Lánasjóður íslenskra námsmanna

82. fundur
Mánudaginn 17. febrúar 1992, kl. 18:09:00 (3529)

     Össur Skarphéðinsson :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þær góðu og að mörgu leyti málefnalegu umræður sem hafa farið fram í dag um þetta mikilvæga mál sem er til umræðu. Ég ætla á þessu stigi ekki að hafa hér mjög langt mál. Það er alveg ljóst að það eru skiptar skoðanir um ýmis atriði þessa frv. og það hefur komið fram m.a. í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, fulltrúa Alþfl. í menntmn., að það er áherslumunur um ýmis atriði milli stjórnarflokkanna í þessu. Hins vegar vil ég sérstaklega vekja athygli á því að það hafa komið fram mjög merkar yfirlýsingar frá hæstv. menntmrh. í þessari umræðu þar sem hann hefur lýst því yfir hvað eftir annað að hann sé reiðubúinn til þess að skoða ýmsar breytingar á þessu frv. Þessar yfirlýsingar hafa m.a. komið fram hér í framsögu hans fyrir frv. og jafnframt á fundi með námsmönnum í Háskólabíói. Og hann hefur sérstaklega beint því til menntmn. að kanna einstök atriði ítarlega í sinni umfjöllun. Ég tel að þessar yfirlýsingar menntmrh. setji þetta mál algerlega í nýja stöðu og ég fagna þeim. En það eru eigi að síður örfá atriði sem mig langar til á þessu stigi að drepa á.
    Það er gjarnan talað um að íslenskir námsmenn hafi sérstaklega mikið ráðstöfunarfé til umráða frá lánasjóðnum í samanburði við námsmenn annarra landa. Því er jafnframt oft borið við að þeir hafi meira fé til ráðstöfunar en námsmenn þeirra þjóða sem við miðum okkur gjarnan við, t.d. í velferðarsamfélögum á Norðurlöndunum. Þess vegna er afskaplega fróðlegt að lesa þá töflu sem birt er á bls. 26 í frv. þessu. Þar kemur m.a. fram, svo að ég taki tvö dæmi, að norskur námsmaður hefur frá norskum stjórnvöldum til umráða í íslenskri mynt sem svarar 49.050 kr. á mánuði og vissulega er nokkur hluti þess styrkur. En námsmaður frá Íslandi sem nemur í nákvæmlega sama umhverfi við hlið hins norska námsmanns hefur til umráða frá Lánasjóði ísl. námsmanna örlítið minna eða 47.420 kr. Við getum líka tekið Svíþjóð sem dæmi. Þar er hinn íslenski námsmaður með 48.390 en sá sænski er með 63.120 kr. og þar af eru 18.700 í styrk. Þetta sýnir, frú forseti, að það er ekki fullkomlega rétt þegar menn eru að halda því fram að íslenskir námsmenn hafi meira fé til ráðstöfunar en hinir erlendu. Það er að vísu rétt að hið íslenska kerfi hefur þá sérstöðu umfram t.d. þau kerfi sem námsmenn á Norðurlöndum búa við að þar er tekið sérstakt tillit til félagslegra aðstæðna og ég verð að segja það að hingað til hafa Íslendingar verið stoltir af þessu og vilji menn hverfa algerlega frá þessu þá finnst mér að beri nýrra við.
    Það er líka rétt að vekja athygli á því í þessu máli að íslenskir námsmenn eru yfirleitt eldri en félagar þeirra í öðrum löndum þegar þeir fara í háskólanám, þ.e. hér ljúka menn ekki stúdentsprófi fyrr en þeir eru tvítugir en gjarnan 18 vetra á öðrum Norðurlöndum og í öðrum löndum í Evrópu þannig að þeir eru yfirleitt komnir lengra á veg með að stofna fjölskyldur heldur en félagar þeirra í öðrum löndum og þess vegna er það ekkert óeðlilegt að þessu atriði sé gefinn sérstakur gaumur.
    Sömuleiðis er því fleygt og því hefur verið fleygt í þessari umræðu að endurgreiðslur séu mun erfiðari í ýmsum öðrum löndum. Ég vil þá aftur líta til þessara tveggja landa. Ef við lítum t.d. á Noreg, þar eru endurgreiðslur tekjutengdar fyrstu þrjú árin, ef ég man rétt, þannig að námsmenn greiða sem svarar 5,25% af tekjum sínum af lánum og afgangurinn er síðan greiddur á allt að 15 árum. Þetta er hægt að lesa á bls. 24 í frv.
    Í Svíþjóð er kerfið enn hagstæðara fyrir námsmenn. Þar greiða þeir 4% árlega af tekjum sínum af lánunum nema þá aðeins þeir sem festa sig í búsetu erlendis, þ.e. utan Svíþjóðar að námi loknu, þá greiða þeir mun hraðar niður. Ég vek athygli á því að í umræðum um þetta mál hefur komið fram hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að það sé vel íhugunarvirði að beita einhverju svipuðu á íslenska kerfið. Og ég vil lýsa því yfir að ég tel, miðað við það erfiða ástand sem við búum við, sé þetta atriði sem menn eigi að íhuga.
    Jafnframt vil ég drepa á mál sem ég þekki talsvert af eigin reynslu. Ég veit að það er afskaplega erfitt að fara í langt nám eins og til að mynda doktorsnám. Slíkt nám er geysilega dýrt og menn binda sér þunga skuldabagga meðan á því stendur. Hins vegar er nám af því tagi yfirleitt mjög mikilvægt. Það skilar sér oft, ekki síst löng og mikil menntun í raunvísindum, í verkefnum sem koma strax að notum í atvinnulífi eða í einstökum verkefnum í framleiðslu. Hins vegar er alveg klárt að óttinn við miklar námsskuldir letur mjög gott námsfólk til þess að fara í langt nám. Þetta hefur nú þegar komið fram hér á

Íslandi í því kerfi sem við búum við núna. Nú þegar búum við við skort á menntamönnum í ýmsum sérhæfðum greinum og ég nefni eina grein sem skiptir miklu máli fyrir íslenskt samfélag, þ.e. fiskifræði. Ég veit ekki betur en nú sé skortur á fiskifræðingum og það er ekkert efamál í mínum huga að það er fyrst og fremst vegna þess að nám af þessu tagi er afskaplega langt og afskaplega dýrt og jafnvel það kerfi, sem við búum við núna, letur menn til að fara í svo langt nám. Ef menn þess vegna hyggjast með einhverjum hætti breyta endurgreiðslum og þyngja þær verulega þá er ég hræddur um að það verði til þess að gott námsfólk hættir við að fara í svona langt nám. Og það mun vitaskuld verða þegar fram í sækir erfitt fyrir íslenskt samfélag.
    Vissulega er það í umræðunni að koma upp sérstökum styrkjum fyrir þá sem hyggja á langa skólagöngu en ég tel að það þurfi að taka mun sterkar á því og gera það mun skilmerkilegar í því frv. sem nú liggur fyrir.
    Það eru ýmis atriði önnur sem hér hefur verið drepið á, m.a. auknar takmarkanir eða hömlur á því að veita lán til þeirra sem vilja fara í stutt iðnnám, séu þeir ekki orðnir tvítugir. Á sínum tíma var þetta mikið baráttumál, ekki bara fyrir námsmannahreyfingarnar heldur líka fyrir verkalýðshreyfinguna og ég hygg að það verði spor aftur á bak ef menn ætla sér að breyta þessu á hinn verra veg en ég fagna því alveg sérstaklega að hæstv. menntmrh. hefur rætt þetta mál og fyrr í umræðunni vísaði hann því til menntmn. að taka þetta sérstaklega til endurskoðunar, eða svo skildi ég það a.m.k.
    Það atriði sem skiptir einna mestu máli fyrir námsmenn dagsins í dag og menntamenn framtíðarinnar eru endurgreiðslurnar. Það er nauðsynlegt að skoða þær mjög vel. Verði þær of harðar þá verka þær í fyrsta lagi letjandi á menn til þess að fara í langt og sérhæft nám og í öðru lagi er hætta á því að of harðar endurgreiðslur hvetji okkar bestu námsmenn til að taka upp varanlega búsetu erlendis þar sem launakjör eru hærri og betri heldur en hér og jafnframt auðveldara að komast inn í húsnæðiskerfið. Ég vil þess vegna segja að mér líst vel á þær tillögur sem hafa komið úr hópi námsmanna um tekjutengt endurgreiðsluhlutfall.
    Það sem mér finnst líka afskaplega erfitt varðandi það frv. sem hér liggur fyrir eru þau áhrif sem það kann að hafa á menntamenn framtíðarinnar að því er varðar húsnæðiskerfið. Mér sýnist næsta auðvelt að reikna það út að miðað við það kerfi sem er lagt til í þessu frv. þá muni reynast afskaplega örðugt fyrir marga menntamenn með meðaltekjur að komast inn í húsnæðiskerfið. Það tel ég auðvitað afar slæmt. Slíkt kerfi og slíkar breytingar geta ekki annað en hvatt til þess að menntafólk hverfi til búsetu erlendis þar sem er miklu auðveldara fyrir það að komast inn í húsnæðiskerfið. Ég vek sérstaklega eftirtekt á því að með þeim breytingum sem kunna að verða varðandi samskipti okkar við Evrópu og mögulega aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu þá verður auðvitað miklu auðveldara um vik fyrir íslenska menntamenn að taka upp fasta búsetu erlendis. En einmitt hér skipta yfirlýsingar menntmrh. miklu máli. Hann hefur tekið á hugmyndum námsmanna af mikilli vinsemd. Hann lét svo ummælt hér á þingi að það bæri að kanna sérstaklega hugmyndir námsmanna um tekjutengt endurgreiðsluhlutfall eða eins og hæstv. menntmrh. Ólafur Garðar sagði í ræðu sinni hér 11. febr., með leyfi forseta:
    ,,Mér þykir t.d. rétt að athugað verði sérstaklega hvort réttlætanlegt er eða hvort það er yfirleitt mögulegt að tekjuhærri einstaklingar greiði hærra hlutfall en hinir tekjulægri á endurgreiðslutímanum.``
    Ég er mjög sammála því að þetta verði kannað sérstaklega. Ég tel að þeir sem sökum náms, sökum mennta, sem þeir hafa aflað sér, lenda í háu tekjuþrepi eigi að greiða hraðar niður en hinir. Og ég vek athygli á því að að sjálfsögðu mun það leiða til þess að peningarnir skila sér hraðar til sjóðsins og greiðsluflæðið verður betra. Ég tel sjálfur að hér sé um mjög merka yfirlýsingu að ræða hjá ráðherranum sem setur málið í algerlega nýja stöðu og ég styð það að þessar hugmyndir námsmanna verði skoðaðar sérstaklega í menntmn. Áður en búið er að gera það tel ég að það sé ekki hægt að fella endanlegan dóm um það hvernig hin nýju lög munu hafa áhrif á menntamenn framtíðarinnar. Þess vegna hvet ég til þess að þetta mál sérstaklega verði tekið til djúprar skoðunar í menntmn.