Lánasjóður íslenskra námsmanna

82. fundur
Mánudaginn 17. febrúar 1992, kl. 18:03:00 (3528)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Mér er kunnugt um að hæstv. menntmrh. er væntanlegur í salinn á hverri stundu og þar sem ég mun tala mjög stutt mál vil ég gjarnan fá að hinkra eftir honum. Ég geri ekki ráð fyrir að það verði langur tími, hann tjáði mér að hann væri væntanlegur --- og það var rétt, því hér er hann kominn.
    Virðulegi forseti. Það eru ekki margar athugasemdir sem ég ætla að gera við þetta frv. Aðrar kvennalistakonur hafa nú þegar fjallað í ítarlegu máli um það hver áhrif vaxtagreiðslur og breytingar á kröfum um endurgreiðslur hafa og ég tek undir það. Ég tel að hér sé verið að stíga mjög alvarlegt skref og það í ranga átt.
    En það sem ég vil gera hér að umræðuefni er að lýsa eftir menntastefnu því ég tel að lög um Lánasjóð ísl. námsmanna hljóti að bera vott um menntastefnu ríkisstjórnarinnar. Ég vil þá sérstaklega taka fyrir það aldursmark sem sett er í þetta frv. þar sem gert er ráð fyrir að ekki verði veitt námslán til þeirra sem ekki hafa náð 20 ára aldri. Ég tel það mjög alvarlega þróun, einkum vegna þess að þarna er beinlínis verið að beina fólki frá verkmenntanámi og gera breytingar á þeirri stefnu, sem verið hefur, að hægt sé að velja sér stutt starfsnám en beina ekki öllum í háskóla. Þetta mun einnig, eins og hv. síðasti ræðumaður Guðrún J. Halldórsdóttir benti á, verða til þess að aukinn þrýstingur verður á skóla að vera taldir á háskólastigi. Þarna er í rauninni verið að stíga mjög óskynsamlegt skref og ég treysti því að í hv. nefnd verði þetta tekið sérstaklega fyrir.
    Ég vil benda á að ég er ekki fullánægð með það ástand sem við höfum nú í skólum þar sem mikið er um að skólar sem ættu að vera á framhaldsskólastigi hafa verið leynt eða ljóst settir á háskólastig með einum eða öðrum hætti. Ég tel að það þurfi að vera svigrúm fyrir verkmenntunarnám og annað styttra nám yngri nemenda og þá nám sem leiðir til lokaprófs en ekki sé byrjað á öllu við 20 ára aldur. Það er ljóst að námslán skipta marga sem eru í sínu lokanámi, t.d. starfsnámi, miklu máli og valda miklu um hvaða nám er valið.
    Ég er út af fyrir sig ekki að gera athugasemdir við það að ýmsir skólar séu nú að færast upp á háskólastig og nefni t.d. listaskólana. Í sjálfu sér er orðið tímabært að hér verði til listaháskóli en ég hlýt að spyrja, hver sá undirbúningur sé sem fólki stendur til boða undir þessa skóla. Ég held að það þyrfti að vera til annað stig þar á undan sem gæti leitt til lokaprófs og jafnframt til framhaldsnáms. Ég bendi á að sá niðurskurður í skólakerfinu, hinn almenni niðurskurður sem við höfum nú þegar setið undir að meiri hluti Alþingis hefur samþykkt leiðir til mikils niðurskurðar í framhaldsskólakerfinu. Það er mjög bagalegt vegna þess að hann mun ekki síst bitna á verknámi. Þannig er á fleiri en einn hátt verið að vega að þeirri menntastefnu sem ég held að hljóti að verða að hafa í heiðri, þ.e. að gefa nemendum raunverulegt val um lífsstarf og undirbúning undir það með menntun. Þetta eru þær athugasemdir sem ég tel að sé mjög mikilvægt að komi fram. Jafnframt vil ég benda á að á 113. löggjafarþingi og raunar á einu þingi þar á áður var flutt frv. undir forustu kvennalistakonunnar Þórhildar Þorleifsdóttur um breytingar á lögum um námslán og námsstyrki þar sem gert var ráð fyrir því að einstæðir foreldrar gætu fengið fjárhagsaðstoð og ég vil sérstaklega benda á að þar gert ráð fyrir möguleika á aðgangi að lánasjóði óháð aldri eða eðli náms. Ég tel þetta mjög brýnt réttindamál, ekki síst vegna þess að í ljós hefur komið að mjög algengt er að ungir einstæðir foreldrar hverfi frá námi. Það er mjög vond þróun. Ég vil líka benda sérstaklega á að þetta er hópur sem býr við lægstu tekjurnar í þjóðfélaginu upp til hópa. Þetta er mikið réttindamál kvenna því að enn er það þannig að meira en 90% einstæðra foreldra eru konur og það eru meira en 10 þúsund börn á framfæri þessara einstæðu foreldra. Ég held það sé alveg bráðnauðsynlegt að taka tillit til þessara aðstæðna og tek undir það að það er í rauninni mjög slæmt ef það á að fara að útiloka félagslegar aðstæður sem þessar í sambandi við veitingu námslána.
    Ég vísa að öðru leyti í ræður annarra kvennalistakvenna og ætla ekki að lengja þessa umræðu hér en ég tel brýnt að þessar athugasemdir komi fram og að þær verði teknar með í umfjöllun nefndarinnar.