þeir sem verða undir í þeirri samkeppni munu heldur ekki eiga auðvelt með að taka þátt í þessu samstarfi. Það er því lífsnauðsyn fyrir íslensku þjóðina, ef við ætlum að taka þátt í Evrópusamstarfinu, að styrkja alla verkmenntun í landinu. Ef taka á Lánasjóð ísl. námsmanna af verkmenntafólkinu sé ég ekki annað ráð en að stofna nýjan sjóð, verkmenntasjóð landsmanna. Ef það er gert væri líka hægt að kalla þetta frv. réttu nafni, þ.e. frv. til laga um lánasjóðs íslenskra stúdenta í langskólanámi. Mér sýnist að það stefni í að það séu þeir sem fá þarna lán.
    Þeir sem áttu ekki möguleika fyrir 30 árum á að fá styrk frá háskólanum af því þeir þurftu að vinna fyrir námi mundu í dag líka eiga erfitt með að fá ábekinga til að skrifa upp á lán upp á 2--4 millj. kr. Þar af leiðandi held ég að það sé skynsamlegra að það séu fleiri lægri lán og þá er auðveldara fyrir þá að kljúfa það. Við verðum að gæta þess að í hópi þeirra sem ekki eiga aðstandendur sem geta stutt þá meira og minna á þessari námsbraut er mikið af efnilegu fólki sem við höfum ekki efni á að missa frá námi. Við eigum að geta styrkt það fólk líka.
    Ég ætla þá að ljúka máli mínu núna og á kannski eftir að segja eitthvað í næstu umræðu. --- [Fundarhlé.]